Greinasafni: Veitingar
Kræsingar á klettaströnd. Fjöruhúsið á Hellnum
Fjöruhúsið á Hellnum er eitt af sérstæðustu kaffihúsum á landinu – staðsett í klettafjöru þar sem brimið hamast á stórgrýti og jökulgamalli bryggju og í bjarginu færir fuglinn gargandi svöngum ungum sínum maðka og síli í gogginn.
Það er eitthvað seiðandi við að sitja á verönd Fjöruhússins og fylgjast með óspilltri náttúrunni að verki um leið og maður gæðir sér á því lostæti sem þar er fram borið.
En þótt Fjörhúsið liggi hreint ekki í augum uppi, þegar ekið er eftir þjóðveginum á sunnanverðu Snæfellsnesi og fátt sem gefur það í skyn þegar beygt er niður veginn að Hellnum, er engu að síður stöðugur straumur gesta þangað. 

Sigríður Einarsdóttir rekur Fjöruhúsið og er þetta ellefta sumarið hennar í fjörunni. Þegar hún er spurð hvernig henni hafi dottið í hug að opna kaffishús þarna, yptir hún öxlum og segir:„Húsið var hérna.“ 

– Hugmyndin var að minnsta kosti góð – og veitingarnar vel þess virði að staldra við hjá Sigríði. 

Fjöruhúsið er opið frá klukkan 10.00 til 22.00 alla daga vikunnar og þar er hægt að fá sér fiskisúpu, böku eða pasta, nú eða kaffi, súkkulaði, te, bjór eða vínglas - og gæða sér á brauði, kökum og vöfflum með rjóma. Það er hægt að mæla með öllu á matseðlinum. 

Frá Fjöruhúsinu er bráðskemmtileg gönguleið yfir að Arnarstapa, aðeins tveir og hálfur kílómetri – og á fallegu sumarkvöldi er vel þess virði fyrir þá sem dvelja á Arnarstapa í sumarhúsi eða tjaldiútilegu að fá sér göngutúr yfir að Hellnum til að snæða kvöldverð.

Fjöruhúsið
Hellnum
356 Snæfellsbæ

Sími: 435 6844
Netfang: fjoruhusid@isl.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga