Greinasafni: Sveitarfélög
Hér er gott að vera - Í Súðavík er mannlíf gott

Í Súðavík er mannlíf gott, stemmningin alþjóðleg vegna sjóstangaveiði og fornminjafundar í Vatnsfirði þar sem fundist hefur margt merkilegra muna

Ómar Már Jónsson
sveitarstjóri í Súðavík (mynd)

Í Súðavíkurhreppi er svo margt að gerast að það getur verið erfitt að ímynda sér að þar búi aðeins um tvö hundruð og þrjátíu manns. Ómar Már Jónsson er sveitarstjóri í Súðavík og segir að íbúafjöldinn í Súðavík hafi meira og minna staðið í stað síðastliðin ár, aðallega vegna skorts á leiguhúsnæði. Við erum þó stöðugt með í skoðun hvernig megi fjölga íbúða fermetrum á svæðinu.“ segir hann. „Árið 2003 átti sveitarfélagið átta íbúðir í félagslega kerfinu í Súðavík sem voru í útleigu, en vegna mikillar eftirspurnar árin 2004 og 2005 seldum við sex af þeim íbúðum. 

   Vegna viðbótar eftirspurnar eftir húsnæði tók sveitarstjórn ákvörðun árið 2004 um að byggja tvö einbýlishús sem voru tekin í notkun árið 2005. Þau hús voru síðan seld áður en byggingu þeirra var lokið. 

   Við viljum auka íbúafjöldann í Súðavík og höfum því tekið ákvarðanir sem sérstaklega er ætluð ungum fjölskyldum. Í því sambandi höfum við verið með gjaldfrjálsan leikskóla frá árinu 2005, sem er gríðarlega mikil búbót fyrir fjölskyldur með börn á leikskólaaldri, auk þess sem við höfum verið að hvetja til nýbygginga með sérstökum byggingastyrkjum. 

   Við höfum lagt mikinn metnað í að vera með góðan og faglega rekinn leik- og grunnskóla og hefur það tekist með hæfu starfsfólki og við erum mjög stolt af því. Leik- og grunnskóli eru undir sama þaki og þar er mikil samvinna á milli m.a. njóta elstu börn leikskóla samkennslu með yngstu börnum grunnskóla. 

Hagstæður búsetukostur

   „Þessi slinkur sem þjóðarskútan er að verða fyrir kemur illa við margar ungar fjölskyldur, sérstaklega þær sem eru búsettar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. 

   Slinkurinn er samt mun vægari á landsbyggðinni þar sem áhrif þennslunnar sem var undanfari þessa ástands sem nú ríkir gætir ekki að sama skapi á landsbyggðinni. 

   Úti á landi eru margir útgjaldaliðir fjölskyldna mun lægri en á stór Reykjavíkursvæðinu, húsnæðisverð er mun lægra, akstursvegalengdir til og frá vinnu yfirleitt styttri og í þeim og fleiri þáttum felast ákveðin tækifæri fyrir ungar fjölskyldur og landsbyggðina en það eru mikil og margvisleg verðmæti fólgin í því að geta búið og starfað á landsbyggðinni. 

   Fjölbreytni atvinnulífsins og atvinnuástand skiptir þar auðvitað miklu máli en á Vestfjörðum búum við, við þau skilyrði að það vantar fólk í hinar ýmsu greinar atvinnulífsins. Það vantar t.d. víða á Vestfjörðum, trésmiði, rafvirkja, málara, blikksmiði, pípara, bókara, faglærða kennara og eflaust í fleiri greinar atvinnulífsins. Hér hefur í raun ekki verið neinn skortur á verkefnum fyrir duglegt fólk.

   Við höfum búið vel í haginn fyrir starfandi fyrirtæki og önnur sem vilja koma sér fyrir í Súðavík, og það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvernig fyrirtækjaflóran í Súðavík hefur breyst á stuttum tíma og orðin mun fjölbreyttari en áður. Fyrir örfáum árum snerist öll atvinnustarfsemi í Súðavík um rækjuútgerð og vinnslu. Í dag er það liðin tíð en í staðinn hafa komið inn nýjar atvinnugreinar, þar sem má nefna, starfsemi pokabeituverksmiðju, þróun og stækkun þorskeldis, starfsstöð í hugbúnaðargerð, þjónusta við erlenda sjóstangveiðimenn, uppbygging refaseturs, harðfiskvinnsla og í haust mun ný verksmiðja fara í gang sem mun framleiða gæludýrafóður. Auk þess er verið að vinna í áhugaverðum hugmyndum að starfssemi! sem gaman verður að að fylgjast með í nánustu framtíð. 

   Þegar Ómar Már er spurður hvernig aðstaða sé fyrir ferðamenn í Súðavík, segir hann: „Hér erum við með umhverfi og afþreyingu við allra hæfi. Hér er einfaldlega frábært að vera, að upplifa og nóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. 

   Mér finnst samt ferðamannastraumurinn fara seinna af stað í sumar en oft áður og þar hefur EM í fótbolta einhver áhrif auk þess sem ógnvænleg hækkun eldsneytisverð hlýtur að hafa eitthvað með það að gera. Hins vegar er hér mikið af erlendum sjóstangveiðimönnum sem byrjuðu að koma til Súðavíkur 1. maí sl. og verða þeir mjög áberandi í Súðavík fram í miðjan september nk. en búast má við 600 sjóstangveiðimönnum til Súðavíkur á þessu tímabili en hver hópur gistir í viku í senn. 

   Erlendu sjóstangveiðimennirnir koma á vegum Sumarbyggðar hf en félagið gerir út yfir 20 sérsmíðaða sjóstangveiðibáta og hús og er með þjónustu á þremur stöðum á Vestfjörðum, í Súðavík, Tálknafirði og Bíldudal. Það má ætla að til þessara þriggja staða komi um 1400 manns á þessu ári. Eins og gefur að skilja er orðið mikið mannlíf í kring um höfnina frá morgni til kvölds alla daga vikunnar.“ 

Laxveiði og ævintýradvöl

   En sjóstöngin er ekki aðeins fyrir útlendinga, Íslendingar geta líka komið og stundað þetta skemmtilega sport. „Það er rétt, við vorum með tilboð til Íslendinga í fyrra til að kynna sjóstöngina og landinn nýtti sér tækifærið og var mikil ánægja með þennan nýja afþreytingarmöguleika. Erlendir gestir okkar hafa bókað mikið í sumar, en það er um að gera að hafa samband, og athuga hvort ekki sé einhver tími laust. Sjálfur hef ég farið nokkrum sinnum og er þetta mjög skemmtilegt sport.,“ segir Ómar. 

En eitthvað fleira hlýtur að vera hægt að gera.
   „Já, heldur betur. Í sveitarfélaginu öllu er að finna stórbrotna náttúru og margvíslega afþreytingamöguleika og því ekki að ástæðulausu að margir ferðaþjónustuaðilar sjá tækifæri í að fjárfesta í greininni í sveitarfélaginu. Fyrir laxveiðimenn er áinn Langadalsá löngu orðin þekkt, en þar er að veiðast 300 – 400 laxar yfir sumarið. 

    Eyjan Vigur er löngu búin að sanna ágæti sitt og er mikil fjöldi ferðamanna sem sækir eynna heim á hverju sumri. Ekki má gleyma Ferðaþjónustunni í Heydal, í Mjóafirði sem býður upp á gistingu og margvíslega afþreyingarmöguleika í ævintýradalnum, jafnt sumar sem vetur. 

   Einnig má nefna Ferðaþjónustuna í Reykjanesi sem fer að komast í alfaraleið þegar lokið verður við að brúa Mjóafjörð og vegurinn um Djúpið verður þá allur á bundu slitlagi. Í Reykjanesi er boðið upp á gistingu í stórbrotnu umhverfi og sérstaka sundlaug sem er hituð upp með sjálfrennandi heitu vatni. 

   Einnig búum við svo vel að eiga hér frábærar gönguleiðir og fyrir fjallgönguáhugamenn eru endalausir möguleikar í þeim efnum. Má þar t.d. nefna fjallið Kofra sem er upp af nýju byggðinni í Súðavík. Talið er að Kofratindur búi yfir mikilli orku, og er hans getið á nokkrum stöðum í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er því ekki að ástæðulausu að Kofri fær mikið af heimsóknum á hverju sumri. M.a hefur kona nokkur hér í bæ farið nýlega þrisvar sinnum upp á Kofratind á fjórum dögum og segir það meira en mörg orð.“ 

Fornleifarnar í Vatnsfirði

   „Það nýjasta er svo fornleifauppgröftur í Vatnsfirði og uppbygging Vatnsfjarðar sem minjastaðar. Uppbygging Vatnsfjarðar sem minjastaðar er samstarfsverkefni Súðavíkurhrepps, Vestfjarða á miðöldum og Fornminjasafns Íslands og er markmiðið að gera staðinn að fjölsóttum ferðamannastað. Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir í Vatnsfirði frá árinu 2004 og þar hefur fornleifagröftur leitt í ljós að þar hafi verið lítið þorp. þar hefur m.a. fundist mjög myndarlegur skáli frá víkingaöld, sautján metrar á lengd. Auk þess hafa fundist þar merkilegir gripir, til dæmis, brot úr írskum skartgrip úr gulli frá 9. eða 10. öld. 

   Minjarnar sem eru að finnast gefa góða hugmynd um lífið til forna, en þetta er eitt viðamesta fornleifa-uppgraftarverkefni á Vestfjörðum frá upphafi. 

   Frá árinu 2005 hefur síðan verið rekinn alþjóðlegur fornleifaskóli í Vatnsfirði í samvinnu fjölmargra aðila og er á hverju sumri að koma í Vatnsfjörð fimmtán til tuttugu nemendur frá háskólum austan hafs og vestan. 

   Hugmyndin er að koma upp aðstöðu fyrir ferðamenn, þannig að þeir eigi greiða leið þar um og geti skoðað hvað sé þar að gerast. Þetta er mjög áhugavert og skemmtilegt verkefni og á örugglega eftir að vekja mikla athygli ferðamanna sem sækja Vatnsfjörð heim.“ 

   Nú, svo til að halda utan um þetta allt og geta komið upplýsingum til ferðamanna sem sækja okkur heim hefur Súðavíkurhreppur í samstarfi við Sumarbyggð hf opnað upplýsingamiðstöð í gömlu byggðinni þar sem Sumarbyggð hf er jafnframt með aðstöðu fyrir starfsemi sína. 

Tófa, vatn og frábært veitingahús

   „Síðan erum við með mjög áhugavert verkefni í gangi, segir Ómar Már. „Þar erum við að láta endurbyggja Eyrardalsbæ, sem er elsta uppistandandi húsið í Súðavík, byggt árið 1896, að því að talið er. Húsið var orðið illa farið, en endurbygging þess gengur vel og mun Melrakkasetur Íslands verða þar með aðsetur.
 
   Í Eyrardalsbæ verður komið upp fræðasetri um íslenska melrakkann, þar sem safnað verður á einn stað þeirri þekkingu sem til er á íslenska Melrakkanum í fortíð og nútið. Meðal annars verður þar sýning fyrir ferðamenn um refi í náttúrunni, refarækt og refaveiðar. Þarna verða veggspjöld, lifandi myndefni, fyrirlestrar, safn merkra muna, handverk, uppsett dýr og margt fleira. Setrið mun koma að rannsóknum sem viðkoma íslensku tófunni í samvinnu við Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða, sem og aðrar rannsóknarstofnanir, innlendar sem erlendar. Stefnt er að því að safnið verði formlega opnað vorið 2010. Þann 28. júní sl. var opnuð heimasíða fyrir setrið á slóðinni: www.melrakkasetur.is

   Frá 2006 höfum við verið í metnaðarfullu verkefni sem snýst um að finna heitt vatn í Álftafirði. Gerðar voru tilraunaholur í Álftafirði árið 2006 og þær gáfu vísbendingar um að þar væri heitt vatn að finna. Í fyrra varð hlé á verkefninu vegna óvissu um aðkomu ríkisins að jarðhitaleit á köldum svæðum en nú hefur ríkið ákveðið að styðja við bakið á okkur, þannig að áfram verður haldið með verkefnið í sumar og við bindum miklar vonir við niðurstöðurna, að þær verði það jákvæðar að fljótlega verði hægt að fara í að undirbúning að uppsetningu jarðhitaveitu í Súðavík. 

   Í maí sl. var opnaður nýr veitingastaður í Súðavík, veitingastaðurinn Amma Habbý. Þar hefur ekkert verið til sparað í innréttingum og búnaði og verð ég að segja að ég hef sjaldan komin inn á jafn vel útfærðan og notalegan veitingastað. Þema staðarins eru útlit bandarískra veitingastaða og er staðurinn sambland af veitingahúsi, kaffihúsi og bar. Það er viss upplifun að koma á Ömmu Habbý, hvort sem maður ætlar að fá sér kaffibolla, vel útilátinn hamborgara eða alvöru steik. Eitthvað sem allir ættu að prófa. 

   Ferðmenn eru boðnir hjartanlega velkomnir til Súðavíkurhrepps.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga