Félagsheimilið á Klifi - Vinsælt fyrir ættarmót og ráðstefnur
Félagsheimilið á Klifi

Vinsælt fyrir ættarmót
og ráðstefnur


Félagsheimilið á Klifi í Ólafsvík er eitt stærsta samkomuhús utan Reykjavíkur. Þar eru fjórir salir sem taka allt frá 70, upp í 300, manns. Það er Snæfellsbær sem á húsið en um reksturinn sjá Emanúel Ragnarsson og dóttir hans, Unnur Emanúelsdóttir. 

Emanúel segir félagsheimlið aðallega leigt út fyrir hópa – og sérlega vinsælt sé að halda þar ættarmót, enda sé mjög gott tjaldstæði við hliðina á húsinu. „En hér er líka kjörið að halda ráðstefnur og alls konar fundi, vegna þess að við erum með fullkominn fundabúnað í öllum sölunum. Og að sjálfstögðu eru haldin hér þorrablót, árshátíðir, sjómannadagshátíðir, stórafmælisveislur og slíkt.“ 

Hvað taldstæðið varðar, þá er þar aðgangur að heitu og köldu vatni, sturtu og salerni – en Emanúel bendir á að einnig sé verið að gera nýtt tjaldstæði inni í bænum sjálfum. 

Félagsheimilið á Klifi var vígt árið 1987, á þrjú hundruð ára verslunarafmæli Ólafsvíkur, sem var fyrsta pláss á landinu sem varð verslunarstaður. Og Emanúel segir ýmislegt hægt að gera í Ólafsvíkinni. „Hér er Fiskasafn sem krökkum finnst einkar gaman að skoða. Svo er það gamla Pakkhúsið, sem er safnahús. Hér eru góðar gönguleiðir og mikið af nýjum göngustígum sem er verið að gera hér um bæinn. Við erum með mjög góða innisundlaug með heitum pottum. Síðan er auðvitað hægt að keyra um allt nesið þar sem eru endalausar náttúruperlur og yfrið nóg af afþreying. Nú, fyrir þá sem ekki vilja gista í tjöldum, þá er góð gistiaðstaða hér á hótelinu.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga