Greinasafni: Sveitarfélög
Árneshreppur á Stöndum. - Fáir íbúar – margir ferðamenn

Árneshreppur á Ströndum er með vinsælli ferðamannasvæðum á landinu, enda náttúran stórbrotin og sagan áhugaverð

Þú þarft ekkert að fara úr bátnum, eða að ganga til að njóta þeirrar stórbrotnu náttúru sem er á þessari leið – því við skulum ekkert gleyma því að það geta ekkert allir gengið. Þessar útsýnisferðir hafa verið alveg gríðarlega vinsælar.

Í Árneshreppi á Ströndum er landslagið mikilfenglegt, svo ekki sé meira sagt. Hreppurinn nær yfir mjög víðfeðmt svæði, strandlengjan er löng og vogskorin, fjöllin há og ganga víða í sjó fram svo undirlendi er ekki mikið. Árneshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag landsins, því þar eiga aðeins fjörutíu og níu manns lögheimili og landbúnaður er aðalatvinnuvegurinn. Syðsta byggða ból í sveitinni er Djúpavík, sem einangrast nokkuð á veturna í snjóum. Norðar er sveitin nokkuð þéttbýl, byggðakjarnar eru í Trékyllisvík og á Norðurfirði.

Oddný S. Þórðardóttir er oddviti Árneshrepps og þegar hún er spurð hvernig búsetuþróunin hafi verið síðustu árin, segir hún fólki heldur hafa fækkað undanfarin ár. „Það munar svo miklu um hvern einstakling sem flytur í burtu. Unglingarnir okkar fara í burtu í skóla á veturna og eiga lögheimili hér á meðan. Það er ekkert mikið um að þeir snúi aftur hingað að námi loknu og eins og verða vill, flytjur fólk lögheimili sitt héðan þegar það eignast börn annars staðar til þess að eiga rétt á barnaheimilisplássi. Hér hefur verið lítið um barnsfæðingar á undanförnum árum en þó hefur fæðst eitt barn á þessu ári og svo er annað tveggja ára barn í sveitarfélaginu,“ segir Oddný og bætir glettin við: „Það má því segja að meðalaldurinn í sveitarfélaginu hafi lagast mikið á síðastliðnum tveimur árum.“ 

Maður er manns gaman

   Grunnskóli hreppsins er Finnbogastaðaskóli, þar sem nemendum er ekið í skólann. Hann var heimavistarskóli á meðan börn voru í Djúpavík og Munaðarnesi og reyndar bæði sunnar og norðar á árum áður, þar sem vetrarsamgöngur eru erfiðar. Og veður eru oft óblíð á þessum slóðum. Ef mikið snjóar yfir veturinn þá lokast vegurinn til íbúa hreppsins og einu samgöngurnar eru flug tvisvar í viku. Þegar Oddný er spurð hvort það sé ekki agalega leiðinlegt að búa þarna, hlær hún við og segir: „Nei, það er af og frá. Okkur líður alveg ljómandi vel hér. Mannlífið er gott og fólk hefur feykinóg að gera allt sumarið og fram yfir sláturtíð á haustin í sínum daglegu störfum. 

   Á veturna er maður manns gaman og við hittumst þá reglulega öll saman, hálfs mánaðarlega. Förum á milli bæja, spilum bridds, saumum, prjónum eða gerum eitthvað annað til dundurs og þá er alltaf kaffi og eitthvað með því og glatt á hjalla. Börnin í skólanum halda reglulega félagsvist. Við höfum nægan tíma fyrir mannleg samskipti, það liggur engum neitt á hér svo hjartslátturinn hjá okkur helst alveg reglulegur.“
Útsýni frá hafi   
Þótt fáir búi í hreppnum, er hann æði vinsæll af ferðamönnum sem flæða yfir Strandirnar á sumrin. Þar er margt að sjá og skoða. „Það er alveg gríðarlega fallegt hér og margt að sjá í náttúrunni,“ segir Oddný. „Inni í Djúpuvík er boðið upp á kajakaferðir og þar getur fólk farið út á sjó. Í Kört í Trékyllisvík er minjasafn og handverkshús sem er alveg þess virði að skoða. Sundlaugin á Krossnesi er gríðarlega vinsæl og ég held að þangað fari allir sem koma til okkar.“ 

   Hótel Djúpavík er eina hótelið í hreppnum en auk þess eru þar tvær heimagistingar á Norðurfirði, önnur í Kaupfélagshúsinu og hin á Bergistanga. Einnig er Ferðafélag Íslands með gistingu í skála og síðan er gisting í Finnbogastaðaskóla. Tvö tjaldstæði eru í hreppnum, annað hjá Finnbogastaðaskóla og hitt í Norðurfirði við skála Ferðafélagsins. Hótel Djúpavík er með veitingasölu og nú nýlega opnaði Kaffi Norðurfjörður á Norðurfirði þar sem er hægt er að kaupa mat og kaffi. 

   Hvað varðar aðra möguleika ferðamannsins á Ströndum, segir Oddný: „Ferðirnar hans Reimars, með Sædísinni frá Norðurfirði og norður á Strandir njóta mikilla vinsælda. Fyrir utan fastar áætlunarferðir, fer hann með fólk þangað sem það vill fara og hann fer alveg norður á Horn. Hann fer í dagsferðir, sem eru útsýnisferðir, þar sem þú getur farið með honum norður á Horn og aftur til baka. Þú þarft ekkert að fara úr bátnum, eða að ganga til að njóta þeirrar stórbrotnu náttúru sem er á þessari leið því við skulum ekkert gleyma því að það geta ekkert allir gengið. Þessar útsýnisferðir hafa verið alveg gríðarlega vinsælar. 

Minjar um síldarævintýri

   Hins vegar koma margir hingað til að ganga. Það er búið að merkja nokkrar gönguleiðir í hreppnum en þar fyrir utan eru ótal staðir sem hægt er að ganga. Það er búið að merkja yfir Skörð, Kúvíkur o.fl. og stika Djúpuvíkurhringinn og gönguleiðina yfir Brekku, frá Ingólfsfirði, yfir í Ófeigsfjörð. Síðan er hægt að fara á staði eins og í Þórðarhelli og skoða Kistu, gjána þar sem galdramennirnir voru brenndir. 

   En þú getur gert fleira en að ganga. Ef þú ert á góðum bíl geturðu farið norður í Ófeigsfjörð. Miklar minjar eru eftir Síldarævintýrið sem gaman er að skoða. Á Djúpuvík þar sem voru mikil umsvif er myndasýning um Síldarævintýrið og hægt að skoða verksmiðjuna með leiðsögn. Það var líka byggð síldarverksmiðja á Eyri við Ingólfsfjörð. Hún stendur ennþá, þótt þar hafi aldrei verið mikil síld vegna þess að hún var reist í lokin á ævintýrinu.“
   Oddný segir ferðamannastrauminn mjög mikinn á sumrin og aukast ár frá ári. „En þetta er auðvitað alltaf spurning um veður hjá okkur, eins og hjá öðrum. Ferðamennirnir spretta upp eins og flugurnar þegar gott er veður.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga