Ævintýraferðir um Breiðafjörðinn með Sæferðum

Sæferðir bjóða upp á ævintýrasiglingar, dagsferðir í Flatey og margt fleira
Sæferðir í Stykkishólmi hefur yfir tuttugu ára reynslu í ferðaþjónustu og siglingum um Breiðafjörðinn. Þeir eru ófáir Íslendingarnir sem hafa notið þeirra ævintýra sem siglingar Sæferða eru, hvort heldur eru að degi, eða kvöldi, í sjóstöng eða eyjaskoðun – eða bara yfir til Flateyjar og Brjánslækjar. Markaðsstjóri Sæferða er Kristrún Konráðsdóttir. Hún segir fyrirtækið hafa það að markmiði að bjóða upp á skemmtilegar fjölskylduferðir.
„Hvað styttri ferðir varðar, þá eru það Ævintýrasiglingin okkar, sem er fugla- og náttúruskoðunarferð. Í henni fær fólk tækifæri til að smakka ferska hörpuskel beint af hafsbotninum. Með hörpuskelinni koma upp alls konar sjávardýr, krossfiskar, skeljar og krabbar sem krökkum finnst óskaplega gaman að skoða. Þessi ferð er í boði daglega og tekur aðeins rúma tvo tíma sem er alveg passlegur tími fyrir fjölskylduna.“ Það er vissulega hægt að mæla með þessari ferð en bónusinn í henni er allt það fuglalíf sem ber fyrir augu – ekki síst hafarnarhreiðrið sem er skoðað úr öruggri fjarlægð, þótt arnarhjónin eigi það til að lyfta sér til flugs á góðum dögum. 

Sjóstöng og dagsferðir í Flatey

Önnur ferð sem nýtur mikilla vinsælda hjá Sæferðum er sjóstangaveiði sem farin er frá Stykkishólmi. „Við förum með litla hópa í þessar ferðir,“ segir Kristrún,“og það myndast ávallt mjög skemmtilegt andrúmsloft um borð. Það veiðist vel, því hér er nóg af fiski og síðan bjóðum fólki að flaka fiskinn fyrir það þegar komið er í land –  og þá getur fólk tekið aflann með sér og grillað. Þessar ferðir eru líka um tveggja tíma langar og því mjög hentugar fyrir fjölskylduna.“

Sæferðir bjóða einnig upp á dagsferðir út í Flatey með Ferjunni Baldri. Kristrún segir vinsældir eyjarinnar hafa aukist nokkuð í vor. „Flatey varð nokkuð fræg í vetur þegar Brúðguminn, kvikmynd Baltasar Kormáks kom út,“ segir hún. „Myndin vakti verðskuldaða athygli og hún sýnir eyjuna í óskaplega fallegu ljósi. Það nýtur stöðugt meiri vinsælda að fara út í Flatey yfir daginn, eða jafnvel lengur og gista þá á Hótel Flatey, tjalda eða nýta sér bændagistingu sem er í boði á tveimur bæjum; Læknishúsi og Krákuvör.“ 

Það er yndislegt að gista á Hótel Flatey, sem er nýtt hótel í miðju þorpinu, í einstaklega vel uppgerðum húsum. Veitingasalurinn er í gamla samkomuhúsinu þar sem Flateyingar dönsuðu og skemmtu sér í marga áratugi og þar eru bornar fram dýrindis kræsingar

Vegna þeirra vinsælda sem Flatey nýtur, erum við farin að bjóða upp á leiðsögn í eyjunni. Þá er farið í klukkutíma göngu um eyjuna; kirkjan, gamla þorpið og náttúran skoðuð. Ferðin gefur skemmtilegt innsæi í sögu þessarar merku eyju.“ 

Og svo eru það sælkeraferðirnar 
Þegar Kristrún er spurð hvort sælkeraferðir Sæferða hafi verið aflagðar, segir hún það af og frá. „Þær eru aðallega í boði fyrir hópa – en einstaklingar geta bókað sig í þær þegar búið er að ákveða slíka ferð. Þetta eru vanalega kvöldferðir sem taka um það bil þrjá og hálfan tíma og eru ákaflega skemmtilegar og því get ég lofað að það eru miklar kræsingar um borð.“

Sæferðir – Smiðjustígur 3
Stykkishólmur seatours@seatours.is  -  433 2254
www.saeferdir.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga