Greinasafni: Sveitarfélög
Eyja- og Miklaholtshreppur - Falleg sveit með löngum fjörum og ljósum fjöllum

Í Eyja- og Miklaholtshreppi hefur alltaf ríkt ró og friður og þar er mannlíf notalegt

Eyja- og Miklaholtshreppur nær frá Haffjarðará og rétt inn fyrir Vegamót á Snæfellsnesi, þaðan sem ferðalangurinn á val um það að keyra áfram út nesið að Snæfellsþjóðgarðinum, eða beygja yfir Vatnaleiðina í átt að Stykkishólmi og Grundarfirði. Íbúar í sveitarfélaginu eru hundrað og þrjátíu og segir oddviti hreppsins, Eggert Kjartansson, ákaflega gott að búa þar. „Það er rúmt um okkur. Hér býr mjög gott fólk og við erum stutt frá öllu, stutt frá sjó og stutt frá fjalli, stutt frá höfuðborgarsvæðinu.“ 

Hreppurinn markar upphaf Snæfellsness, þess sögulega svæðis með tilheyrandi vígum og blóðsúthellingum, framhjáhaldi og draugum, náttúruhamförum og látum – en ekkert af þessu virðist hafa snert þessa friðsælu sveit – enda er það svo að þegar keyrt er um hana, lendir maður nánast í hugleiðsluástandi. Hún er svo kyrr.

Stuðlaberg og ölkelda

Hér hefur alltaf verið friður og ró,“ segir Eggert. „Snæfellsjökull blasir við okkur og það er ákaflega notalegt að búa hérna. Hvað ferðamenn varðar, þá er svæðið kjörið fyrir þá sem vilja taka sér langan tíma til að njóta og upplifa að þeir séu einir í heiminum. Það er auðvelt að gleyma öllu stressi og skarkala í þessari yndislegu sveit. Á svæðinu eru náttúruperlur eins og Rauðamelsölkelda en rétt hjá henni er hið fagra Gerðuberg sem er stuðlaberg. Þekktastar eru þó Löngufjörur, ein vinsælasta reiðleið landsins og í hreppnum eru ótal gönguleiðir. Þær eru ekki merktar en nokkuð augljósar og vinsælt er að ganga á Ljósufjöll.“ 

Eggert segir ferðamenn koma í hreppinn til að njóta. „Hér eru tvær af fallegustu laxveiðiám landsins, Straumfjarðará þar sem við vorum að vígja nýtt hús í júní. Veiðifélagið byggði veiðihúsið og síðan er leigutaki sem leigir ánna með húsum og öllu. Ég get alveg fullyrt að það sé í hópi með þeim glæsilegustu veiðihúsum á landinu. Síðan erum við með Haffjarðará sem skilur Borgarbyggð og okkur að. Hún er að hálfu í þessu sveitarfélagi og er perla í þessum geira. Einnig eru hér minni ár, til dæmis Núpá og Laxá í Eyja- og Miklaholtshreppi. Þar er aðallega bleikja, þótt stundum sé hægt að krækja þar í lax. Það veiðast um fjörutíu til fimmtíu laxar þar á ári.“

Vel búin tjaldsvæði

Hvað gistingu varðar þá má benda á Hótel Eldborg í Laugagerðisskóla. Þar er hótelrekstur yfir sumartímann, fyrir hestahópa og ættarmót, auk þess sem tekið er á móti hópum frá ferðaskrifstofum. Það er hvort heldur hægt að fá uppbúið rúm eða svefnpokapláss. Á hótelinu er boðið upp á veitingar. 

Við Laugagerði er líka tjaldstæði. Eggert segir það tvískipt; annars vegar er hægt að tjalda við íþróttahúsið, hins vegar við skólann og þar er rafmagn fyrir húsbíla og aðgangur að salerni og sturtum. 

„Síðan erum við með félagsheimili sem við leigjum út fyrir ættarmót og hópa. Það er félagsheimilið Breiðablik, sem nýtur mikilla vinsælda – enda aðstæður góðar hér í sveitini fyrir fjölmenna hópa sem vilja fá að vera í friði. Á Vegamótum er svo rekin sjoppa og þar er seldur skyndimatur. Þar er gott að koma við til að velta fyrir sér hvaða perlur á Snæfellsnesi best sé að skoða fyrst. „

Hestabúgarðar

Eggert segir hreppinn reka grunnskóla. „Það er Laugagerðisskóli sem við rekum með Borgarbyggð. Við tilheyrum Heilsugæslunni í Borgarnesi en sjáum sjálf um heimilishjálp við aldraða og höfum síðan aðgang að dvarlarheimilinu í Borgarnesi. Við eigum í því, ásamt Borgarbyggð og Skorradalshreppi.“

Eggert segir mestu traffíkina í hreppnum felast í hestamönnum. .Það er stöðug auknin á þeim hér um Löngufjörurnar – en í hreppnum eru líka tvær hestamiðstöðvar. Önnur þeirra er í Söðulsholti. Þar var byggð reiðhöll fyrir nokkrum árum og þar er fólk í vinnu við að temja hesta og halda námskeið. Hin er í Hrísdal. Húsbændur þar breyttu fjárhúsunum í hesthús og hlöðunni í litla reiðskemmu. Þarna er tamingastöð og mikið að gera. Í Hömluholtum eru bændur síðan með eigin ræktun og selja mikið af sínum hestum til útlanda.“

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga