Greinasafni: Sveitarfélög
Í Reykhólahreppi - Hér ríkir bjartsýni og uppgangur

Í Reykhólahreppi fjölgar íbúum og örnum – þar er mannlíf gott, enda vantar orðið húsnæði fyrir þá sem langar til að flytja þangað.

 
Í Reykhólahreppi eru 266 íbúar og varð sex prósent fjölgun þar á síðasta ári sem er góður viðsnúningur vegna þess að í gegnum tíðina hefur fólki verið að fækka þar, að sögn Óskars Steingrímssonar sveitarstjóra „Í fyrra fjölgaði um fimmtán, þar af voru átta nýburar og voru það mikil gleðitíðindi.“ 

   Eina ástæðuna fyrir fjölguninni segir Óskar vera að mikið sé byggt í Reykhólahreppi. „Á undanförnum tveimur til þremur árum hafa verið byggðar átta nýjar íbúðir og þrjár eru í smíðum, þannig að hér ríkir bjartsýni og uppgangur.“ Eini þéttbýlisstaðurinn er þoprið á Reykhólum, þar sem búa hundrað og þrjátíu manns og restin býr í sveitum. Hreppurinn er stærsti vinnuveitandinn, rekur leikskóla, grunnskóla, hjúkrunarheimili, sundlaug og íþróttahús, sér um rekstur á höfninni og veitir þá þjónustu sem flest sveitarfélög gera, slökkvilið og slíkt. Lögreglan frá Patreksfirði þjónustar sveitarfélagið og lögreglustjórinn er á Ísafirði.
 
Óskar Steingrímsson
sveitarstjóri

   Elsta sumarhótel landsins
   Á Reykhólum er Þörungaverksmiðjan, sú eina sinnar tegundar á landinu, sem framleiðir þang og þaramjöl sem fer nánast allt í útflutning. Þörungaverksmiðjan er næststærsti vinnuveitandinn á eftir sveitarfélaginu. Þar vinna tuttugu og sex manns. Þess má líka geta að talsverðar nytjar eru af æðavarpi í sveitarfélaginu og hefur dúntekjan verið nokkuð góð í ár. Þar hefur veðrið nokkur áhrif en það hefur verið gott fram að þessu og virðist ætla að gefa af sér góðan dún. 

   Hvað varðar gistimöguleika fyrir þá sem ferðast um Reykhólahrepp, þá er Gistiheimilið Álftaland á Reykhólum og er það í einkaeigu. Síðan rekur bærinn sveitarfélagið tjaldstæði, auk þess sem Álftaland er með tjaldstæði. „Okkar tjaldsvæði stendur við hliðina á sundlauginni,“ segir Óskar. „Þar er ágætis aðstaða fyrir tjöld, fellihýsi og hjólhýs, kalt og heitt vatn – og hér er nóg af heitu vatni. Það eru alls staðar bullandi heitir hverir hér í kringum okkur. Síðan er hótel Bjarkarlundur, elsta sumarhótel landsins, í um það bil fjórtán kílómetra fjarlægð frá Reykhólum. Flatey á Breiðafirði er í Reykhólahreppi og þar er rekið hótel í gömlu nýuppgerðu húsi, Hótel Flatey. Hér er aðili á Reykhólum sem rekur siglingar með fólk yfir sumarið til Skáleyja og Flateyjar. Það fyritæki heitir Eyjasigling og siglir frá Stað á Reykjanesi, þar sem er bryggja. Auk þessa eru bændagisting víða um sveitarfélagið.“
 
 
   Kjöraðstæður fyrir kajaka

   Þegar Óskar er spurður eftir hverju ferðamaðurinn sé helst að sækjast í Reykhólahreppi, segir hann: „Þetta svæði er alveg sérstaklega skemmtilegt til fuglaskoðunar. Það er mikið fuglalíf hérna og hingað koma hópar á vorin til að skoða fuglana, aðallega þó útlendingar. 

   Það sem við höfum helst státað af hér er gríðarlega falleg náttúra og mikið af gönguleiðum. Við höfum gefið út gönguleiðakort með Dalamönnum; gönguleiðir um Reykhólabyggð og Dalabyggð. Það eru sérkort fyrir okkur og sérkort fyrir þá. Hér er gaman að fara upp á Reykjanesfjallið frá Seljanesi. Svo er mjög vinsælt að fara upp á Vaðalfjöll og í kringum þau en það eru þau sem gnæfa yfir Hótel Bjarkarlundi. 

   Síðan er heimavistin hér ekki notuð lengur sem slík en hún hefur notið mikilla vinsælda fyrir ættarmót og aðrar fjölmennar samkomu. Til marks um það, þá er þar fullbókað allar helgar í sumar. 

   Þetta svæði er líka mjög skemmtilegt fyrir bátasport, eins og kajaka og kanóa. Það er mikið um fallegar eyjar og leiðir til að róa. Þetta er svo innarlega í Breiðafirði, þannig að hér er gott skjól á mörgum stöðum. Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður eru sérstaklega skjólgóðir. Djúpifjörður og Gufufjörður eru afgirtir með skerjum þannig að það er aldrei hamagangur í öldunni þar.

 
Húsnæðisskortur
   „
Við erum með Hlunnindasýningu á Reykhólum sem er opin yfir sumarið. Þar er verið að sýna notkun á hinum ýmsu hlunnindum hér við Breiðafjörð, til dæmis sel, fugli, eggjum, dúntekju. Breiðafjörður var matarkista Íslands hér áður fyrr vegna þess að hér er mikill fugl, fiskur og selur – og selurinn er enn veiddur hér til matar. 

   Þegar Óskar er spurður hvað Reykhólahreppur hafi gert til að laða fólk til að flytja í sveitarfélagið, segir hann: Við höfum ekki unnið neitt markvisst að því að fá fyrirtæki til að koma hingað – en þröskuldurinn hér hefur verið húsnæðisskortur og við höfum stundum þurft að vísa fólki frá vegna þess að við höfum ekki húsnæði fyrir það. Vissulega hefur það haft áhrif á fjölgunina. Þótt hér hafi verið byggð átta hús og íbúðir, virðist það ekki hrökkva til. Okkur vantar ennþá húsnæði – en við eigum nóg af lóðum, bæði einbýlishúsalóðum og parhúsalóðum. Það er líka mikið spurt um jarðir – en það eru engar til sölu. Hjá okkur er eftirspurn en ekkert framboð.“ 

Erninum hefur fjölgað

   „Síðan er verið að vinna að skemmtilegum hlut hér. Það er Arnarsetur Íslands. Það er einn bóndinn hér í sveitinni, Bergsveinn Reynisson, sem hefur veg og vanda af því. Meiningin var að koma upp netmyndavél við arnarhreiður svo hægt væri að sýna það í beinni útsendingu. Bergsveinn er að sækja um öll leyfi til að sú hugmynd geti orðið að veruleika. Síðan er hugmyndin að þróa þetta, gera þetta að arnarsetri, bæði með rannsóknum á lifnaðarháttum arnarins. sögu hans á Íslandi og þjóðsögur í kringum hann. Það er algeng sjón að sjá örn hér – einn af fáum stöðum á landinu. Það ánægjulega er, er að honum er að fjölga. Hann hefur hingað til aðeins sést á vestfjörðum, en er nú kominn víðar í nágrenninu. 

 
   Síðan erum við með vísi að bátasafni, Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum. Hér var stofnað áhugamannafélag til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og nú þegar á félagið orðið Þeir fullt af bátum, auk þess sem þeir smíðuðu einn bát sem var sjósettur í fyrra. Síðan eru hérna tveir bátar í eigu Þjóðminjasafnsins sem við erum með í geymslu. Það er verð að teikna hús undir safnið og við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni verði hér skemmtilegt bátasafn. Það er núna í gömlu mjólkurstöðinni og ferðamenn geta litið þar við ef þá langar til að sjá gamla báta. Þeir eru nokkrir þar, þótt flestir þeirra séu annars staðar í geymslu þar til húsnæðið undir þá verður tilbúið. Þetta eru þau verkefni sem eru helst í vinnslu núna.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga