Greinasafni: Hótel og gisting
Við ræturnar á heimsfrægum jökli. Hótel Hellnar.

Hótel Hellnar leggur áherslu á lífrænt hráefni og var fyrst íslenskra hótela til að fá umhverfisvottun.
Hótel Hellnar er einn af þessum ferðamannstöðum sem allir ættu að láta eftir sér að staldra við á, hvort heldur er til að gista eða fá sér að borða. Í friðsælu umhverfi við rætur Snæfellsjökuls lætur þetta fallega hótel lítið yfir sér – en býr yfir heilum hugsanaheimi sem liggur ekkert endilega á lausu annars staðar í þjóðfélaginu. Þar er allt út pælt og útkoman er harla góð.
 
„Hótel Hellnar hefur verið umhverfisvottað frá 2002 og var fyrsta hótelið hér á landi til að fá umhverfisvottun,“ segir hótelstjórinn, Guðrún G. Bergmann. „Ein sérstaða okkar er sú að við erum í faðmi Snæfellsjökuls, í sex kílómetra fjarlægð frá þjóðgarðinum og við hliðina á Gestastofu hans. Hér eru flottar gönguleiðir alls staðar í kring, hvort heldur eru til fjalla eða fjöru – og góð aðstaða til fuglaskoðunar. Ekki er óalgengt að sjá hvali hér rétt fyrir utan ströndina, þá aðallega háhyrninga og hrefnur og niðri í fjörunni á Hellnum eru stundum selir.“

Áhugi heimspressunnar
 
Það er vissulega hægt að dunda sér við það daga langa að virða fyrir sér margt af því sem náttúran hefur upp á að bjóða – og fylgjast um leið með Jöklinum sem breytir stöðugt um ásýnd í breytilegu veður- og skýjafari. Svo er stutt í sund á Lýsuhóli þar sem er heitt ölkelduvatn í lauginni „með alls konar heilunareiginleikum,“ eins og Guðrún segir. 

Guðrún segir Jökulinn vera að fá heimsathygli þessa dagana. „Það á að frumsýna í sumar kvikmyndina „Journey to the Centre of the Earth,“ ævintýramynd sem ætluð er fjölskyldunni og byggð er á sögu Jules Verne. „Hér hafa verið blaðamenn og sjónvarpsfólk frá Bandaríkjunum frá skemmtanaiðnaðar- pressunni. Þau hafa tekið upp kynningarinnslög og skoðað svæðið, þannig að það má reikna með að það fái geysilega kynningu erlendis – og Jökullinn öðlist heimsfrægð á næstu vikum. Það er búið að hringja í mig frá BBC World Service og taka við mig viðtal vegna myndarinnar því þáttagerðarmenn vildu vita hvernig sé að búa í þessari nálægð við Jökulinn – þannig að heimspressan virðist vera dálítið spennt fyrir þessu.“ 

Ítalskur kokkur

Á Hótel Hellnum eru sjö herbergi með tvíbreiðum rúmum og þrettán með tveimur rúmum. Rúmin eru uppbúin og í öllum herbergjum er baðherbergi og sjónvarp. Og maturinn er alltaf lystugur og góður og alltaf óvænt reynsla. 

„Við leggjum áherslu á lífrænt hráefni í matnum sem við erum með,“ segir Guðrún. „Ég er með ítalskan kokk hjá mér, sem ég fékk að láni frá ítölskum veitingastað í Edinborg. Hana hafði alltaf langað til Íslands og vinnuveitendur hennar ákváðu að gefa henni frí í fimm mánuði til að vinna hjá mér og ferðast um Landið (ný síða). Það má segja að það sé dálítið ítalskt yfirbragð yfir matseðlinum hjá okkur þessa dagana. Graziella fer út og týnir kryddjurtir og grös i matargerðina. Hún býr allt til frá grunni, allar súpur og sósur og fólk hefur verið alveg yfir sig ánægt með matinn hjá okkur það sem af er sumri. En við leggjum ekki bara áherslu á lífræn hráefni í matnum, því hjá okkur getur fólk líka fengið lífræn hvítvín og rauðvín.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga