Undur vestfjarðanna

Uppbygging ferðaþjónustu er óvíða eins öflug og á vestfjörðum. Þar eru einkar skemmtileg söfn, gistimöguleikar oft óvenjulegir – og náttúran hreint undur

Þegar ferðast er um vestfirði er alltaf spurning hvar sé best að byrja og hvar enda. Eiginlega vldi maður geta séð allt í einu – en við skulum gera ráð fyrir að við koum með Baldri yfir til Brjánslækjar og hefja ferðina í Vesturbyggð.

 
Á leiðinni út á Látrabjarg, þar sem er vestasti oddi Evrópu og stærsta fuglabjarg í Norður-Atlantshafi, er óhjákvæmilegt að keyra niður að Rauðasandi, setjast niður á kaffihúsinu Skipholti á Saurbæ, sem er óhætt að segja að sé falin perla, og njóta útsýnisins yfir sandinn, sem er hreint dásamlegt. 

   Í Vesturbyggð hefur átt sér stað mikil uppbygging í safnamálum. Má þar nefna Sjóræningjahúsið á Patreksfirði, Listasafn Samúels í Arnarfirði, Tónlistarsafnið og Skrímslasafnið á Bíldudal, en þar er einnig ferðaþjónustufyrirtækið Eaglefjord með íbúðagistingu, sjóstangaveiði og siglingar. 

   Á Tálknafirði er frábær sundlaug, ásamt einu best búna tjaldsvæði á landinu og þótt víðar væri leitað. Þar eru magnaðar gönguleiðir og náttúrupottur rétt utan við bæinn, þar sem gott er að njóta sólar og sólseturs á meðan horft er yfir endalausa gula fjöruna. 

Í miðjunni 
   Þegar komið er yfir Arnarfjörðinn er gaman að nema staðar við Dynjanda þar sem er lítið og fallegt tjaldstæði beint fyrir neðan fossinn í Dynjandisvogi. 

   Beint á móti Bíldudal í Arnarfirði er Hrafnseyri, safn Jóns Sigurðssonar. Þangað verður hver einasti Íslendingur að koma að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Bæði er bæjarstæðið ákaflega fallegt, safnið skemmtilegt og svo er um að gera að fá sér kaffi og vöfflur á kaffihúsinu. 

   Á Þingeyri er verið að koma upp myndarlegasta víkingaþorpi. Víkingahátíð er haldin á Dýrafjarðardögum í tengslum við sögusviðið í Haukadal, sem er rétt utan við Þingeyri og einnig stendur ferðamönnum til boða að fara í sagnagöngu á slóðir Gísla Súrssonar með leiðsögn. 

   Á Flateyri er hvað mest gaman að skoða Brúðuhúsið og Gömlu bókabúðin, auk þess sem þar eru skemmtileg söfn og merkileg. 

   Á Suðureyri hefur verið einna mestur vöxtur í ferðaþjónustu á vestfjörðum vegna átaksins „Sjávarþorpið Suðureyri.“ Þar er hægt að kynna sér sjávarútveginn í klassísku vestfirsku sjávarþorpi, fá sér að borða á sjávarrétta veitingastaðnum Talisman og gista í gistiheimilinu Hvíldarkletti sem er byggt á sjávarútvegsþema. Herbergin hafa heiti fiska. Þess ber líka að geta að Hvíldarklettur er með eitt stærsta sjóstangaveiðiþjónustufyrirtæki á vestfjörðum. 

   Í Bolungarvík eru tvö af athyglisverðustu og fjölsóttustu söfnum á vestfjörðum. Þar er Náttúrgripasafnið, gríðarlega stórt og mikið safn með ísbjörn í fullri stærð og Sjóminjasafnið í Ósvör, lifandi safn þar sem sjómaður í fullum sjóklæðum frá aldamótunum 1900 tekur á móti gestum og veitir leiðsögn um safnið.
 
Frá höfuðstað kjálkans
Ísafjörður er þjónustumiðstöð vestfjarða, með mjög fjölbreytt úrval af hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum og kaffihúsum, galleríum og söfnum. Ísafjörður er sérstakur fyrir mikla sögu og gamla bæinn sem er mjög rótgróinn. Hvergi er hægt að finna jafn mörg hús em byggð eru fyrir aldamótin 1900 á einum og sama blettinum enda eru Ísfirðingar mjög stoltir af gamla bænum sínum. Á Ísafirði er rótgróin menningarstarfsemi. Þar eru merkileg söfn og menningarog listaviðburðir allt árið, bæði listasýningar og tónleikar.
Ísafjörður og Norðurfjörður eru miðstöð siglinga inn á friðlandið á Hornströndum og Jökulfjörðum. Þar hefur byggst upp mikil og góð þjónusta við ferðalanga sem vilja komast með bátum yfir á friðlandið til að dvelja þar í kyrrðinni eða fara í göngur.
   Súðavík hefur notið mikilla vinsælda fyrir sjóstangaveiði. Þar er Sumarbyggð sem leigir út húsin í gamla þorpinu sem var aflagt eftir snjóflóðin og jafnframt er þar rekin kraftmikil sjóstangveiðiútgerð og gistiþjónusta að ógleymdum sjálfum Raggagarði. 

   Í Ísafjarðardjúpi er rekin myndarleg ferðaþjónusta í Heydal undir heitinu „Ævintýradalurinn,“ þar sem boðið er upp á kajakaferðir, gönguferðir og heita potta, einnig á Reykjanesi þar sem er lengsta sundlaug á Íslandi, fimmtíu og tveggja metra löng.

 
 
Strandirnar
 
 Hólmavík er stærsti þéttbýlisstöðurinn á Ströndum, helst frægur fyrir Galdrasafnið á staðnum, sem er eitt frægasta safn vestfjarða og hlaut meðal annars Eyrarrósina 2007. Ásamt galdrasafninu er Sauðfjársetur á Ströndum með öfluga starfsemi í gamla Sævangi, sem var áður ballstaður. 

   Minna fjölfarinn staður, en mjög skemmtilegur og dulmagnaður, er Árneshreppur sem er norður af Ströndum, með Djúpuvík og Norðurfjörð. Að stoppa þar og fara í kvöldbað í Krossaneslaug er hrein upplifun. 

   Á Drangsnesi er mikil uppbygging í ferðaþjónustu. Þar er Sundhani með siglingar út í Grímsey og gistiheimlið og veitingastaðurinn Malarhorn sem í sumar er að bæta við sig tíu herergjum. Þarna er á einum stað hægt að fá glæsilega gistingu, fara í hvalaskoðun og náttúruskoðun og fuglaskoðun út í Grímsey þar sem talin er vera þéttasta lundabyggð á landinu.
 
 
 
Reykhólar og Flatey

    Í Reykhólahreppi er hægt að keyra yfir Steingrímsstaðaheiði frá Ströndum. Í Reykhólahreppi er að finna Bjarkarlund, sem er gistiheimili og veitingastaður. Algengt er að ferðamenn stoppi þar á leiðinni á Vestfirði og komi við á Reykhólum þar sem er ýmis afþreying. Reykhólar eru hvað þekktastir fyrir aðgegni að fuglalífi og hvergi eru eins miklar líkur á að sjá konung íslenskra fugla, örninn. 

   Á Reykhólum er hlunnindasafn sem fjallar um hvernig landsmenn hafa nýtt landsins gagn og nauðsynjar. Þaðan er líka hægt að nálgast bátsferðir út í Flatey og Skáleyjar því Flatey er hluti af Reykhólahreppi og tilheyrir því vestfjörðum.  


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga