Greinasafni: Hótel og gisting
Gamall stíll með nútíma þægindum - Í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað á Ísafirði
Í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað á Ísafirði er boðið upp á lúxussvítu í húsi frá 18. öld.
Faktorshúsið í Hæstakaupstað á Ísafirði var reist 1788 af björgunarmönnum frá Noregi. Þeir reistu átta hús en Faktorshúsið er eina húsið sem eftir stendur. Húsið gegndi hlutverki íbúðarhúss fyrir faktorinn fram undir 1930 en þá fór verslun að leggjast af í Hæstakaupstað. Síðast var þar útibú frá Nathan O. Olsen. Eftir það voru sjúkrasamlagið og Rafveita Ísafjarðar með skrifstofur í húsinu um tíma. „Síðan breytist Faktorshúsið alfarið í íbúðarhús í kringum 1940 og verður, eftir því sem ég kemst næst, þrjár íbúðir. 
   Það bjó þarna fullt af fólki, margir lengi og við höfum verið í sambandi við mikið af ættingjum og afkomendur fyrrum íbúa. Við höfum til dæmis fengið hjá því fólki bæði munnlega lýsingu á því hvernig þetta var hér á síðustu öld og myndir til að smíða eftir, sem hefur komið sér vel,“ segir Áslaug Jensdóttir eigandi Faktorshússins en hún hefur endurgert húsið ásamt manni sínum, Magnúsi Helga Alfreðssyni húsasmíðameistara. 

Upprunalegra en nokkur þorði að vona
    “Við keyptum húsið 1993 og þá var Ísafjarðarkaupstaður, sem þá hét, búinn að eiga húsið í sjötíu ár. Þegar við keyptum það fylgdu AA-samtökin með því en þau höfðu haft hér aðsetur í á annan áratug. Á þeim tíma var það alltaf kallað AA-húsið. Einnig var íbúð í húsinu þar sem bjó einn maður. Hann var leigjandi hjá bænum og var ekkert sáttur við að flytja en það fór allt saman vel.“ 

   Fyrstu fimm árin leigðum við húsið sem þrjár íbúðir en fórum þá af stað í endurbætur og tókum húsið eiginlega allt í sundur. Utan á húsinu var til dæmis slétt blikkklæðning, á þakinu bárujárn. Það var allt kolryðgað og við rifum þetta allt í burt. Fimm árum áður höfðum við ryðbætt og málað húsið til að við gætum umborið það á meðan við vorum að búa okkur undir átakið, fá upplýsingar um efni og liti, glugga og hurðir. Við fengum arkitekta til að teikna og reikna og mæla til að gera húsið eins nærri upprunalegri gerð og hægt var.
   Húsið var svo illa farið að fólk sneri sér nánast undan þegar það gekk framhjá því. Þegar við fengum að skoða það að innan, var það ekkert glæsilegra þar, en þegar var farið að losa allt í sundur, reyndist margt upphaflegt undir. Það var mun upprunalegra en nokkur þorði að vona.“ 
  
Vantar rekstraraðila fyrir veitingahlutann

„Við gerðum húsið þannig upp að hér er kaffi- og veitingahús. Það var tilbúið í árslok 2001 og bættum svo við lokaáfanga sumarið 2005, svítu með sérbaðherbergi og eldunaraðstöðu. Það er örugglega einstakt á landsvísu að hægt sé að fá gistingu í svítu í húsi frá 18. öld. Því hefur verið líkt við að gista á Þjóðminjasafninu, bara miklu þægilegra. Það hefur helst verið kvartað yfir því að erfitt sé að vakna á morgnana vegna þess að fólk sefur í lokrekkjum. Þetta er gamall stíll með nútíma þægindum og í svítunni geta gist tveir til fjórir og hálfur. Ég segi hálfur vegna þess í svítunni er lítill bekkur sem barn getur sofið á. 

   Sem stendur er engin starfsemi á veitinga- og kaffihúsinu. „Það vantar einhvern til að hefja rekstur þar,“ segir Áslaug. Húsið er friðað í 101 Ísafirði og fer ekkert þaðan. Þeir sem þora út úr hinum 101 ættu endilega að drífa sig hingað vestur til okkar. Hér er allt til alls; þarf bara að bretta upp ermarnar og mæta með svuntuna. 

   Veitingahlutinn er allur búinn antíkhúsgögnum og við höfum oft verið með sýningar þar á einhverju sem húsmóðurinni dettur í hug. Það getur verið af ýmsum toga, getur verið tengt Ísafirði eða bara fjölskyldunni. Það gengur bara ekki að hafa veitingahús í orlofi.“Faktorshúsið mynd frá 1890


Gisting Áslaugar - Faktorshúsið í Hæstakaupstað

Austurvegi 7.400 Ísafjörður .
Sími:899 0742 gistias@snerpa.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga