Greinasafni: Sveitarfélög
Þegar sólin skín, þá skín hún á Drangsnes

Í Kaldrananeshreppi er náttúrulaug, heitir pottar í fjörunni, Bryggjuhátíðin sem nýtur stöðugt meiri vinsælda – og Galdrasafnið

Á Bryggjuhátíðinnni erum við að sjálfsögðu alltaf með sjávarréttasmakk á bryggjunni, auk þess sem hér verður stöðug dagskrá og skemmtun yfir hátíðardagana en þetta er í þrettánda sinn sem hún er haldin.

Í Kaldrananeshreppi búa rétt rúmlega hundrað manns. Þar af búa rúmlega sextíu á Drangsnesi sem stendur við norðanverðan Steingrímsfjörð, í mynni fjarðarins, og dregur nafn sitt af miklum steindrangi í þorpinu sem kallast Kerling. Byggðin á Drangsnesi er fremur ung og þéttbýli tók ekki að myndast þar fyrr en um 1925. 

   Þegar heimasíða Kaldrananesghrepps www.drangsnes.is er skoðuð, er erfitt að trúa því að ekki búi fleiri á svæðinu, því þar er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast og það er eins og íbúarnir vinni býsna vel saman. Undir það tekur oddviti hreppsins, Jenný Jensdóttir: „Fólk er samhent hér og auðsótt mál að fá það í sjálfboðavinnu þegar við viljum gera okkur glaðan dag eins og að halda okkar árlegu Bryggjuhátíð.“ 

   Á Drangsnesi er afar vel búinn og góður skóli en þar verða aðeins fimmtán nemendur næsta vetur. Drangsnes er útgerðarbær og afkoma íbúanna þar hefur grundvallast á sjósókn og fiskvinnslu. „Við erum að leika okkur að því að segja að við séum minnsta fiskimannaþorp í heimi. Ekki bara vegna þess að hjá okkur er útræði, heldur vegna þess að öll þjónusta er til staðar,“ segir Jenný.
 
Fjölbreytt gistiþjónusta
   Um þessar mundir er verið að byggja upp ferðaþjónustu í hreppnum. Ásbjörn og Valgerður sem reka Sundhana og Malarhorn voru kosin ferðaþjónar ársins á Ströndum þar sem þau sýndu mestu framfarir í ferðaþjónustu á árinu og Jenný segir að þá viðurkenningu muni þau örugglega hljóta aftur þetta árið, þar sem þau séu að bæta við sig gistingu fyrir tuttugu manns. Þá verður Malarhorn með þrjátíu herbergi með baði, auk þess að reka kaffihús. 

   En það er pláss fyrir fleiri gesti í Kaldrananeshreppi, því þar er ágætis tjaldstæði við samkomuhúsið og á meðan á Bryggjuhátíð stendur er slegið upp aukatjaldstæði. Önnur ástæða er sú að Drangsnes er orðið mjög vinsælt til ættarmóta og sú þriðja að ferðamannastraumur á svæðið eykst töluvert mikið frá ári til árs. Jenný segir að hreppurinn hefði einfaldlega þurft að skapa meira rými og auka þjónustuna við tjaldstæði, einkum vegna þess að húsbílar og fellihýsi taki mikið pláss. 

   Á Drangsnesi er líka gistihús Sunnu, sérstætt gistihús, sem er aðeins eitt herbergi „með öllu,“ sér inngangi, eldhúsi og baðherbergi. „Þetta er mjög huggulegt fyrir hjón, eða par, sem vill vera sér og láta fara vel um sig enda hefur gengið vel með þessa gistingu frá því að hún fór af stað í fyrra. En fyrir þá sem vilja vera utan við bæinn, þá er Ferðaþjónustan á Bæ góður kostur og svo er það hótelið sem lengst hefur starfað á þessu svæði, Hótel Laugarhóll, sem er með tuttugu herbergi með sérbaðherbergi. Þar gengur mjög vel og er yfirleitt fullbókað allt sumarið þegar upp úr áramótum. En það er svo sannarlega þess virði að staldra þar við og fá sér að borða. Matti, sem rekur hótelið, er núna að vinna í því að auka ferðaþjónustu þar yfir veturinn. Þar er einnig tjaldstæði.“ 

Heitir pottar í hól og fjöru

   Hvað sundlaugar varðar, þá er ný, mjög góð sundlaug á Drangsnesi, aðeins tveggja ára gömul og þar hefur aðstaða fyrir fatlaða verið bætt til muna, til dæmis með sér sturtu en lyftan í laugina er ekki komin. Á Klúku í Bjarnarfirði, þar sem Kotbýli kuklarans hluta af Galdrasafni á Ströndum er að finna, er síðan Gvendarlaug hins góða. Þar er heitur pottur sem er afar sérstakur þar sem vatnið kemur beint upp úr jörðinni. .Þú situr bara inni í hólnum og vatnið kemur í mátulegum hita upp úr jörðinni. Það er eins náttúrulegt og það gerist,“ segir Jenný og bætir við: „Svo eru heitir pottar í fjörunni á Drangsnesi fyrir alla. Þar er hægt að fylgjast með fuglalífinu og jafnvel hvölunum í firðinum á meðan slakað er á.“ 
   Og pottarnir í fjörunni eru mikið notaðir á sumrin, bæði af heimamönnum og gestum, enda eru sumrin þar blíð. Drangsnes liggur nánast alveg á móti suðri og þegar sólin skín, þá skín hún á Drangsnes. Jenný segir að veðurfarslega sé svæðið skyldara norðurlandi en vestfjörðum yfir sumarið. 

   Á Drangsnesi er fiskvinnsla og smábátaútgerð. Grásleppuvertíð er þar tiltölulega nýlokið og gekk vel í ár að sögn Jennýjar. „Grásleppuvertíðin á vorin er mikil stemmningstími hér og Strandamenn segja stundum í gamni að Drangsnesingar hafi fundið upp grásleppuna, því vinnsla á grásleppuhrognum hófst á Drangsnesi upp úr 1930. Grásleppuvertíðin hefur alla tíð skipt miklu máli fyrir afkomu íbúanna.“ 

Bryggjuhátíð og uppátækin í ár

   Bryggjuhátíðin á Drangsnesi hefst að þessu sinni 19. júlí. Það sem einkennt hefur hátíðina til þessa er að það er alltaf keppt í einhverju sem enginn hefur heyrt minnst á áður. „Núna ætlum við að brydda upp á þeirri nýjung að vera með fuglahræðukeppni þannig að gestir og heimamenn geta mætt með sína fuglahræðu,“ segir Jenný. „Verðlaunin í fuglahræðukeppninni eru mjög vegleg og einu skilyrðin fyrir þátttöku er að láta vita tveimur dögum fyri hátíðina af hræðunni. Gestir velja síðan flottustu fuglahræðuna. Á Bryggjuhátíð verður grásleppusýning, þar sem við sýnum í máli og myndum vinnslu á grásleppu og gefum fólki að smakka á afurðum. 

   Við ætlum líka að gefa út ljóðabók í sambandi við Bryggjuhátíðina í ár. Í Kaldrananesnreppi var mjög öflug skáldskaparhefð hér áður fyrr og með útgáfunni erum við að bjarga frá gleymsku þeim höfundum sem hér bjuggu. Þetta er nýr vinkill á menningarvarðveislu okkar því fyrir nokkrum árum hófum við söfnun og varðveislu ljósmynda hér. Á Bryggjuhátíðinnni erum við að sjálfsögðu alltaf með sjávarréttasmakk á bryggjunni, auk þess sem hér verður stöðug dagskrá og skemmtun yfir hátíðardagana en þetta er í þrettánda sinn sem hún er haldin. Og allt sem viðkemur hátíðinni er unnið í sjálfboðavinnu. Það lenda flestallir íbúar sveitarfélagsins inn á vinnuskrá hjá okkur á meðan á undirbúningi stendur.“ 

   A ðsóknin að Bryggjuhátíðinni er alltaf að aukast og Jenný segir það hafa einkennt hátíðina að þá sé alltaf gott veður á Drangsnesi. Svo bætir hún glettin við: „Þeir segja gárungarnir að ég sé svo helvíti frek að Guð almáttugur þori ekki annað en að hlýða. Það er bara gott ef svo er.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga