Greinasafni: Sveitarfélög
Draumasvæði ferðalangsins - Strandabyggð samanstendur af fjórum hreppum,
Strandabyggð samanstendur af fjórum hreppum, Bæjarhreppi, Hólmavík, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi. Þar eru tveir þéttbýliskjarnar, á Hólmavík og Drangsnesi. Íbúar eru á sjötta hundrað. En þótt byggðin sé ekki fjölmenn er mannlífið fjölbreytt og líflegt - og á sumrin streyma þangað ferðamenn í þúsundavís. 

   Óvíða er náttúran eins stórbrotin og í Strandabyggð, hrikleg, seiðmögnuð og dulúðug - enda eitt þekktasta safn landsins, Galdrasafnið á Ströndum, staðsett þar, bæði á Hólmavík og í Bjarnarfirði. Um fimmtán kílómetra utan við Hólmavík er svo Sauðfjársetrið á Ströndum. 

   Á Hólmavík er frábær tjaldaðstaða, þar sem er sérsvæði fyrir húsbíla og þá sem þurfa að tengja sig við rafmagn. Uppi við sundlaugina er annað tjaldstæði sem er vel varið fyrir veðri og vindum. Þar er eldunaraðstaða innandyra, sem og þvottavél. Í Félagsheimilinu hefur ferðamaðurinn síðan aðgang að snyrtingum. Þar er líka ný sundlaug og heitir pottar og almennt er aðstaða fyrir ferðamenn mjög góð. Í Bjarnarfirði og Drangsnesi eru einnig sundlaugar, að ógleymdri hinni einstöku Krossaneslaug í Árneshreppi sem er alveg við sjávarmálið. Það er eins og að sitja úti í beljandi hafinu. 

   Fyrir utan tjaldstæði sem má finna víða um sveitarfélagið, er þar fjöldi gistihúsa, Malarhorn á Drangsnesi, Hótel Djúpavík, Finnbogastaðaskóli í Trékyllisvík, Hótel Laugarhóll í Bjarnarfirði, Gistiheimili Norðurfjarðar, Ferðaþjónustan Mávaberg í Bolungarvík á Ströndum og Hornbjargsviti í Látravík, svo eitthvað sé nefnt.

Einnig eru ágætir veitingastaðir í Strandabyggð, til dæmis hjá Ferðaþjónustunni á Bæ III á Drangsnesi, Malarhorni á Drangsnesi og Café Riis á Hólmavík - sem er glæsilegt veitingahús með afbragðs góðan matseðil. 

   Það þarf varla að tíunda það að Strandabyggð er eitt af vinsælustu göngusvæðum landsins. Þar eru ótal gönguleiðir um fjöll og firnindi, fjörur og dali og víða skálar fyrir göngufólk. Trússbátar ganga stöðugt um norðurfirðina og bjóða einnig upp á útsýnisferðir fyrir þá sem vilja njóta útsýnisins án þess að vilja fara í göngur.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga