Greinasafni: Hótel og gisting
Góður kostur fyrir fjölskylduna - Hótel Edda var stofnað 1961

Hótel Edda var stofnað 1961 og er því með eldri ferðaþjónustufyrirtækjum í landinu. Það var Ferðaskrifstofa ríkisins sem stofnaði hótel Eddu vegna þess að mikill skortur var á gistirýmum á landsbyggðinni. Menn vildu finna lausn á þeim vanda. Fyrstu hótelin voru í heimavistum Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Laugarvatni. 
Síðan komu fleiri skólar inn i keðjuna, eins og Eiðar, Reykir í Hrútafirði og Skógaskóli. „Strax frá upphafi var boðið upp á uppbúin rúm,“ segir forstöðumaður Eddu hótelanna, Tryggvi Guðmundsson, – en herbergin voru ekki með sér baðherbergi, heldur var sameiginlegt baðherbergi á göngunum. Fyrsta Edduhótelið sem var með sér baðherbergjum var hótelið á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni sem var opnað 1970.“

Í fyrrverandi og núverandi heimavistum
„Við erum ennþá víðast hvar í fyrrverandi sem og núverandi heimavistarskólum. Við rekum ennþá hótel í menntaskólunum á Akureyri og Laugarvatni, auk Menntaskólans á Egilsstöðum – en í þessum skólum er ennþá heimavist á veturna.
En við erum einnig í skólum þar sem heimavistir hafa verið lagaðar af. Við erum til dæmis á Skógum þar sem ekki er lengur skóli, Laugum í Dalasýslu, þar sem eru ungmennabúðir á veturna á vegum Ungmennafélags Íslands. Á Laugabakka í Miðfirði er barnaskóli á veturna, sem og á Stóru-Tjörnum í Þingeyjarsýslu, þar sem við erum í sérbyggðu húsnæði og skólanum.

Á Eiðum er ekki lengur skóli en þar er rekið menningarsetur. Á Norðfirði erum við í heimavist Verkmenntaskólans á Neskaupsstað. Í Nesjaskóla við Hornafjörð er ekki lengur skóli, heldur er verið að endurbyggja húsið til hótelrekstur. Svo erum við í sérbyggðu hótelhúsi í Vík í Mýrdal og á Ísafirði í heimavist menntaskólans. Ekkert af þessum hótelum eru heilsárshótel, því Edduhótelin eru öll sumarhótel.“
Þrjár gerðir af gistingu 
„Edduhótelin eru þrettán alls og bjóða upp á þrjár gerðir af gistingu. Herbergi með handlaug, eins einfalt og það gerist, síðan herbergi með baði og það sem við köllum Edda plús, herbergi með baði en meiri lúxus, eins og sjónvarpi og síma – og eru þriggja stjörnu hótel. Slík hótel eru í Vík í Mýrdal, á Stóru-Tjörnum að hluta til, Akureyri og Laugum í Sælingsdal. Stundum erum við með blandaða gistingu, það er að segja, allar týpur af herbergjum. Á Akureyri er til dæmis hægt að fá herbergi með handlaug, herbergi með baði eða Eddu plús herbergi. Þú getur valið það sem hentar þér.

“Veitingarekstur hefur alltaf verið á öllum Eddu-hótelunum og hafa þau alltaf verið opin jafnt gestum og gangandi sem og hótelgestum "

„Við erum með góðan morgunmat og leggjum áherslu á kvöldverðinn,“ segir Tryggvi. – Það er minna um að vera hjá okkur á daginn. Við erum alls staðar með fjölbreyttan matseðil á kvöldin, alls staðar með a la carte seðil. Sumir staðirnir eru með hlaðborð sem þeir sérhæfa sig í og bjóða þá minni seðil með. Og enn sem fyrr eru veitingasalirnir á Eddu hótelunum opnir öllum.“ 

Tilboðin

Tryggvi segir Eddu-hótelin nota netið mikið til að birta tilboð sem eru stöðugt í gangi. Netfangið er www.hoteledda.is og víst er að þar er oft hægt að gera góð kaup í gistingu. 

„Algengustu tilboðin er afsláttur af gistingu og stundum erum við að setja inn í þetta pakka, til dæmis, kvöldverð og gistingu. Þá veljum við daga sem við erum að gefa betri verð á. Tilboðin eru oft mjög hagkvæm fyrir fjölskyldur – auk þess sem við erum með sérstök pakkatilboð til að mæta fjölskyldufólki.“ 

Tryggvi segir Íslendinga nota Edduhótelin mikið. „Þeir eru þriðjungur af okkar gestum enda verðið gott. Við erum með þetta breiða úrval af herbergjum, á sumum stöðum jafnvel með stærri herbergi en gengur og gerist – sem henta stærri fjölskyldum.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga