Greinasafni: Hestar
Fallegur áningarstaður - ferðaþjónustan á Brimilsvöllum
Á norðanverðu Snæfellsnesi – miðja vegu milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur er ferðaþjónustan á Brimilsvöllum. Þar er boðið upp á skipulagðar hestaferðir – en þó ekki fyrir þá sem eiga leið um þjóðveginn – því eins og húsráðandi, Veronica Osterhammer, segir, þá byggir þjónustan á hópum, að mestu leyti frá Þýskalandi, sem koma og dvelja á Brimilsvöllum í viku í senn. 

„Í hverjum hópi eru átta manns. Við sækjum hópinn til Reykjavíkur og skilum honum þangað aftur. Þetta eru ferðir þar sem allt er innifalið, bæði matur og gisting. Það er farið með hópana í útreiðartúra og aðaláherslan er á fjörurnar. Við förum í fjörurnar bæði norðan og sunnan megin á nesinu. Einn dagur af dvölinni er síðan notaður í að fara í Skoðunarferð um Snæfellsnesið og Breiðafjörðinn – og förum við þá gjarnan í hvalaskoðunarferð.“
Veronica og eiginmaður hennar keyptu Brimilsvelli af tengdaforeldrunum og hafa rekið ferðaþjónustuna í níu ár. Hún segir að gengið hafi vel frá upphafi og að nánast sé fullbókað á Brimilsvöllum í sumar. „Hins vegar er fólk velkomið hingað til okkar, þótt það dvelji ekki hjá okkur,“ segir Veronica. „Brimilsvellir er gömul landnámsjörð og í túninu hjá okkur er gömul kirkja. Við erum sjávarmegin við þjóðveginn og hér er margt áhugavert að skoða. Það er hægt að fara í gönguferðir út á fuglabjarg og í landinu hjá okkur er ákaflega fallegt stuðlaberg.“

Ferðaþjónustan Brimilsvöllum
Brimilsvöllum
355 Snæfellsbær - Ólafsvík
Sími 436 1451

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga