Greinasafni: Sveitarfélög
Bolungavík - Góð aðstaða fyrir ferðamenn

Mannlíf í Bolungarvík einkennist af framkvæmdagleði og bjartsýni

Elías Jónatansson (mynd)

Í Bolungarvík búa ríflega níu hundruð manns og þar hefur sjávarútvegu verið stærstur „síðustu ellefu hundruð árin,“ eins og bæjarstjórinn, Elías Jónatansson orðar það. „Hér er öflug útgerð og öflug fiskvinnsla, þrátt fyrir niðurskurð aflaheimilda, en Bolvíkingar hafa verið duglegir við að auka sínar aflaheimildir, þrátt fyrir mótbyr. Síðan erum við með stóra rækjuvinnslu sem hyggur á þreföldun í framleiðslu því það er hugur í mönnum á þeim bæ,“ bætir hann við. „Það verður fullkomnasta rækjuvinnsla í heimi. Rækjuvinnslan er ekki að bæta við sig fermetrum, heldur er verið að bæta tækjakostinn og getur verksmiðjan þá afkastað tólf þúsund tonnum á ári án þess að fjölga þurfi starfsmönnum að nokkru marki sem er ansi mikið af rækju ekki síst ef litið er til baka um nokkur ár. 

   Svo er ýmis þjónusta hér eins og eðlilegt er, góður grunnskóli, leikskóli, íþróttahús og sundlaug, sundlaugargarður og ný vatnsrennibraut sem allir verða að prófa. Heilsugæsla er á staðnum og sjúkrahús sem sérstaklega sinnir öldruðum, en góð heimaþjónusta er líka fyrir aldraða. Mannlíf er í alla staði mjög gott hjá okkur og hér er gott að vera.“ 

Mannvirkjagerð og endurbætur 
   Fyrir dyrum standa miklar framkvæmdir í Bolungarvík. Í fyrsta lagi jarðgöng milli Bolungarvíkur og Hnífsdals, sem taka af Óshlíðina. Það segir Elías verða mikinn mun fyrir Bolvíkinga og aðra sem eiga erindi þangað, en Óshlíðin hefur verið farartálmi, ekki bara fyrr á öldum heldur líka eftir að vegur var opnaður um hlíðina 1950. Einnig eru að hefjast stórar framkvæmdir við snjóflóðavarnir, sem hafa lengi verið í bígerð. Enn önnur stórframkvæmd er síðan endurnýjun á stálþili og þekju í höfninni. „Síðan erum við í metnaðarfullri framkvæmd við endurgerð á Félagsheimilinu okkar. Það var vígt 1952 en komið var að miklu viðhaldi á öllum sviðum; lögnum, gólfefnum, þaki, innréttingum og öllu sem nöfnum tjáir að nefna. Við erum að taka húsið algerlega í gegn, byggja við það nýtt anddyri, salernisaðstöðu og bæta aðgengi fyrir fatlaða. Þá sjáum við fyrir okkur að þar verði menningarmiðstöð, frábær til tónleikahalds eða fyrir aðrar uppákomur. Þá getum við tekið á móti stærri hópum fyrir fundi og fyrir ættarmót. Öll aðstaða verður mjög góð, bæði úti og inni. Á útisvæðinu er m.a. gert ráð fyrir útisviði og góðri aðstöðu fyrir áhorfendur þar sem fólk er í góðu skjóli fyrir ríkjandi NA átt. Í kvöldsólinni gæti fólk þess vegna grillað á útisvæðinu ef svo bæri undir . 

   “ Ennfremur segir Elías verið að stækka tjaldstæðið „Þar er verið að bæta við fleiri tengjum fyrir fellihýsi, hjólhýsi og slíkt. Þetta er vel búið tjaldstæði, við hliðina á sundlauginni. Þar er lítið þjónustuhús þar sem hægt er að komast í þvottavélar, salerni og sturtur.“ 

Myndlist og leikhús
    Í Bolungarvík er mjög myndarlegt Náttúrugripasafn, þar sem Elías segir gott fuglasafn, en þar er líka hægt að sjá ísbjörn. „Þar er gott steinasafn Steins Emilssonar og einnig er þar stór surtarbrandur, 12 til 14 milljón ára gamall. Handverkshúsið Drymla er svo í sömu byggingu, en þar er selt handverk frá svæðinu af öllu tagi, prjónað, heklað og saumað, sem og ýmsir munir úr listasmiðjunni á staðnum, leir gler og málaðar myndir . ég held meira að segja að þær hafi verið með sultur þar. 

   Ósvörin er þó líklega okkar þekktasta kennileiti og við erum mjög stoltir henni. Svo er Einarshús, veitingastaður þar sem hægt er að kaupa mat og kaffi. Þar er líka lítil ölstofa í kjallara þar sem oft eru uppákomur á kvöldin. Í sumar er verið að sýna þar einleik með Elvari Loga sem ber heitið Pétur og Einar. Einleikurinn byggir á sögu þekktustu frumkvöðla og athafnamanna síðustu aldar í Bolungarvík, þeirra Péturs Oddsonar í upphafi aldarinnar og Einars Guðfinnssonar sem kemur til sögunnar á eftir Pétri, en þeir bjuggu báðir í húsinu. Sýningarnar eru að einhverju leyti á fyrirfram ákveðnum tímum en síðan geta hópar haft samband ef þeir vilja sjá sýninguna á öðrum tíma, en þá þarf einhvern lágmarksfjölda“ 

   Það helsta sem er framundan í Bolungarvík í sumar, er Markaðsdagurinn 5. júlí. „Hann verður mjög veglegur í ár og meðal þeirra sem koma fram eru Ný dönsk, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson. Kynnir verður Pálmi Gestsson Bolvíkingur. Þetta er útimarkaður. Fólk getur leigt bása og selt vörur, listmuni eða þjónustu. Fyrir börnin verða trúðar á staðnum, hoppikastalar og hringekjur bara svo fátt eitt sé nefnt. Síðan verður slegið upp dansleik um kvöldið.“ 

   „Um miðjan ágúst verður síðan ástarvikan. Enn er ekki komin út nein dagskrá en upphaflega var þessari viku hleypt af stokkunum til að fjölga íbúum á Bolungarvík. Þessi ástarvika hefur verið að þróast og ég sé hana fyrir mér þróast í tónlistarhátíð, einkum eftir að við verðum búin að endurnýja Félagsheimilið,“ segir Elías. 

Mikill uppgangur
 
   Ferðamönnum fjölgar með hverju árinu bæði erlendum og innlendum. Betri samgöngur inná hringveginn ráða þar miklu og ýta undir straum innlendra ferðamanna. Erlendum ferðamönnum fjölgar hins vegar mest flugleiðina og þá sérstaklega í tengslum við sjóstangaveiði. 

   Stöðugt bætast við nýir aðilar í ferðaþjónustu. Elías segir mikla aukningu hafa orðið í ferðir í Jökulfirði og á Strandir. “Menn eru farnir að fara í styttri ferðir með fleira fólk. Þjónustan hjá þeim er að aukast og menn eru í auknum mæli að láta ferja sig yfir Djúpið, ganga þar á milli staða, en láta ferðaþjónustuaðila ferja trúss í náttstað, sem er auðvitað jákvætt fyrir ferðaþjónustuna. 

   Síðast, en ekki síst, er þessi elsta verstöð að verða paradís sjóstangaveiðimannsins. Þrjú fyrirtæki hafa nú þegar sýnt því áhuga að koma upp aðstöðu hér í bænum vegna stjóstangaveiði. Við eigum því von á að mikill uppgangur verði í þeirri grein á næstu árum.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga