Félag allra landsmanna


Páll Guðmundsson
Ferðafélag Íslands var stofnað í nóvember 1927 og hefur starfað óslitið í áttatíu ár. Félagið er áhugamannafélag og tilgangur þess að stuðla að ferðalögum um Ísland og greiða fyrir þeim. Strax í upphafi voru kjörsvið félagsins skálarekstur, ferðir og útgáfa og er svo enn í dag.
„Félagið byggir á traustum grunni sem mjög margir, bæði sjálfboðaliðar og aðrir, leggja lið með vinnu eða ýmsum stuðningi,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. „Starf félagsins í dag er mjög fjölbreytt og blómlegt. Það er mikill meðbyr með félaginu í dag, enda nýtur útivist, fjallamennska og ferðir um hálendið sífellt meiri vinsælda.“

Glæsileg útgáfa

   Á hverju ári gefur Ferðafélag Íslands út árbók og nýlega kom út árbókin 2008. Hún er eftir Hjörleif Guttormsson og fjallar um Úthérað, ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Bókin í ár er sú þriðja sem Hjörleifur ritað um Austfirði, en árið 2005 kom út árbókin Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar og 2002, Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar. Bókin í ár er númer 81 í röðinni, því árbækurnar hafa komið út óslitið í áttatíu og eitt ár og er einstök ritröð um land og náttúru. Nú þegar er verið að vinna að næstu fjórum til fimm árbókum.

   Það er óhætt að segja að árbækur Ferðafélags Íslands séu einstakar. Í þeim eru ítarlegar upplýsingar um svæðið sem þær fjalla um; jarðfræði, gróður, fugla- og dýralíf, sögur og sagnir, mannlíf, menningu, atvinnuhætti, göngu-, reið- og akstursleiðir, svo eitthvað sé nefnt. Þær eru vel skemmtilega skrifaðar af höfundum sem gerþekkja til aðstæðna, ríkulega myndskreyttar og frágangur á þeim allur til fyrirmyndar. Reyndar ættu þær að vera til á hverju heimili.
 
   Í útgáfunni er einnig fjöldi smárita, handhægir litlir bæklingar sem fjalla um afmörkuð svæði og gott að hafa með sér í bakpokanum, til dæmis, gönguleiðir í Hvalfjarðarbotni, á Hellisheiði, Laugavegurinn, Gönguleiðir á Kili, gönguleiðir í Þórisdal. Auk þess gefur félagið út göngukort.

   Flaggskipið – vinsælasta gönguleið landsins 
   Ferðaáætlun ársins kemur alltaf út í byrjun árs. Í henni er að finna fjölbreytt úrval ferða þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, allt frá léttum kvöldferðum, upp í jöklaferðir. „Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir yfir tvö þúsund ferðum, með yfir tvö hundruð þúsund þátttakendum,“ segir Páll, „og starfar í dag á fjölmörgum svæðum og leiðum. Þar má nefna Laugaveginn, vinsælustu gönguleið landsins, sem liggur frá Landmannalaugum og niður í Þórsmörk. 

   Á þessari leið hefur félagið byggt upp sex skála, í Hrafntinnuskeri, við Álftavatni, í Hvanngili, Emstrum og Þórsmörk. Laugavegurinn er einstök gönguleið og má segja að sé gengið í mjög fjölbreyttu landslagi, allt frá líparítsvæði, yfir jökulsvæði, um eyðimerkursanda og niður í skógi vaxna Þórsmörk. Á leiðinni þarf auk þess að vaða yfir nokkrar ár. 

   Á hverju sumri ganga á milli sex og átta þúsund manns Laugaveginn og nýta sér aðstöðu í skálum félagsins. Í öllum skálunum eru skálaverðir sem sinna þjónustu og viðhaldi. Einnig eru tjaldstæði og salernisaðstaða við alla skálana, sem og aðgangur að eldhúsi og eldhúsáhöldum. Þetta eru stórir skálar með svefnpokaplássi en þó ekki með rafmagni og á stórum hluta leiðarinnar er ekkert símasamband. Laugavegurinn er okkar flaggskip, ásamt Hornströndum – sem er stór þáttur í ferðaáætlun okkar.“ 

   Félagsaðild borgar
sig 
   Það eru allir velkomnir í Ferðafélagið, ungir sem aldnir og fjölskyldan öll. Það er fátt betra en að vera úti með fjölskyldunni í gönguferð og upplifa íslenska náttúru. Maður hvílist hvergi betur en í hreinu fjallaloftinu með alla þessa stórbrotnu náttúru í kringum sig. Félagsmenn njóta umtalsverðra fríðinda í formi veglegrar árbókar ár hvert og verulegs afsláttar af gistingu í skálum og fargjaldi í ferðum félagsins og deilda þess. Þar að auki veita fjölmörg fyrirtæki félagsmönnum afslátt af þjónustu sinni. Árgjaldið er því fljótt að skila sér, því það er aðeins 4.900 krónur í ár. 

   Eins og Páll segir þá eru Hornstrandir stór þáttur í ferðaáætlun Ferðafélagsins. „Við erum með tíu ferðir í boði á Hornstrandir á hverju ári og erum að fara með tvö til þrjú hundruð manns á ári þangað. Þar göngum við um eyðibyggðir og ákaflega falleg og heillandi svæði. Í þessari ferð gistum við í skálum og þeim húsum sem eru fyrir á svæðinu.“
 
Skálar og deildir 
Skálar Ferðafélags Íslands og deildanna úti um land eru þægilegir áningarstaðir á ferðalagi um óbyggðir Íslands. Þeir eru á þrjátíu og átta stöðum víðsvegar um land og allur almenningur getur nýtt þá óháð aðild að Ferðafélaginu. „Á Kili erum við starfandi með fimm skála og gönguleið sem heitir Kjalvegur hinn forni,“ segir Páll. „Þetta er gömul þjóðleið sem naut mikilla vinsælda til langs tíma. Vonandi á hún eftir að koma inn vinsæl aftur, því þetta er ákaflega falleg leið um hrjúft og eyðilegt landslag og miklum söguslóðum þar sem ýmsar hörmungar í Íslandssögunni gerðust.“ 

   Innan Ferðafélags Íslands eru starfandi 9 sjálfstæðar deildir, sem starfa í anda FÍ. Deildirnar standa fyrir eigin ferðaáætlun, eiga og reka ferðaskála og standa fyrir útgáfustarfi af ýmsu tagi. Þeir sem eru í Ferðafélaginu geta nýtt sér allt sem þessar deildir hafa upp á að bjóða. Einnig njóta félagar betri kjara meðal ferðafélaganna í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Páll segir félagsmenn hafa gert heilmikið af því að taka sig saman um að fara í ferðir til Norðurlandanna án þess að Ferðafélagið sem slíkt væri aðili að þeim ferðum. „Hins vegar erum við núna að endurvekja okkar sambönd við ferðafélögin á Norðurlöndum,“ segir hann, „og verðum þá væntanlega með skipulagðar ferðir þangað á næstu árum.“ Innan Ferðafélags Íslands er jeppadeild sem starfar allt árið um kring, fer í dagsferðir, helgarferðir og lengri ferðir. Páll segir að sá hópur sé alltaf að stækka, „enda sífellt fleiri sem eiga jeppa og ferðast á eigin vegum. Síðan má segja að við séum með starfandi skíðaferðadeild. Þegar gott er veður og færi gott, þá bjóðum við upp á gönguskíðaferðir.“ 

Matur og draugar
    
   Þegar Páll er spurður hvað beri hæst í áætlun Ferðafélags Íslands á þessu sumri, segir hann félagið vera með nokkrar ferðir sem vakið hafa athygli. „Þar má til dæmis nefna ferð sem við köllum „Matarkistu Breiðafjarðar,“ þar sem heimamenn bjóða upp á sjávarréttarhlaðborð tengdar gönguferðum. 

   Síðan er draugaferð í Hvitárnes – en þar hefur verið reimt og við ætlum að fara á fund draugsins.Síðan erum við með styttri helgarferðir sem njóta mikilla vinsælda. Þar má nefna „Á vit fossanna í Djúpárdal“. Síðan er Fimmvörðuhálsinn sífellt vinsæll, auk þess sem Laugavegurinn er okkar vinsælasta ferð. 

   Ég vil líka nefna nýja leið hjá okkur sem fær mjög góðar viðtökur. Hún er frá Bláfjallahálsi og niður að Laugarvatni, fjögurra daga gönguferð um Jarðhettudal, suður fyrir Hlöðufell og Skjaldbreið, yfir Klukkudal niður að Laugarvatni. Í sumar verða tvær slíkar ferðir hjá okkur – sem eru fullbókaðar, auk sérferða sem fólk er að fara sjálft.“ 

Heimasíða Ferðafélags Íslands er www.fi.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga