Greinasafni: Sveitarfélög
Perlurnar á Tálknafirði
Besta tjaldstæði landsins, heitur náttúrupottur og gulir sandar út með öllum firði
Á Tálknafirði búa tvö hundruð og níutíu manns manns og nánast allir í þéttbýli, því aðeins þrír bæir eru í byggð í sveitarfélaginu – og þeir allir stutt frá þorpinu. Oddviti er Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir – sem lætur ákaflega vel af búsetu á Tálknafirði.
   „Það sem er fyrst og fremst er spennandi við að búa hérna, er staðsetningin,“ segir hún. „Hér eru dásamleg sumur og mildir vetur. Við erum stutt frá höfuðborginni í reynd. Við erum aðeins um fjögur hundruð kílómetra frá Reykjavík, sem allt er miðað við. Við erum landfræðilega vel sett njótum þeirra forréttinda að búa í sumarbústaðnum okkar allt árið – eða nota ekki höfuðborgarbúar hvert tækifæri til að komast burtu úr bænum og út á land í bústaðina sína?“ 

Matvinnsla og galdrakrem
    Aðalatvinnuvegurinn á Tálknafirði er útgerð og fiskvinnsla og er Þórsberg þar stærst, en síðan eru smærri útgerðaraðila. „Síðan eru hjá okkur sprotafyrirtæki í matvælavinnslu, Tungusilungur með reyktan og grafin silung, ferskan fisk frosin, saltfisk og paté, og eru þau að þróa sig áfram í að selja þessa vöru. Hér er einnig harðfisk verkun, Særöst sem framleiðir hertan steinbít og ýsu. Þá er hér regnbogasilungs- og bleikjueldi. Fyrirtækið Þóroddur er í þorskeldi og að mínu mati er spennandi að fylgjast með því næstu árin, þá framleiðir fyrirtækið fóður úr hökkuðum fiskúrgangi frá fiskvinnslum og skapar þar með verðmæti úr því sem áður var hent.
Síðast en ekki síst er fyrirtækið Villimey staðsett í Tálknafirði, Villimey framleiðir galdrakrem úr jurtum úr kyngimagnaðri náttúru Vestfjarða, vinsæla og góða vöru. Fyrirtækið stækkaði við sig í vetur og gengur vel, vegna starfsemi Villimeyjar hefur fengist lífræn vottun á stóran hluta lands í Tálknafirði. 

   Hvað aðstöðu fyrir ferðamenn varðar, segir Eyrún: „Við erum með besta tjaldstæði landsins. Það er staðsett við hliðina á sundlauginni. Þú hefur aðgang að salerni og eldhúsi innandyra og þar inn af er matsalur. Á tjaldstæðinu er bæði heitt og kalt vatn, stórt og mikið grill og heitur reitur þannig að þú kemst á netið. Svo er auðvitað aðgangur að sundlauginni, sem er opin frá átta á morgnana til tíu á kvöldin.“
 
Paradís fyrir göngufólk
   Það eru engar ýkjur þegar Eyrún segist vera með besta tjaldstæði landsins – en hún er með fleira, því gönguleiðirnar á svæðinu eru hrein paradís fyrir göngufólk. „Það eru merktar gönguleiðir um allt,“ segir hún, „bæði yfir í Arnarfjörð og Patreksfjörð. Þá tekur aðeins um klukkutíma akstur til þess að skoða Látrabjarg, vestasta odda Evrópu. Fossinn Dynjandi í Arnarfirði er jafnframt í um klst. akstursfjarlægð, sem og Selárdalurinn þar sem Gísli á Uppsölum bjó. 

   Rétt fyrir utan þorpið er svo Pollurinn, alger perla, náttúrulaug sem hægt er að fara í á öllum tímum sólarhringsins árið um kring og njóta þeirrar fallegu náttúru sem hér ríkir. Við erum með gulan sand og fallegar fjörur út með öllu. Ef þú keyrir síðan norðan megin út fjörðinn, eins langt og vegurinn nær, er hægt að stopppa í túnfætinum við bæ sem heitir Sellátrar. Þaðan er gaman að ganga eftir fjörunni út í Stapa, þar sem er skógrækt og út í Krossárdal. Á sumrin þegar verður mjög heitt, kemur hafgolan inn og getur verið nokkuð sterk – en um leið og þú ert komin út fyrir Stapann dettur hún niður.“
 
Gistishús og smábátahöfn
   Fyrir utan tjaldstæðið góða er ágætis gistiaðstaða á Tálknafirði. Þar eru þrjú gistiheimili, Bjarmaland, Skrúðhamrar og Hamraborg og síðan eru tvær orlofsíbúðir sem eru einkareknar. „Hér er líka frábær veitingastaður sem heitir Hópið, sem sérhæfir sig í fiskréttum og eldar heimsins besta fisk,“ segir Eyrún. „Við erum líka með mjög góða smábátahöfn. Sumarhús og stjóstangveiðibáta sem Sumarbyggð á og rekur. Þar eru Þjóðverjar, sem koma hingað til að stunda sjóstöng, í hundraðatali. Það er fullbókað hjá þeim í sumar og næsta sumar.“ Þessi erlendu gestir setja skemmtilegan svip á þorpið og byrja að koma í mars og eru hér alveg fram í október. 

   Fyrir þá sem vilja njóta alls þess sem Tálknafjörður hefur upp á að bjóða, bendir Eyrún á Upplýsingamiðstöðina í Tálknafirði, sem staðsett er í Íþróttahúsinu/sundlauginni. „Þar er starfsmaður, Lilja Magnúsdóttir, sem er menntaður leiðsögumaður og getur leiðbeint fólki með gönguleiðir við hæfi hvers og eins. Hún er með viðveru frá 08.00 til 12.00 á morgnana og frá 18.00 til 22.00 á kvöldin, alla virka daga og aðra hverja helgi.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga