Kraftaverkasmyrslin frá Tálknafirði

Smyrslin frá Villimey eru lífrænt vottuð og svo hrein að það er allt í lagi að borða þau

Villimey er heiti á smyrslum sem hafa heldur betur slegið í gegn á seinustu misserum. Sjálft fyrirtækið er staðsett á Tálknafirði og var stofnað árið 2006 af Aðalbjörgu Þorsteinsdóttur. Það á sér þó enn lengri sögu því Aðalbjörg byrjaði að þróa krem fyrir fjölskylduna árið 1990. „Ég ætlaði aldrei að gera neitt úr þessu nema fyrir okkur,“ segir hún, „en virknin var bara svo góð að ég var hvött til að leyfa öðrum að njóta og þá varð ekki aftur snúið. Framleiðslan fór í apótek fyrir þremur árum og hefur verið mjög vel tekið.“
Smyrslin eru komin með lífræna vottun og eru við liðverkjum, vöðvabólgu og reyndar öllum verkjum og bólgum. Einnig eru smyrsl við exem og hvers kyns húðvandamálum, græðandi krem og sveppakrem, bossakrem fyrir bleyjusvæði á litlum börnum. Og ekki má gleyma því allra vinsælasta, sem er Bumbugaldurinn, ætlaður óléttum konum en nýtur stöðugt meiri vinsældda sem „body lotion,“ andlitskrem og bara alhliða krem. 

Þetta er svo augljóst

Smyrslin eru úr íslenskum jurtum. Í þeim eru engin rotvarnarefni, litar- eða ilmnefni. Aðalbjörg hefur 7640 hektara af vottuðu svæði til að tína jurtirnar og notar mygrút af ólíkum jurtum i smyrslin sín, vegna þess að jurtirnar vaxa við svo ólík skilyrði og hafa að sjálfsögðu mismunandi virkni. 

Þegar Aðalbjörg er spurð hvar hún hafi lært á grösin, segir hún: „Ég held að ég hafi þetta bara í mér. Ég hef líka lesið mig óhemju mikið til og farið á ýmis námskeið en svo sér maður þetta bara. Þetta er svo augljóst.“ 

Villimey hóf starfsemina í fimmtíu fermetra húsi sem Aðalbjörg leigði, en í fyrrahaust festi hún kaup á gamla áhaldahúsinu sem hreppurinn átti og er búin að gera það upp. „Húsið var að niðurlotum komið og það hefur tekið okkur allan veturinn að gera það upp en við fluttum inn í það í maí. Það vill svo skemmtilega að húsið á sér fjölskyldusögu, því afi minn byggði það 1973-1974.“ 

Nýtt húsnæði

Hingað til hafa verið fjórir starfsmenn hjá Villimey en Aðalbjörg stefnir á að fjölga þeim. „Það tekur þó tíma,“, segir hún, vegna þess að það þarf að þjálfa starfsfólk upp, í tínslu og annað. Maður hefur ekki gefið sér tíma í það því við höfum verið í þessu öll fjölskyldan. En það er þvílíkur munur á aðstöðu. Gamla áhaldahúsið er 250 fermetrar og framleiðslugetan er mun meiri þegar aðbúnaður og húsnæði eru góð. Við önnum eftirspurn en það er líka rosalega mikil vinna. Ég er svo heppin að ég á fjórar dætur en ég þarf að bæta við starfsfólki.“ 

Virkni smyrslanna er óyggjandi.

Til Aðalbjargar hringir mikið af fólki sem staðfestir það. „Það hringdi í mig skipstjóri á humarbát frá Vestmannaeyjunum, fyrir stuttu, sem sagði að margt hefði komið nálægt sér í kremum en ekkert hefði virkað eins vel á hann og Húðgaldur. Hann hefur verið með exem á bak við eyrum og sagðist oft vera svo viðþolslaus að hann langaði til að rífa af sér eyrun. En Húðgaldurinn hefði virkað svo vel að hann var einkennalaus eftir tvo daga. Hann sagðist langa mest til að borða kremið sem er allt í lagi. Þetta eru lífræn smyrsl og það má alveg borða þau. 

Mýkjandi og græðandi

Svo er Fótagaldurinn. Hann hefur virkað á frauðvörtur á börnum. Um daginn heyrði ég af manni sem var með vörtu á fingri og hafði reynt allt, farið í frystingu, reynt að skera hana af og prófað öll möguleg krem. Hann hafði sett Fótagaldurinn á vörtuna nokkrum sinnum og plástur yfir og vartan fór af puttanum á honum – en þetta er sveppakrem. 

Vöðva- og liðagaldurinn er fyrir fólk sem er með verki og bólgur, bæði íþróttafólk, fólk sem hefur lent í slysum og gigtarsjúklingar. Það notar hann mikið, enda er hann alveg ótrúlegur. Maður nuddar honum inn í húðina og aftur eftir hálftíma og manni líður mun betur. Hann lagar auðvitað ekki skemmdir en hann mýkir allt í kring um skemmda liði. 

Dæmi um virkni Sáragaldursins er bóndinn á Melanesi á Rauðanesi. Hann er lamaður og var með legusár sem var orðið að holu inn að beini. Konan hans fyllti holuna með Sáragaldrinum og setti grisju yfir, lét það vera í tvo daga. Þegar hún tók hana af var komin himna og sárið var að gróa og kremið sjálft var orðið alveg dökkt, hafði dregið í sig óhreinindi. Hálfu ári seinna talaði ég við hann og hann sagði mér að sárið hefði holdgast.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga