Greinasafni: Hótel og gisting
Blíðan á Breiðavík í sumar

Breiðavík verður stöðugt vinsælli áningarstaður þeirra sem ferðast um vestfirði, enda ákaflega fallegt þar, gistimöguleikar framúrskarandi og maturinn lostæti.

Ferðaþjónustunni á Breiðavík er stöðugt að vaxa fiskur um hrygg og nú nýverið var þar fjölgað um tíuherbergi. Þar er eru því í boði tuttugu og fjögur herbergi, með uppbúnum rúmum og sér baðherbergi. Einnig eru komnar teikningar fyrir tuttugu herbergjum í viðbót og búið að samþykkja þær. 

   Í Breiðavík er líka hægt að fá herbergi fyrir svefnpokapláss en þeim hefur fækkað nokkuð. „Við tókum fimm þeirra til að nota fyrir starfsfólk, auk þess sem við breyttum sal sem var notaður fyrir hópa og gerðum hann að matsal,“ segir Birna Mjöll Atladóttir bóndi í Breiðavík. Þar með eru matsalirnir orðnir tveir sem hvor um sig tekur um fimmtíu manns í sæti. Aukningin á ferðamönnum í Breiðavík kallar á aukið starfsfólk, ern þar eru nú 9 starfsmenn en voru aðeins 4 í fyrra. 

Fimm stjörnu tjaldstæði

   Það væsir líka ekki um þá sem tjalda á Breiðavík, því þar er fimm stjörnu tjaldstæði. Þar er boðið upp á eldhús, nettenging, salerni karla og kvenna, sturtur, þvottavélar,snúrur, rafmagn og grill.

   Hvað veitingar varðar, segir Birna Mjöll: “Við erum ekki með matseðil. Ég er ennþá að kokka. Hér áður gat ég sinnt eldamennskunni, þvottunum, séð um bókanir og verið allt í öllu en núna kemst ég bara yfir matseldina og móttökuna.“ Í boði eru tveir réttir á dag, auk hópmatseðla. „Annars eru allir að verða svo miklar grænmetisætur að ég þarf alltaf að vera tilbúin með grænmetisrétti,“ segir Birna og bætir við: „Um daginn átti sextán manna hópur pantað hér í steikt læri. Klukkutíma fyrir matinn, kom hópstjórinn að máli við mig og sagði smábreytingar á matseðlinum, vegna þess að átta einstaklingar í hópnum væru grænmetisætur. En tveir í starfsmannaliðinu eru grænmetisætur, svo það eru hæg heimatökin með uppskriftir, ráðleggingar og eldamennsku.“ 

Afþreying í Breiðavík
 
   Ferðafólk spyr töluvert um afþreyingu í Breiðavík, hvað sé hægt að gera á meðan á dvölinni stendur. Við höfum lítið farið út í skipulagða afþreyingu á svæðinu segir Birna Mjöll, en höfum einblínt mjög á náttúrufegurðina, kyrrðina, fuglalífið og svo auðvitað stuttar og langar gönguferðir. Hvað varðar göngu hópa bjóðum við upp á skipulagningu á gönguferðum og flutning á farangri (trússi ) fyrir fólk á milli staða, einnig erum við með rútur og tökum við að okkur flutning á hópum. Þá bjóðum við upp á að færa einkabíla fyrir göngufólk, þannig að fólk geti gengið í bílinn, það færist mjög í aukanna að þessi þjónusta sé notuð. 

Umfjöllunin vakti athygli
 
   Birna segir mikla veður blíðu hafa verið á Breiðavík í sumar og mikla fjölgun ferðamanna á staðnum. „Ég geri mér ekki grein fyrir heildarfjölguninni. Það hefur verið fækkun í svefnpokagistingu en aukning mikil gesta í herbergjum með baði. Hins vegar finnst mér vera minna á tjaldstæðinu en í fyrra. Kannski að Evrópukeppnin í fótbolta hafi haft eitthvað með það að gera.“ 

   Þegar Birna er spurð hvor umfjöllunin um Breiðavíkurheimilið síðastliðinn vetur hafi haft einhver áhrif á starfsemina hjá henni, segir hún: „Veistu, ég er enn að rekast á fólk sem óttast staðinn út af umfjölluninni um upptökuheimilið. Hins vegar hefur hópur þeirra drengja sem voru á heimilinu komið hingað og ætla að halda því áfram. Þeir eru ekkert hræddir við staðinn. Þeir dvelja hér frítt yfir hvítasunnuna og koma margir aftur um verslunarmannahelgina. Þeir áttu hérna hornabú, þar sem þeir léku sér með leggi og skeljar. Það standa hér ennþá leifar af einu búi og þeir hafa fengið leyfi til að byggja upp gömlu búin sem eru hér upp með ánni. Einn þeirra er nú þegar kominn með fullsmíðaðan torfbæ og er búinn að tyrfa þakið á honum.“ 

Yndislegustu menn í heimi

   Strákarnir ætla að byggja þarna upp og við höfum hugsað okkur að gróðursetja eitt tré fyrir hvern einstakling sem hér dvaldi. Þeir hafa fengið eitt herbergi sem þeir ætla breyta í þeirri mynd sem var þegar þeir voru hér á upptökuheimilinu og eru þegar farnir að koma með hluta af húsgögnunum. Síðan hafa þeir talað um að fá að gera upp fangaklefann og svæðið í kringum hann sem er kjallari. Þar er klefinn og sturtur sem voru notaðar til hegninga. Þetta kjallararými ætlum við að láta þá fá. Mér skilst á þeim að þeir líti á þetta sem ferli af sínum bata. Ég hef sótt um styrk til Menningarsjóðs Vestfjarða til að styðja þá í þessu verkefni en fékk synjun. Það fannst mér sárt. En við höldum áfram og vinnum eftir getu og peningum.“ 

   Birna segir umfjöllunina í vetur vissulega hafa vakið athygli á staðnum, en hún hafi ekki haft neikvæðar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið þó svo að á meðan á þessu fjölmiðlafári stóð hafi verið mjög erfitt að hafa átt heima í Breiðavík. Í dag vita allir hvar Breiðavík er staðsett ákortinu. „En það sem er mest um vert, er að við höfum fengið að kynnast yndislegustu mönnum í heimi.“

Breiðavík.net | Opnunartími frá 15.05 til 15.09 | Sími: 456 1575 | breidavik@patro.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga