Greinasafni: Hótel og gisting einnig undir: Veitingar
Á miðjum golfvelli. Hótel Hamar í Borgarfirði
Hótel Hamar í Borgarfirði býður upp á skandinavískt yfirbragð og dásamlegt útsýni

Hótel Hamar er staðsett inni á golfvellinum sem er fjóra kílómetra norðan við Borgarnes. Hótelið var opnað í júlí 2005 og segir hótelstjórinn, Unnur Halldórsdóttir, að margir rati þangað út af stóru kókdósinni sem stendur á vellinum. Og víst er að þar er hægt að láta fara vel um sig.
„Þetta er nútímalegt og þægilegt hótel á einni hæð,“ segir Unnur. „Herbergin eru þrjátíu og þetta er svona létt og ljóst, það er að segja, hótel með skandinavískt yfirbragð – og útsýnið er dásamlegt. Maður horfir á Hafnarfjallið, fjallgarðinn í Skorradal og Skessuhornið. Það kemur mörgum á óvart hvað útsýnið hér er fallegt. Fólk er svo vant að bruna norður og bruna suður og er ekkert að líta í kringum sig.“

Herbergin eru með öllum þeim þægindum sem hægt er að óska sér; baði, sjónvarpi og þráðlausu neti. „Þetta er þriggja stjörnu hótel, látlaust en hefur allt sem þarf,“ segir Unnur, „rúmin eru mjög góð og við erum með einn besta barinn norðan Hvalfjarðar, mjög fjölbreyttan léttvínslista og við erum alveg sérstaklega stolt af viskýbirgðunum.“ 

Þótt hótelið sé staðsett á golfvelli segir Unnur af og frá að gestir hótelsins séu aðallega golfarar. „Yfir veturinn er mikið um fundi, ráðstefnur, árshátíðir og slíkt hjá okkur. Þá erum við mest með fyrirtæki og hópa, en á sumrin eru það erlendar ferðaskrifstofur sem bóka mikið. Við erum auðvitað líka með golfhópa – og Íslendingar og það eru auðvitað alltaf velkomnir – líka á sumrin.
Við erum með fyrsta flokks kokka og höfum skapað okkur orðstír fyrir góðan mat. Við höfum mest gert út á kvöldmatinn og aðallega verið með hádegisverð fyrir hópa – en erum núna byrjuð að vera með „brunch“ í hádeginu, frá ellefu til tvö. 

Okkar sérstaða á Hamri er sú að við hjónin rekum hótelið og vinnum sjálf við það. Maðurinn er að þjóna – er í salnum og hittir kúnnann – og ég er með morgunmatinn á morgnana og ef þannig viðrar þá eru gestir leystir út með kvæðum og vísum – eins ef fyrirtæki og hópar senda okkur upplýsingar, þá setjum við saman nett grín fyrir þá.

Það er alltaf mikið líf og fjör hjá okkur. Við erum að vinna saman mörg fyrirtæki á Vesturlandi í að koma svæðinu á framfæri – og nú þegar bensínið er orðið svona dýrt, held ég að fólk veigri sér við að ferðast langt. Það er alveg hægt að eyða heilli viku á vesturlandi; keyra minna og njóta meira.“

www.hotelhamar.com/

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga