Greinasafni: Skipulag
Íbúum fjölgar í þjónustuíbúðum Markar við Suðurlandsbraut


Séð af efstu hæðinni á Suðurlandsbraut 62. Þrátt fyrir nálægð við Miklubrautina heyrðist umferðin nánast ekkert ef gluggum og hurðum var lokað, hljóðeinangrun er afar góð.

Eignarhaldsfélagið Grund - Mörkin býður fólki yfir sextugu að tryggja sér búseturétt í glæsilegum íbúðum við Suðurlandsbraut 58 til 62. Um er að ræða 78 íbúðir, 26 í hverri einingu fyrir sig, sem eru frá 80 upp í 140 fm að stærð og er sá háttur hafður á að fólk tryggir sér íbúðarétt með 30% íbúðaréttargjaldi sem gerir mánaðarleigu lægri en ella.

Viðbrögðin hafa verið einstaklega góð segir Gísli Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Grundar - Markarinnar, en þegar er búið að ganga frá samningum um þriðjung allra íbúðanna og töluvert um fyrirspurnir og samkvæmt könnun sem gerðvar sýndi um 700 manns áhuga á að búa í þessum íbúðum. Fyrstu samningarnir voru gerðir fyrir 7 mánuðum en gert var ráð fyrir að allar íbúðirnar yrðu gengnar út á um 2 árum. Salan er því á áætlun. Allnokkrir eru með íbúðir á sölu og koma strax og sú sala gengur eftir.
 
„Þetta eru vandaðar íbúðir, parkett á gólfum, flísar á baðherbergjum og svalir við allar íbúðir. Íbúðarréttargjaldið er um 8 milljónir króna fyrir minnstu íbúðirnar og um 115 þúsund króna mánaðarleiga og upp í 14 milljónir króna fyrir þær stærstu og þar er mánaðarleigan 215 þúsund kónur. Hússjóður er 12 þúsund og fimm hundruð krónur fyrir íbúðir minni en 100 fermetrar sem nær til þrifa á sameign, hita og rafmagn og hita á íbúðinni og fasteignagjalda en leigjandinn borgar rafmagnsnotkun í íbúðinni. Fyrir íbúðir stærri en 100 fermetrar er hússjóðurinn 13 þúsund krónur á mánuði. Í kjallara eru bílastæði sem hægt er að leigja og kosta 5 þúsund krónur á mánuði, það er frjálst val enda kannski ekki allir með bíl. Íbúðarréttargjaldið fæst endurgreitt þegar flutt verður úr íbúðinni eða viðkomandi fellur frá og fylgir byggingavísitölu en er afskrifað um 2% á ári. Við getum ekki sagt upp leigu nema til komi alvarleg vanskil eða viðkomandi sé að trufla eða ónáða nágrannana alvarlega en íbúinn getur að sjálfsögðu sagt henni upp.”

Öll þjónusta í nágrenninu
Hafi nýr íbúi fengið t.d. heimilisþjónustu eða heimahjúkrun á fyrri íbúðastað getur hann að sjálfsögðu látið hana fylgja, hann missir ekki þann rétt.
Við munum láta reynsluna ráða hver okkar þjónusta kann að verða, við munum sérsníða hana eftir þörfinni. Á hjúkrunarheimilinu Mörk sem er í næsta húsi eru hjúkrunarfræðingar á sólarhringsvakt og nokkrir íbúar eru að koma í hjúkrunarheimilið og kaupa þar hádegismat og taka þátt í félagsstarfi og leikfimistímum og það getur einnig keypt sjúkraþjálfun, farið í hárgreiðslu, fótsnyrtingu og fleira. Ef eftirspurn verður eftir einhverri þjónustu sem ekki er í dag munum við reyna að veita hana. En þessi þjónusta er ekki niðurgreidd eins og hjá Reykjavíkurborg. Íbúðirnar eru auk þess mjög miðsvæðis, stutt í alla þjónustu og verslanir, Skeifuna, Kringluna og Laugardalinn og fjölmargir matsölustaðir í næsta nágrenni,” segir Gísli Páll Pálsson.


Gréta Finnbogadóttir bjó áður á Háaleitisbraut og flutti inn í vor og segist afar ánægð með íbúðina og staðsetninguna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga