Gljúfrasteinn – hús skáldsins

Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Húsið er safn Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð. Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð gjarnan við. Mikill fjöldi listaverka setur sterkan svip á heimilið, meðal annars eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval og danska málarann Asger Jörn. Einnig gefur þar að líta útsaumsmyndir eftir Auði Laxness sem var annáluð hannyrðakona. Húsgögn og innanstokksmunir eru þeir sömu og í tíð Halldórs og Auðar. 

Halldór Laxness fæddist 23. apríl 1902 í Reykjavík og lést 8. febrúar 1998. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu, Barn náttúrunnar, árið 1919 eða aðeins 17 ára, og þar með var hafinn glæstur rithöfundarferill er stóð næstu áratugi. Það var skáldsagan Sjálfstætt fólk, útgefin 1934–35, sem bar hróður Halldórs víðast, en í henni segir frá kotbóndanum Bjarti í Sumarhúsum. Halldór fékk Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955, en hann hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun. Eftir hann liggur mikill fjöldi skáldverka, leikrita og smásagna, auk endurminningabóka og ritgerða. Bækur Halldórs hafa verið þýddar á 43 tungumál og gefnar út víðsvegar um heiminn. Þó svo að Halldór hafi dvaldist langdvölum erlendis átti hann fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945 en þá réðust þau Auður í byggingu hússins. Staðsetning Gljúfrasteins réðist að miklu leyti af nálægðinni við Laxness, en Halldór vildi geta séð að bernskuheimili sínu. 

Gljúfrasteinn er í Mosfellsdal á leiðinni til Þingvalla og í 22 km fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Í safninu er tekið vel á móti öllum gestum og þeim boðið upp á hljóðleiðsögn um húsið á íslensku, ensku, sænsku, dönsku og þýsku. Í móttökuhúsi er einnig hægt að sjá margmiðlunarsýningu um ævi og verk skáldsins, einnig er þar minjagripaverslun þar sem hægt er að fá helstu verk skáldsins á ýmsum tungumálum. Garðurinn umhverfis húsið er opinn og gestir eru hvattir til að feta í fótspor skáldsins á gönguleiðum í grennd við húsið. Á sumrin er einnig boðið upp á tónleika á hverjum sunnudegi kl. 16:00.

Nánari upplýsingar má finna á www.gljufrasteinn.is

Opnunartími safnsins er eftirfarandi: 

1. júní – 31. ágúst, opið alla daga frá kl. 09:00-17:00 1. september-31. maí, opið alla daga nema mánudaga kl. 10:00-17:00. 

Aðgangseyrir:
 

500 kr. fyrir fullorðna 250 kr. fyrir börn, aldraða og öryrkja.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga