Greinasafni: Söfn
Sjóræningjar, listamenn og skrímsli
Í Vesturbyggð er unnið ötullega að uppbyggingu ferðaþjónustu og þar eiga atvinnumöguleikar á næstu árum eftir að gerbreyta byggðinni Vesturbyggð nær yfir nokkuð stórt svæði.
Hún liggur að Ísafjarðarsýslu og Reykhólasveit og nær yfir Vestur-Barðastrandarsýslu, að undanskildum Tálknafirði. Þéttbýliskjarnar eru Patreksfjörður og Bíldudalur og siðan er Krossholt á milli Flókalundar og Patreksfjarðar, í daglegu tali kallað Birkimelur.
 
 
Hvað helstu atvinnuvegi varðar, segir bæjarstjórinn, Ragnar Jörundsson: „Við byggjum mest allt á sjávarútvegi. Hann er mjög öflugur á Patreksfirði en var búinn að vera í mikilli lægð á Bíldudal, en vinnsla fór aftur af stað í vor. Úthlutuðum byggðakvóta til Vesturbyggðar var ráðstafað til Bíldudals, sem við vonumst til að verði til þess að atvinnuástand haldi til framtíðar. Íbúum á Bíldudal hefur fækkað upp undir 50% á síðustu tíu árum og við viljum snúa þeirri þróun við. Á Patreksfirði er, hins vegar, mjög stabílt atvinnuástand. Þar er Oddi hf., kjölfestufyritæki í fiskvinnslu, sem hefur haldið uppi atvinnulífinu á staðnum. Síðan er ferðaþjónustan alltaf að aukast. Flestir sem eru í þeirri þjónustu eru fullbókaðir í allt í sumar.“ 

Ragnar Jörundsson

bæjarstjóri.Áhugaverð söfn

    Í Vesturbyggð eru reknir grunnskóla á þremur stöðum, á Patreksfirði, Bíldudal og í Krossholti. Á Patreksfirði eru tæplega hundrað nemendur og um tuttugu á hvorum hinna staðanna. Einnig var framhaldsskóladeild komið á í fyrra og segir Ragnar hana lofa mjög góðu. „Við áttum húsnæði í grunnskólanum sem við nýttum undir þessa starfsemi, tókum helming húsnæðisins undir þróunarsetur og hitt undir framhaldsskóladeild. Í henni voru um tíu nemendur í vetur, allir á framhaldsskólaaldri, auk þess sem nokkrir, sem höfðu verið í námshvíld, sneru sér aftur að námi. Þróunarar/ þekkingarsetur var opnað sl. haust og eru Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Fræðasetur Háskóla Íslands og Náttúrustofa Vestfjarða þar með aðstöðu, auk þess sem þar er starfandi verkefnisstjóri í atvinnumálum fyrir Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp”. Ragnar segir að fleiri stofnanir séu væntanlegar og mun starfsemin í setrinu stækka á komandi tímum.
Hvað ferðaþjónustuna varðar, segir Ragnar: „Við erum alltaf að byggja upp. Á Patreksfirði er verið að byggja upp Sjóræningjahús – vegna þess að það er mikið um góðar sjóræningjasögur frá þessu svæði, þótt þær hafi ekki farið hátt. Þar er einnig verið að byggja upp safn um listamenn frá Patreksfirði, til dæmis Jón úr Vör, Jón E. Guðmundsson, Kristján Davíðsson og Steingrím Sigurðsson. Á Bíldudal er unnið að Skrímslasafni, sem nýverið hlaut styrk frá fjárveitingavaldinu. Það opnar varla í sumar – en það styttist í það. Þar er einnig hið bráðskemmtilega og áhugaverða tónlistarsafn, Melódíur minninganna – mjög merkilegt og gott einkaframtak söngvarans, Jóns Kr. Ólafssonar.“
 
Fjölbreyttir gistimöguleikar
   Við Íslendingar vorum kannski nokkuð lengi að átta okkur á því hversu heillandi ferðasvæði suðurfirðirnir á Vestfjörðum eru – en á seinustu árum hefur hefur umferðin þangað stöðugt verið að aukast. Og kannski var aukningin meiri en heimamenn gerðu ráð fyrir því eins og Ragnar segir. Þá bráðvantar hótel á svæðið. „Hótel er auðvitað í Flókalundi, á Patreksfirði eru tvö gistiheimili og síðan eru gisti-íbúðir á Bíldudal. Auk þess er gistihús í Breiðavík og Hótel Látrabjargi. Einnig er gisting í Hænuvík og bændagisting í Rauðsdal, rétt hjá Brjánslæk. Tjaldstæði eru bæði á Patreksfirði og Bíldudal – og síðan mjög gott tjaldstæði á Breiðavík, með góða hreinlætisaðstöðu, sturtur og þvottavélar. Þar er mikil aukning á gestum í sumar og hjónin sem eiga og reka ferðiþjónustuna þar voru að kaupa fleiri hús og eru stöðugt að bæta við sig.“ 

   Hvað veitingar varðar, þá bjóða Hótel Flókalundi, Þorpið og Eyrarkaffi á Patreksfirði, Breiðavík og Hótel Látrabjarg upp á góðar veitingar. Einnig Vegamót á Bíldudal og svo segir Ragnar að hægt sé að fá kaffi í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði – og auðvitað eru líka söluskálar um allt. Á Patreksfirði var byggt mjög glæsilegt íþróttahús með sundlaug árið 2005, útilaug með heitum pottum og mjög fallegu útsýni yfir fjörðinn. Á Birkimel er einnig sundlaug sem ungmennafélagið á staðnum er að koma í gagnið. Glæsilegir golfvellir eru bæði í 
Patreksfirði og á Bíldudal sem eru rómaðir fyrir að vera með þeim betri á landinu.
 
Óviðjafnanlegar gönguleiðir
 
  Það má til sanns vegar færa að suðurfirðirnir á Vestfjörðum séu góssenland fyrir göngufólk í stórbrotinni náttúru. Þar eru afar skemmtilegar gönguleiðir og almennt vel merktar, bæði í kringum Látrabjarg –eitt stærsta fuglabjarg í veröldinni-, sem og á söguslóðir á Sjöunda, á Rauðasandi og á slóðum landsnámsmannsins Hrafna-Flóka í fallegu umhverfi í Vatnsfirði. Ekki má gleyma söguslóðir Gísla Súrssonar sem eru víða á þessu svæði. Einnig er mjög vel merkt gönguleið frá Hænuvík yfir í Breiðavík, og hafa ferðaþjónustuaðilarnir á þeim stöðum látið hanna kort yfir gönguleiðirnar sem eru á milli og í kringum þessa sérstæðu staði – sem er virkilega vel þess virði að dvelja á í einhverja daga. Í Arnarfirði eru áhugaverðir staðir að skoða m.a. í Selárdal, byggingar Samúels Jónssonar – listamannsins með barnshjartað- og Uppsali, hús Gísla Gíslasonar sem verið er að endurbyggja og sem Ómar Ragnarsson gerði ódauðlegan. Úr Selárdal er hægt að ganga frá Selárdal yfir í Tálknafjörð – og líklega myndi það æra óstöðugan að telja upp allar þær gönguleiðir sem er að finna í sveitarfélaginu. Síðan er hestaleiga í Örlygshöfn og á leiðinni þangað er byggðasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti og á sama stað er Flugminjasafnið.“ 

   Það er ekki hægt að sleppa bæjarstjóranum án þess að spyrja hann út í fyrirhugaða olíuhreinsistöð í Arnarfirði – sem margir sjá kolsvart yfir, kannski vegna þess að fjölmiðlar hafa farið hamförum vegna hennar. „Það stafar að mestu leyti af vanþekkingu,“ segir Ragnar. „Þetta er stærsta fjárfesting Íslandssögunnar, upp á fjögur hundruð milljarða. Olíuhreinsistöðin færir okkur störf og kjölfestufyrirtæki sem er ekki sveiflukennt eins og sjávarútvegurinn. Hún skapar um fimm hundruð störf í stöðinni sjáfri og afleiðslustörfin geta orðið um fimmtán hundruð – þannig að við sjáum fram á gerbreytt samfélag.“ 

Olíuhreinsistöðin
  
Þegar Ragnar er spurður hvers vegna Arnarfjörður hafi orðið fyrir valinu, segir hann: „Fjórðungssamband Vestfjarða lét vinna forkönnun á æskilegum stöðum fyrir stöðina. Það var byrjað á forkönnun á umhverfisþáttum til að sjá til þess að ekki væru neinar fornminjar sem myndu raskast og að gróður og dýralíf væru ekki með þeim hætti að yrðu fyrir sem minnstu hnjaski, svo við færum ekki að rekast á veggi um leið og framkvæmdir hæfust. Það var verið að kanna sex staði á Vestfjörðum og þegar upp var staðið komu tveir til greina, Dýrafjörður og Arnarfjörður, vegna þess að samþykki landeigenda þurfti líka að liggja fyrir. Úttektir lágu allar fyrir í haust og síðan kom verkfræðinur frá fyrirtækinu í upphafi þessa árs sem taldi að Arnarfjörður væri heppilegri. Við, í Vesturbyggð, erum að vonum ánægð með þá niðurstöðu,“ segir Ragnar og bætir við: „Það er svo merkilegt að þegar stórfyrirtæki af þessu tagi er í bígerð, þá fer fólk að sjá fyrir sér reykspúandi hrollvekjur – eins og verksmiðjur voru í gamla daga. Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Til þess að vita út í hvað við værum að fara, heimsóttu fulltrúar rrá Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ olíuhreinsunarstöðvar í Evrópu og þar var ekki menguninni fyrir að fara. Það var allt mjög hreint og snyrtilegt að það var nánast hægt að ganga þar um á sokkaleistunum.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga