Greinasafni: Hótel og gisting
Íbúðagisting til lengri og skemmri tíma í Bolungavík
Í Bolungarvík hefur Arndís Hjartardóttir látið gamlan draum um að vinna við ferðaþjónustu rætast – og þar eru mun fleiri möguleikar en í fljótu bragði virðast til að njóta verunnar

Í Bolungarvík er Arndís Hjartardóttir, ásamt dætrum sínum fimm, með þrettán íbúðir sem hún leigir út, bæði til lengri og skemmri tíma. „Þú getur komið með svefnpokann þinn í eina nótt eða fleiri, eða fengið uppábúið rúm,“ segir Arndís, „en við erum með átta af íbúðunum í ferðamannaleigu. Þetta eru tveggja og þriggja herbergja íbúðir og það eru frá fimm og upp í níu svefnpláss í íbúðunum. Í þeim öllum er sjónvarp, dvd-tæki, ísskápur, þvotta-aðstaða, allur búnaður í eldhúsi og sturtubaðkör.“ 

   Arndís segir fyrirtækið, sem heitir Mánafell, hafa gengið vel en þetta er þriðja árið sem hún starfrækir það, ásamt fimm dætrum sínum. „Veturnir eru dálítið erfiðir – en það hefur ekki komið að sök vegna þess að við höfum verið að byggja þetta upp og koma íbúðunum í stand.“ 

Morgunroði og kvöldroði
 
   Það er gamall draumur hjá Arndísi að vera í ferðaþjónustu og þann draum lét hún rætast eftir að vera búin að ala upp sex börn, það yngsta sextán ára. “Það hefur alltaf blundað í henni gamall kaupfélagsstjóri og það hefur aldrei nægt henni að vera með heimili og vinna úti. Hún þjáist af einhverri vinnugleði,“ segir eiginmaðurinn, Finnbogi Bernódusson – sem er nú ekki alveg laus við ferðaþjónustueðlið, því hann er safnvörður í Ósvör, þar sem hann bregður í sjóklæði eða skinnklæði og veitir leiðsögn um safnið. En hvers vegna ferðaþjónustu? 

   „Það er svo gaman að leyfa fólki að upplifa hvað Bolungarvík er dásamleg,“ svarar Arndís. „Náttúran er ómæld og mannlífið gott. Ef eitthvað bjátar á er fólk alltaf tilbúið til að standa við hliðina á þér. Það er jafn dásamlegt að vakna við fuglasöng og morgunroða og að njóta kvöldanna þegar sólin gengur til viðar. Þá er hreint ævintýri að fara upp á Bolafjall. Sólsetrið er hvergi stórfenglegra.“ 

Dekur og lifandi söfn
 
   En, eins og þau Arndís og Finnbogi segja, þá er ýmislegt hægt að gera sér til dundurs á Bolungarvík. „Það er hægt að fara í sundlaugina þar sem eru rennibraut, útipottar og gufubað. Það er hægt að leigja sér tíma í Íþróttahúsinu þar sem er tækjasalur og hægt er að fara í líkamsrækt. Hjá okkur er líka frábær snyrti- og hárgreiðslustofa svo ekki þarf að líta illa út. Einnig hægt að fara út í Skálavík, þar sem er sumarbústaðabyggð með mikilli náttúrfegurð í fjörunni og hægt að kaupa sér veiðikort þar. Síðan er Náttúrugripasafnið og Ósvararsafnið. Það er óskaplega vinsælt safn.“ 

   „Ósvör er elsta útræði á Íslandi,“ segir Finnbogi. „Þetta er safn og minningarreitur um útgerð og lifnaðarhætti fyrri tíma. Bolungarvík er talin elsta verstöð á Íslandi, hefur verið þarna frá landnámi. Við erum með lifandi leiðsögn, þar sem menn eru í skinnklæðum og segja frá lifnaðarháttum og starfsháttum frá því um 900 fram til 1900. Safnið er fyrir allan aldur – og ekki síður fyrir börn. Einnig geta hópar hringt og pantað sértíma. Það er opið allt sumarið, en einnig hægt að komst inn allt árið. Ef einhver hringir, fer ég í skinnklæði eða sjóklæði og veiti leiðsögn um safnið. Síðan erum við með merkilegt Náttúrugripasafn, sem er vel búið fuglum og dýrum og ýmsu náttúrutengdu efni. Þar er fuglafræðingur sem fer með fólk í leiðsögn. Þar er einnig hægt að panta sér leiðsögn.“
 
Grasafjall og berjalönd 
   Á Bolungarvík er einnig hægt að komast í styttri hestaferðir – og fara á grasafjall, jafnvel hægt að fá leiðsögn á grasafjall. Á haustin er hægt að fara í berjamó – því þar eru gríðarlega góð berjalönd allt í kring. Síðan er hægt að fara í siglingar, því á Bolungarvík eru gerðir út bátar til að fara á Hornstrandir, í Jökulfirðina og eins yfir í Vigur, en þangað er siglt frá Ísafirði. 

   En sjálf bjóða Arndísi og Finnbogi ferðamönnum að upplifa ýmislegt fleira. „Við erum líka með rollur, vorum með tuttugu fjár í húsi í vetur og viljum tengja það ferðamennskunni. Í maí var sauðburður og síðan í september verður smalamenska. Fólk getur komið og fengið að upplifa þetta með okkur. Síðan eru ekki margir sem kunna að gera slátur í dag. Ég tek alltaf slátur og í haust ætla ég að bjóða fólki að koma vestur til að læra að gera slátur. 

   Bolungarvík er mjög hentug til ferðalaga. Þarna er stórt vatn, Syðridalsvatn, þar sem er mikil veiði og óskaplega mikið fuglalíf. Þetta er skemmtilegt svæði til fuglaskoðunar og umhverfið fallegt, með mörgum skemmtilegum gönguleiðum og nokkuð af hringleiðum, miserfiðum þannig að hver og einn getur valið sér erfiðleikastig. Það er hægt að fara í fjallaferðir, úr einum dal í annann, þar sem eru tærar ár og lækir. Flóru Íslands er þægilegt að skoða á þessu svæði, við erum með mikið af grösum og jaðargróðri, því land er víða gróið upp í fjallatoppa.“

Mánafell ehf - íbúðargisting
Arndís Hjartardóttir
Stigahlíð 2-4
415 Bolungarvík
Sími: 863 3879; 892 1616
disa@orkudisa.com
www.orkudisa.com

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga