Greinasafni: Söfn
Ævintýraleg menningarmiðstöð. Landnámssetur Íslands

Landnámssetur Íslands í Borgarnesi hlýtur að teljast einhver best heppnaða menningarmiðstöð á landinu og það er hreint ævintýri að koma þangað. Þar er sögunni gerð góð skil í máli og myndum, leik og starfi, meðal annars með leiksýningunum, Mr. Skallagrímsson og Brák – verðlaunasýningum sem báðar hafa hlotið fádæma lof. En það er fleira að gerast í Landnámssetrinu, því þar eru tvær sýningar, um Landnám Íslands og Egils sögu. Þær eru flaggskip Landnámssetursins eins og framkvæmdastjórinn, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, segir.
Sýningarnar, sem báðar eru opnar daglega til sjö á kvöldin, hafa notið mikill vinsælda, hvort heldur er meðal barna eða fullorðinna. Þegar Sigríður Margrét er spurð hver sé helsta ástæðan, segir hún: „Þær eru skoðaðar með hljóðleiðsögn. Hver gestur fær „I-Pod“ á sínu tungumáli en nú þegar erum við með leiðsögnina á íslensku, ensku, þýsku, frönsku, norsku, ítölsku og pólsku, auk þess sem núna er verið að þýða hana á spænsku, japönsku og rússnesku. Við erum líka með barnaleiðsögn – sem er allt öðruvísi og höfðar til krakka allt niður í fimm ára. Við erum með tækni til að tengja „I-Podana“ saman til að foreldrar geti hlustað með börnunum og ég er ekki frá því að mörgu foreldrinu finnist barnaleiðsögnin bara skemmtilegri.“

Tvær grímur, hollur matur
Sigríður Margrét segir það taka hálftíma að fara í gegnum hvora sýningu. Þegar því sé lokið eigi maður að vita allt það helsta um landnámið, eða Egils sögu og vera tilbúinn til að lesa fornsögurnar.
Leiksýningarnar tvær sem eru í húsinu, hafa algerlega slegið í gegn og báðar hlotið tvær Grímur. Benedikt Erlingsson fékk verðlaunin sem besti höfundur fyrir Mr. Skallagrímsson og Brynhildur Guðjónsdóttir sömu verðlaun fyrir Brák. Benedikt hlaut líka Grímuna sem besti leikarinn og Brynhildur sem besta leikkonan. Báðar sýningarnar hafa verið tilnefndar sem besta leiksýning ársins – enda segir Sigríður Margrét húsráðendur í Landnámssetrinu afar stolta af þessum leiksýningum, sem fólk ferðast langa vegu til að sjá.
   
Að sjálfstögðu er líka veitingahús í Landnámssetrinu – og það verður enginn svikinn af því að fá sér að borða þar. Þegar svangir ferðalangar koma í Borgarnes, er krókurinn ekki stór sem þarf að taka niður að Landnámssetrinu til að fá sér „almennilegan“ mat að borða. „Við leggjum áherslu á holt og gott hráefni, einfalda og góða matreiðslu,“ segir Sigríður Margrét. „Við bjóðum upp á plokkfisk og kjötsúpu, en erum líka alltaf með fisk og kjöt eftir kenjum kokksins. Við viljum setja okkur á hillu sem góður og hollur fjölksylduveitingastaður með staðgóðan mat fyrir ferðalanginn.“
 
Kiðlingakjöt og víkingaleikföng
En á matseðlinum er líka oft eitthvað óvænt, eins og landnámssúpa, sem er „rosalega“ góð kiðlingasúpa, hundasúrusúpa, svartbaksegg eða gómsætir svepparéttir. Sigríður Margrét segir slíka rétti vera til ef hráefnið er til, því starfsfólk Landnámssetursins fer sjálft út og týnir sveppi og og grös og ekki sé alltaf hægt að fá landnámsgeit í soðið. Við viljum setja okkur á hillu sem góður og hollur fjölskylduveitingastaður. Og ef ferðalangurinn er ekki í stuði fyrir heila máltíð má alltaf fá sér kaffi og kökur. „Við erum með ekta ítalska kaffivél,“ segir Sigríður Margrét og okkur er sagt að besta kaffi á landsbyggðinni sé hjá okkur og Bláa húsinu á Blönduósi.“ Þegar hún er spurð hver sé uppáhalds kakan hennar, stendur ekki á svari. „Við bökum mjög góðar kökur hér en ef ég á að nefna eina sem er í uppáhaldi, þá er það er heit döðluterta með karamellusósu og rjóma. Hún er æðisleg“ 

Í Landnámssetrinu er, auk alls þessa, lítil verslun þar sem aðallega er seld íslensk hönnun. „Við erum með fallegar íslenskar vörur, bæði föt og muni en reynum að vera ekki með þessar dæmigerðu túristavörur. Við lítum á það sem meðmæli að Íslendingar versla ekkert minna hjá okkur þar en útlendingar,“ segir Sigríður Margrét. En hvað skyldi svo vera vinsælasta vörutegundin í þeirri verslun? Jú, það eru víkingaleikföngin, skyldir og sverð og slíkt – og þá hugsar maður: Mikil synd er að fornsögurnar skuli ekki vera kenndar almennilega í grunnskóla.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga