Greinasafni: Arkitektar
Sjálfbært heilsusamfélag
Heilsuþorpið á Flúðum


Fyrirhugað heilsuþorp á Flúðum hefur vakið talsverða athygli síðan það var fyrst kynnt, enda er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða. Þar stendur til að rísi allt að 200 hundruð íbúðir í allt að 50 byggingum, ásamt fullkominni aðalbyggingu sem hýsa mun fjölbreytta þjónustu á borð við læknaaðstöðu, veitingahús, líkamsrækt, nudd, leirböð, hótel og margt fleira.

Við skipulag Heilsuþorpsins er sjálfbærni höfð í fyrirrúmi og því til sönnunar hefur bandaríska stofnunin The Sustainable Sites Initiative™ (SITES™), valið Heilsuþorpið sem eitt af þremur tilraunaverkefnum utan Bandaríkjanna til að sannreyna nýtt vottunarkerfi fyrir umhverfishönnun þar sem einkunn er gefin fyrir samþættingu umhverfis og mannvirkja, „græna“ landslagshönnun, framkvæmd og viðhald. Það að SITES hafi valið Heilsuþorpið þykir nokkur upphefð þar sem um er að ræða samstarf við ýmsa hæfustu aðila í Bandaríkjunum á þessu sviði.
Gestur Ólafsson.

Engar hrossalækningar
Gestur Ólafsson hjá Skipulags, arkitekta og verkfræðistofunni, segir að Heilsuþorpið sé í raun svar við fjölgun heilsufarstengdra kvilla sem virðist sífellt fara fjölgandi í nútímasamfélagi. „Það eru í raun orðnir ansi margir kvillar sem herja á nútímasamfélag og fólk fær ákaflega takmarkaða fræðslu um hvað er gott fyrir heilsuna, að minnsta kosti raunhæfa fræðslu. Í því samhengi eru jafnvel miklar ranghugmyndir í gangi varðandi heilsubætur og nægir að nefna ýmsar skyndilausnir sem margar hafa gagnstæð áhrif. Við ætlum hins vegar ekki að bjóða upp á neinar hrossalækningar, heldur ætlum við að hvetja og hjálpa fólki við að lifa heilbrigðu lífi. Til þess að geta haft gaman af lífinu þennan stutta tíma sem við erum

hér á jörðinni skiptir meginmáli að vera í góðu ásigkomulagi bæði líkamlega og andlega. Það er auðvitað ekki hægt með því eingöngu að auka vöðvamassa eða missa nokkur kíló – þetta snýst um að geta verið ánægður með sjálfan sig og sitt líf og það munum við aðstoða fólk við í heilsuþorpinu,“ segir Gestur. Í þorpinu munu starfa sérfræðingar frá flestum sviðum sem tengjast heilsu á einn eða annan hátt. „Við erum svo heppin að hér á landi höfum við mjög hæft og vel menntað fólk í heilsugeiranum og ætlum við okkur að nýta þessa gjöfulu auðlind. Hér verða læknar, hjúkrunarfræðingar, næringarfræðingar og allir mögulegir sérfræðingar sem munu sjá til þess að þjónustan verður í hæsta gæðaflokki.“

Ekkert utanaðkomandi áreiti

Áður en ráðist var í verkefnið var gerð viðamikil greining á ákjósanlegri staðsetningu fyrir slíkan rekstur og segir Gestur að Flúðir hafi strax staðið upp úr, en horft var sérstaklega til um klukkutíma akstursfjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu. „Hér höfum við hreint loft, þögn, norðurljós á veturna og óspillta náttúrufegurð. Það hefur nefnilega sýnt sig að til að gera svona róttækar lífsstílsbreytingar er nauðsynlegt fyrir fólk að rífa sig úr sínu venjulega umhverfi þannig að það sé laust við hin daglegu áreiti og að öðrum stöðum á Íslandi ólöstuðum þá eru Flúðir fullkominn staður fyrir slíkt,“ segir Gestur. Þá eru Flúðir í næsta nágrenni við margar af helstu náttúruperlum Íslands og Heilsuþorpið því ákjósanlegt afdrep fyrir tækifærisferðamenn og náttúruunnendur almennt.
 
Gríðarlegir möguleikar í heilsutengdri ferðaþjónustu

Gestur segir að verkefnið hafi fengið mikinn meðbyr frá því það var fyrst kynnt árið 2003, en grófu deiliskipulagi hefur nú verið lokið og á þá aðeins eftir að ljúka fjármögnun svo framkvæmdir geti hafist. Stofnað hefur verið fyrirtæki um uppbyggingu og rekstur Heilsuþorpsins og er Hrunamannahreppur einn hluthafa þess. Gestur segir að mikill áhugi sé fyrir verkefninu á Flúðum, enda er áætlað að Heilsuþorpið eitt og sér muni skapa eitthvað á annað hundrað störf og að minnsta kosti annað eins í afleidd störf. „Þessu verkefni hefur verið mætt af mikilli jákvæðni, enda eru stórkostlegir möguleikar ónýttir á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta verkefni fellur til dæmis beint inn í markmið Ferðamálastofu um að Ísland festist í sessi sem heilsueyja „Island of health“. Við viljum þó ljúka við fjármögnun áður en ráðist verður í framkvæmdir, en það er mikill áhugi á að drífa þetta af stað um leið og eitthvað fer að rofa til í peningamálum þjóðarinnar.“ Fyrirséð er að Heilsuþorpið muni þá draga inn heilmikinn gjaldeyri, þar sem stefnt er að því að verkefnið verði markaðssett bæði austan hafs og vestan. „Við höfum til dæmis séð það færast í vöxt að fyrirtæki kaupi slíkar íbúðir og sendi starfsmenn sína reglulega í allsherjar læknisskoðun og afslöppun. Þetta er þjónusta sem ekki hefur borið mikið á hér á landi, en það liggur í augum uppi að það er allra ágóði að fyrirtæki sjái til þess að starfsmenn sínir séu við fulla heilsu,“ segir Gestur. Þá geta einstaklingar einnig fest kaup á íbúð í Heilsuþorpinu og segir Gestur það til dæmis henta fólki sem kýs að hafa tvöfalda búsetu, enda verði íbúðirnar löglegar íbúðir, ólíkt t.d. flestum sumarbústöðum. Þegar eigendurnir eru hins vegar ekki á staðnum getur Heilsuþorpið haft milligöngu um að leigja íbúðina út á meðan.

Sjálfbært samfélag

Gert er ráð fyrir að þorpið verði byggt á sjö hektara svæði og er byggðin skipulögð með það fyrir augum að hið nýja samfélag verði eins sjálfbært og mögulegt er. Því segir Gestur að miklum áfanga hafi verið náð þegar Heilsuþorpið var valið sem eitt 150 tilraunaverkefna Sustainable Sites til að meta gildi nýs vottunarkerfis sem sérstaklega hefur verið hannað til þess að meta sjálfbært landslag, með eða án bygginga. Gestur segir að með þessu nýja kerfi sé lögð áhersla á að auka gæði skipulags og umhverfishönnunar og leitast við að tryggja verndun vatns, jarðvegs og gróðurs, verndun fornleifa og menningarlandslags, draga úr mengun og losun CO2, endurheimta lífríki og flokka og tryggja sjálfbæra meðferð úrgangs. Einnig sé hvatt til notkunar vistvænna efna og endurvinnslu og stuðlað að heilsu og vellíðan einstaklinga og samfélaga með vandaðri hönnun. Gestur segir að ljóst sé að SITES hafi valið Heilsuþorpið á Flúðum sem samstarfsaðila í þessu verkefni vegna þeirrar áherslu sem þar er lögð á sjálfbært og vistvænt umhverfi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga