Greinasafni: Veitingar
Einarshús í Bolungavík - Mesta djásn bæjarins
Einarshús á Bolungarvík á sér langa sögu harma og hamingju. Eftir að hafa nánast grotnað niður í svaðið hefur það verið endurgert og er í dag rekið sem veitingahús
Einarshús á Bolungarvík, sem stendur við smábátabryggjuna á besta stað í bænum, er stórmerkilegt hús með mikla sögu. Það var byggt 1904 af miklum athafnamanni, Pétri Oddssyni og konu hans, Guðnýju Bjarnadóttur en er í dag í eigu Rögnu Jóhönnu Magnúsdóttur og Jóns Bjarna Geirssonar, sem reka þar veitingahús og kann sögu þess í smáatriðum.
   „Pétur átti, vægast sagt, ömurlega ævi í húsinu vegna þess að hann missti nánast alla fjölskylduna sína úr berklum. Á 23 ára tímabili fylgdi hann fjórtán líkum frá þessu húsi,“ segir Ragna. „En það hefur tvískipta sögu harma og hamingju, því eftir lát Péturs, flytur Einar Guðfinsson, sem flestum er af góðu kunnur í húsið með sína fjölskyldu, býr þar í um þrjátíu ár og á þar góða ævi.“ 

Læknirinn í baði

    „Í þetta hús kom fyrsta baðkarið í Bolungarvík sem hafði rennandi vatn. Það var á tíma Einars Guðfinnssonar og þótti mjög sérstakt á þeim tíma. Svo merkilegt að læknirinn og fleiri mektarmenn í bæjarfélaginu fengu að fara í bað hjá Einari fyrir páskana og jólin. Læknirinn var ekki betri í eðlisfræðinni en það að hann sneysafyllti alltaf baðkarið áður en hann fór ofan í það, þannig að það flæddi alltaf niður á gólf, milli gólffjalanna niður í fataskápa og eldhúsið hjá húsmóðurinni, Elísabetu Hjaltadóttur. Vinnukonurnar höfðu þann starfa að hlaupa með fötur undir lekann og hreinsa út úr fataskápnum. Og af því þetta var svo merkilegur maður, mátti aldrei segja styggðaryrði við hann. Það varð bara að þola þetta og panellinn ber þess alveg merki. 

   Í húsinu var alla tíð rekin verslun og Bolungarvík var hreinlega stjórnað frá þessu húsi megnið af síðustu öld. Síðustu áratugina var einungis verbúð í húsinu og það var að grotna niður, þangað til við keyptum það af Bolungarvíkurkaupstað. Síðan höfum við unnið ötullega að uppbyggingu þessa merka húss með aðstoð margra góðra aðila. 

   Húsið var að falli komið þegar við tókum við því. Við tókum gamla múrhúð utan af og vorum hrædd um að húsið væri grautfúið en það var í betra ástandi en við áttum von á. Við erum að reka endahnútinn á húsið utanhúss þessa dagana og þá verður það að mestu leyti tilbúið í sumar og verður þá mesta djásn bæjarins.“
   Ragna opnaði krá í kjallara Einarshúss, þar sem áður var lager fyrir verslunina, kolageymsla og þvottahús, árið 2004. Þar er oft lifandi tónlist um helgar. Í fyrra flutti hún svo inn á efri hæðina þar sem hún rekur veitingasölu.
  „Ég fór út í það að láta gera einleik um sögu hússins, sem heitir „Pétur og Einar – saga frumkvöðla í Bolungarvík og þar fer leikarinn Elvar Logi Hannesson á kostum í heillandi frásögn af sögu hússins og íbúum þess. Sýningin var frumsýnd á sjómannadagshelginni og verður sýnd reglulega í sumar, alla fimmtudaga í júlí klukkan 20.00 og svo eins oft og þurfa þykir. 
  Í veitingasölunni er alltaf heimilismatur alla daga í hádeginu. Síðan er hægt að panta eftir matseðli, bæði hádegismat og kvöldmat, kaffi og með því yfir daginn. Ég legg áherslu á sjávarrétti, er með rækjusúpu og humarsúpu en auðvitað eru líka kjötréttir á seðlinum. Ég er loksins komin með þokkalegt eldhús og get tekið almennilega á móti fólki. 

   Þegar hópar koma til mín, þá er saga hússins pöntuð með í kaupunum. Þess vegna lét ég skrifa þennan einleik. Við höfum notið góðvildar frá fjölmörgum aðilum við endurgerð hússins og núna voru kaupmannasamtökin að styrkja mig um helgina til að taka þennan einleik upp á filmu. Það verður næsta skref.“ Segir Ragna. Heimasíða Einarshúss er www.einarshus.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga