Greinasafni: Skipulag
Leiguhús. Nýtt fyrirbæri á húsnæðismarkaði

Mikið er nú rætt um breytingar á húsnæðismálum. Holskeflur í efnahagsmálum hafa komið illa við fólk og hin opinbera séreignastefna hefur fengið á sig mikla brotsjói.

Margir vilja nú orðið frekar leigja en taka á sig áhættusöm og fokdýr húsnæðislán. Ýmis ljón eru á þeim vegi. Erfitt hefur verið að fá tryggt og öruggt íbúðahúsnæði til leigu, þjónusta við leigusala og leigutaka íbúðarhúsnæðis hefur verið af skornum skammti og almennt er lítil áhersla lögð á að auðvelda fólki að nýta sér þann valkost sem leiga á húsnæði er. Í nágrannalöndunum er hins vegar völ á margvíslegum valkostum og öruggum möguleikum til að leigja húsnæði, oft á vegum ríkis, sveitarfélaga, samvinnusamtaka eða almannasamtaka af öðru tagi, og einnig bjóða einkaaðilar upp á margvíslega þjónustu á þessu sviði.

Nýr valkostur
Fyrirtækið Leiguhús er nýr valkostur á þessu sviði hér á landi. Hjá Leiguhúsum er nú boðið upp á margvíslega þjónustu við þá sem eiga íbúðarhúsnæði og vilja leigja það út, og við þá sem vilja búa í leighúsnæði.
Gunnar Jón Yngvason hefur 15 ára reynslu af leigu atvinnuhúsnæðis. Almennt er ekki amast við því að fyrirtæki leigi sér húsnæði til starfsemi sinnar og því er markaður á þessu sviði nokkuð þróaður og leigumiðlun á atvinnhúsnæði er stöðluð. Ýmsar leigumiðlanir hafa séð um að miðla atvinnuhúsnæði til leigu og það hefur gengið alveg ágætlega. Hins vegar hafa engar leigumiðlanir verið starfandi við að leigja út og miðla íbúðahúsnæði á leigumarkaði. Það er til marks um hvað leigumarkaðurinn er vanþróaður hér á landi, því slíkar leigumiðlanir á íbúðahúsnæði eru algengar í öllum nágrannalöndum.

Að leigja út húsnæðið sitt
Margir kannast við hversu vandasamt það er að leigja út húsnæði. Ýmsir hafa staðið frammi fyrir þeim valkosti að selja eða leigja, t.d. þegar farið er til námsdvalar eða vinnu erlendis. Fólk hefur heyrt ýmsar sögur, áhættusamt geti verið að leigja út húsnæði. Ekkert sé hægt að treysta á í því efni, sögur af skemmdum á húsnæði, ógreiddri leigu og öðru í þeim dúr ganga um samfélagið og valda því að fólk er ekki tilbúið að taka áhættuna af því að leigja og vill fremur selja. En nú er hart í ári og erfitt er að selja eignir.

Ókeypis skráning og auglýsingar 
Leiguhús bjóða upp á margvíslega þjónustu við þá sem ætla að leigja íbúðir og þá sem vilja taka íbúðir á leigu. Þeir sem vilja algerlega sjá um að leigja húsnæði sitt sjálfir geta gert það á vef Leighúsa. Það er ókeypis þjónusta, fólk getur skráð íbúðir og auglýst þær til leigu sér að kostnaðarlausu og einnig fengið öll skjöl og upplýsingar sem til þarf á vef Leiguhúsa, svo sem húsaleigusamning, upplýsingar um húsaleigubætur, lög sem tengjast leigu á íbúðarhúsnæði og annað sem til þarf. Fyrirtækið kemur þá ekkert nálægt leigusamningum að öðru leyti. Íbúðareigandi sér um að auglýsa íbúð sína sjálfur, sýna hana og ganga frá leigusamningi.

Þjónusta fyrir leigusala íbúðahúsnæðis við gerð samnings 
Leiguhús bjóða síðan upp á leiguþjónustu á mörgum stigum, eftir því hvað fólk þarf á að halda. Leiguhús bjóðast meðal annars til að til að halda utan um gerð leigusamnings. Það tryggir bæði leigjendum og þeim sem selja íbúðir á leigu öryggi og tryggingu fyrir því að rétt sé frá leigunni gengið.

Ráðgjöf á sviði leigumiðlunar 
Leiguhús bjóða líka upp á hvers konar ráðgjöf um það hvernig best sé að leigja út íbúðahúsnæði. Hvernig á fólk að fara að við að koma eign sinni á framfæri, hvar á að auglýsa, hvernig á að kynna húsnæðið og hvað þarf að hafa í huga þegar leigusamningur er gerður. Hvað á að gera þegar berast af því fréttir að rör hafi sprungið og eyðilagt bókasafn leigjenda eða að leigjendurnir hafi málað alla íbúðina svarta og farið síðan úr landi án þess að hafa samband við kóng né prest. Hver sé réttur leigusala og hver sé réttur þeirra sem taka íbúðina á leigu og hvernig á að leysa úr þeim vandamálum sem fylgja því að selja íbúðir á leigu.

Full þjónusta 
Síðan bjóða Leiguhús upp á alhliða þjónustu, allt frá kynningu á íbúðinni, sýningu hennar og gerðar leigusamnings. Lýkur þá afskiptum fyrirtækisins á því að leigusamningur er afhentur leigusala eða banka til innheimtu. Ennfremur stendur viðskiptavinum Leiguhúsa til boða svokölluð Fullþjónusta+. Þá sjá Leiguhús um allt sem tengist leigunni, allt frá auglýsingum, kynningu og samningsgerð til þess að sinna útleigunni sjálfri eftir samningsgerð, útleigu íbúðarinnar, innheimtu leigu og samskipti við leigutaka á leigutíma.

Ef klósettið stíflast
Þetta getur verið þægilegt fyrir einstaklinga sem leigja íbúð sína út og eru fjarverandi, t.d. erlendis, eða leigufélög, bæði stór og smá. Ef klósettið stíflast hringir leigjandinn í Leiguhús og það hefur milligöngu um að útvega stífluhreinsun, eins ef nauðsynlegt er að framkvæma viðhald af ýmsu tagi á íbúðinni. Sum fyrirtæki sem stunda útleigu vilja ekki að kvartanir um leiguna fari í gegn um skiptiborðið hjá þeim og vilja frekar að sérhæfð fyrirtæki eins og Leiguhús sinni alfarið að hugsa um leigumálin, jafnvel að mæta á húsfélagsfundi fyrir hönd eiganda.

Vel þekkt þjónusta erlendis
Fyrirtæki af þessu tagi eru vel þekkt á Norðurlöndunum og í Evrópu, þau sjá um allt sem lýtur að leigunni og sinna öllum þáttum útleigu. Allt ferlið er í höndum löggiltra leigumiðlara með áratuga reynslu á þessu sviði. Hér á landi hefur slík reynsla fyrst og fremst verið á sviði útleigu atvinnuhúsnæðis eins og áður segir, en nú er komið að því að farið verði að byggja upp leigumiðlanir á sviði húsaleigu íbúðarhúsnæðis. Leiguhús eru því frumherji á sínu sviði og spennandi að að sjá hvernig til tekst.

Sjá www.leiguhus.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga