Greinasafni: Söfn
Sögumiðstöðin í Grundarfirði - Lifandi sagnaheimurÍ Sögumiðstöðinni í Grundarfirði er meðal annars að finna sögu genginna kynslóða, afar sérstaka dótabúð og ljósmyndasafn Cesils Bæringssonar
 

Öllum finnst okkur gaman að láta segja okkur sögur – einkum þegar við hittum sögumann sem kann sitt fag. Ingi Hans Jónsson í Grundarfirði er einn af þeim – og ekki nóg með það heldur rekur hann þar Sögumiðstöðina, einkar skemmtilegt „safn“ sem var opnað árið 2003 með lítilli sýningu og sölu á því sem kalla má sagnabókum af Snæfellsnesi. Síðan hefur mikið gerst. 

„Við höfum opnað eina sýningardeild á ári frá 2003,“ segir Ingi Hans, „sú síðasta var opnuð núna í vor. Hér er fyrst og fremst verið að taka fyrir sögu síðustu aldar, hvernig íslenska þjóðin þróaðist frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu í það að verða sú ríkasta og þetta snýst mikið um að sýna virðingu þessum gengnu kynslóðum sem í rauninni mótuðu samfélagið okkar.“
 
Þróun vélbátanna 
Í Sögumiðstöðinni er deild um þróun vélbátanna; hvernig þeirra áhrif voru á samfélagsbreytinguna og í framhalddi uppbygginguna á þéttbýlinu og breytta heimilishætti. „Við erum með uppsett heimili frá upphafi síðustu aldar og þar er sýnt hvernig þjóðin bjó og fólki gert kleift að máta sig í þær aðstæður. Síðan fjöllum við um landbúnaðinn, vélvæðinguna og mannaflaþróunina þar. Og auðvitað erum við með eina sýningu um sögu Frakka á Íslandi, sem er hálfgerður útúrdúr – en tengd okkar sögu vegna þess að Frakkarnir voru mikið hér í Grundarfirði.“ 

Nýjasta viðbótin er Þórðarbúð sem er endurbyggð dótabúð frá 7. áratugnum og er leikfangaverslun. „Þórðarbúð var lítil sjoppa sem stóð hérna en breyttist á einhvern undraverðan hátt í dótaverslun fyrir jólinn,“ segir Ingi Hans. „Allir sem koma í hana verða börn aftur. 

Upplifunarsvæði og
kaffihús
„Í framhaldi af því byggðum við eins konar upplifunarsvæði fyrir börn, þar sem krakkar geta leikið sér og þeim er sagt frá leikjum með legg og skel og þess háttar. Þetta er alveg gríðarlega vinsælt. Ferðaþjónustan er ekkert alltof mikið að bregðast við börnum en við höfum einsett okkur að vera með safn sem er fyrir alla fjölskyduna. Það virðist vera að heppnast því hingað koma um tólf þúsund manns á ári.
 

Síðast en ekki síst, erum við með Bæringsstofu sem er ljósmyndasafn Bærings Cesilssonar og þar varðveitum við um 120 þúsund ljósmyndir frá Bæring sjálfum og um 20 þúsund ljósmyndir frá öðrum. Þær eru allar eru allar á stafrænu formi og er rúllað í litlum kvikmyndasal sem er hér á opnunartíma Sömumiðstöðvarinnar. Þar getur fólk gengið inn hvenær sem er, sest niður og skoðað myndirnar á stóru tjaldi. 

Hér höfum við líka opnað mjög notalegt og fínt kaffihús, þar sem eru léttar veitinga. Það hefur tekist mjög vel til með kaffihúsið og það er þegar farið að njóta mikilla vinsælda.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga