Greinasafni: Ferðaþjónusta
Frá heimskautsbaug að hálendi

Á norðurlandi er að finna blómlegar sveitir, djúpa dali, fagra fossa, ævintýraleg hraun, matarmiklar ár og vötn, auk fjölda skemmtilegra bæja

„Sérstaða norðurlands er að mínu mati tvenns konar,“ segir Kjartan Lárusson framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á norðurlandi. „Annars vegar þessi ótrúlegi margbreytileiki í náttúru og landslagi. Hins vegar hið gríðarlega stóra svæði sem ferðamanninum stendur til boða.“ Svæðið sem Kjartan er að tala um nær hvorki meira né minna en frá Hrútafirði að Langanesi og er markaðsstofan samstarf tuttugu sveitarfélaga á Norðurlandi – sem hafa innan sinna marka 97 prósent af íbúum svæðisins.
  
Kjartan segist gjarnan skipta svæðinu í fjóra hluta. „Þá er fyrsti hlutinn frá heimskausabaugi í norðri, þar sem Grímsey er mjög vaxandi ferðamannastaður, sem og það sérstaka samfélag sem þar er. Strandsiglingar eru hvað mestar á norðurlandi, Auk ferjunnar til Grímseyjar, er Hríseyjarferjan, sjóstangaveiði og siglingar bæði í Skagafirði, Eyjafirði og Húnaflóa og gríðarmiklar hvalaskoðunarferðir á Skjálfanda. Svæði tvö eru hinar ótrúlegu og margbreytilegu fjörur með öllu því lífi sem þar er að finna – svo og þéttbýliskjarnarnir sem allir eru staðsettir við sjóinn. Í þriðja hluta er láglendið og sveitirnar með sínum fögru dölum og djúpu fjörðum. Í fjórða hluta er hálendisröndin norðan jökla, þar sem er að finna – eins og annars staðar á norðurlandi – marga athyglisverða staði, samanber Arnarvatnsheiði, Hveravelli, Herðubreiðarlindir, Öskjuvatn, Hvannalindir, Kverkfjöll, hálendisvegina Kjöl og Sprengisand. Á Norðurlandi er fjöldi fossa, meðal annars þrír af fegurstu fossum landsins, Dettifoss, Goðafoss og Aldeyjarfoss – sem líklega er einn fallegasti foss í heiminum. Þessir þrír fossar eru mjög aðgengilegir. „ 

Selur og hernaðarmannvirki
 
   Þegar Kjartan er spurður hvað sé markverðast á norðurlandi fyrir ferðamanninn að sjá, byrjar hann í vestri og vinnur sig austur landshlutann. „Í Húnavatnssýslum er margt merkra staða, sögulega og landfræðilega. Hvað varðar afþreyingu eru gönguleiðir og víða er veiði í vötnum. Þar má nefna Arnarvatnsheiðina og Skagann – sem er enn forvitnilegri nú en fyrr eftir að sá möguleiki myndaðist að rekast megi á ísbirni þar. 

   Á Hvammstanga er að finna selasetur og þaðan er gert út í siglingar í selaskoðun, auk þess sem menn geta skoðað seli í sellátrum víða á Vatnsnesi. Þar er einnig að finna Borgarvirki, sögulega merkilegan hlut, hugsanlega elsta hernaðarmannvirki íslensku þjóðarinnar. Ennfremur má nefna hina fögru dali, eins og Vatnsdalinn sem er væntanlega með alfegurstu dölum landsins og ákaflega búsældarlegur, enda ekki að ástæðulausu að Ingimundur gamli settist að þar. Miklir snillingar íslenskrar fegurðar eru þar fæddir, meðal annars Þórarinn B. Þorláksson á kirkjustaðnum Undirfelli og ekki má gleyma Bjargi í Miðfirði þar sem Grettir fæddist, líklega 996. Kolugljúfur í Víðidal er einkar fallegt og á Blönduósi er Hafíssetur en á Skagaströnd stendur til að opna Spákonuhof.
   Einnig ber að nefna nokkrar skemmtilegar hjáleiðir út af hringveginum í Húnavatnssýslum, til dæmis Vatnsnesið sem áður er getið, Vatnsdal, Svínvetningabraut og Skagann.“ 

Mögnuð saga 
   „Skagafjörður er hvað þekktastur fyrir miklar sögulegar heimildir og má þar nefna Flugumýri, Örlygsstaði og Víðimýri, svo einhverjir staðir séu nefndir. Drangey er oftast tengd sögunni um endalok Grettis – en í Skagafirði er ennfremur að finna Grettislaug og aðra staði sem kenna sig við kempur fortíðarinnar. Þó er líklega merkastur allra staða Hólar í Hjaltadal, biskupssetur frá 1106 til 1801 og enn er þar biskupssetur með vígslubiskup. Hólar voru miðpunktur menningar og mennta á norðurlandi í árhundruð. Byggðarsafnið að Glaumbæ og Vesturfarasetrið á Hofsósi eru einnig mjög vinsæl. Afþreying í Skagafirði er margslungin. Þar er boðið upp á eyjasiglingar og þar er mikil safnamenning; á Glaumbæ, Hofsósi og Hólum. Þekkt er hin mikla hestamenning um allan Skagafjörð og flúðasiglingar í uppsveitum Skagafjarðar hafa notið mikilla vinsælda á seinni árum. Úr Skagafirði, eins og annars staðar á norðurlandi, er hægt að aka inn á hálendisbrúnina, auk, þess sem hægt er að taka hjáleið frá Varmahlíð, inn á hálendið að Laugafelli og þaðan Eyjafjarðardalina í norður að Akureyri – á vel gerðum bílum. Sé horft út Skagafjörðinn fer ekki á milli mála að perlur hans rísa úr hafi, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði. Austurhlíðar Skagafjarðar samanstanda af hinum tignarlega Tröllaskaga, stærstu og mestu fjallaþyrpingu landsins, sem skilur að Skagafjörð og Eyjafjörð. Hringakstur um Tröllaskagann er ákaflega gefandi og ekki skaðar að á næsta ári þegar Héðinsfjarðargöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða tekin í notkun á þessi leið eftir að styttast töluvert. Þá tengist Siglufjörður vegakerfinu betur en þar er að finna mikla sögu. Saga síldarævintýrs og útgerðar er kynnt í hinu margverðlaunaða Síldarmynjasafni. Sólarlagssiglingar og hrífandi gönguleiðir „Eyjafjörður er lengstur norðlenskra fjarða. Við hann er að finna níu þéttbýliskjarna af hverjum Akureyri er langstærstur í botni fjarðar. Í Eyjafirði er að finna mikla kirkju- og skólasögu. Má þar nefna Möðruvelli, Munkaþverá, Grund og Kaupang. 
   Afþreying við Eyjafjörð er vissulega tengd siglingum að hluta til, samanber Hríseyrarferjuna, Húna 2, sem er með sólarlagssiglingar og ennfremur er boðið upp á Hvalaskoðun. Allir helstu þjónustuþættir og kjarni nútímamenningar eru til staðar á Akureyri, sem og öll sú þjónusta sem ferðamen sækja almennt í. Ferðir inn og út fjörðinn eru jafn hrífandi hvort sem farið er inn í Eyjafjarðardali, inn að Möðruvöllum, eða út fjörðinn að Grenivík og Kaldbak – en einmitt þar er að finna eitt af fegursta og vænlegasta göngusvæði á norðurlandi, í Fjörðu og Flateyjardal. Samgöngur við Akureyri eru góðar, bæði á sjó og landi og yfir sumartímann eru allt að átta flug á dag frá Reykjavík.“ Safnaflóran á Akureyri er mikil og nú eru framkvæmdir við hinn forna verslunarstað Gásir í undirbúningi. 

Fegursti fossinn og hraunin í Mývatnssveit 
   Frá Eyjafirði yfir í Þingeyjarsýslur er farið um Víkurskarð en væntingar eru um að innan fárra ára verði ekið í gegnum göng á milli þessarra tveggja sýslna. Þingeyjarsýslur eru mjög víðfeðmt svæði á norðurlandi og þar er margt að finna. Segja má að afþreyingin sé að hluta til sú að aka eftir hentugleikum yfir þetta mikla og spennandi náttúrusvæði. Til að nefna örfáa staði, má nefna Ljósavatnsskarð, þar sem trúarleg framtíð þjóðarinnar var ákveðin árið 1000, Goðafoss tengist þeim viðburði og síðan – þegar haldið er lengra í austur, blasir við Reykjadalurinn og leiðin ýmist til Mývatns eða til Húsavíkur og Tjörness. Ennfremur er hægt að keyra inn Bárðardalinn – sem er með lengstu dölum á Íslandi. Í botni hans er að finna hinn fræga og fallega Aldeyjarfoss. Á Húsavík er miðstöð hvalaskoðunar á landinu, auk þess sem þar er að finna alla þá þjónustu sem ferðamenn leita eftir. Á þessari leið er ekið meðfram og yfir hina frægu Laxá í Aðaldal en norðurland er einkar ríkt af laxveiðiám, silungsám og veiðivötnum í byggð, sem og upp til hálendis. Mývatnssvæðið þarf varla að kynna fyrir fólki. Þar er miðstöð íslenskrar náttúru. Þar til koma ekki bara fuglarnir og fiskarnir í ám og vötnum, heldur hraunin og hraunmyndanir í allri sinni fegurstu dýrð. Má þar nefna Dimmuborgir og Hverfjall. Aukreitis háhitasvæðið Námaskarð, Kröfluvirkjun, gíginn Víti og Leirhnjúkafjöllin í bakgrunn, þar sem síðast gaus í Þingeyjarsýslum.“ Landslag engu öðru líkt „Á þessu svæði er mikil þjónusta við ferðamenn og boðið upp á alls kyns möguleika fyrir göngufólk og fólk sem ferðast á eigin bíl, sem og þá sem vilja hjóla. Nýjasta framlag heimamanna í þessari þjónustu eru tvímælalaust Jarðböðin sem hafa reynst afar vinsæl fyrir erlenda sem og innlenda ferðamenn. Þjóðgarðurinn við Jökulsárgljúfrin, frá Ásbyrgi í Öxarfirði að Hljóðaklettum og Hólmatungum, með perluna Dettifoss gnæfandi yfir öllu, er einstakt svæði að heimsækja. Í norðri er hins vegar að finna þéttbýliskjarnana Kópasker og Raufarhöfn á hinni einstöku Melrakkasléttu, með fjörur fullar af ilmandi þangi og landslag sem er engu öðru líkt á Íslandi. Úti fyrir má sjá Mánáreyjar rísa úr hafi. Til suðurs, inn á hálendið, er að finna þekkta staði og útverði norðlensks landbúnaðar, Grímsstaði og Möðrudal á Fjöllum. Ýmsar fallegar og spennandi hjáleiðir er að finna frá hringveginum um allt Norðurland. Vísast þar í bæklinginn “Norðurland” sem fæst á upplýsingamiðstöðum.
   Hér hefur verið hratt farið yfir sögu og aðeins fátt eitt tínt til. Ég hef nefnt þessa staði sem eins konar vegvísa fyrir fólk til að staldra við, vegna þess að út frá þeim má síðan feta sig áfram í ótal aðrar perlur. Aðalmálið er að staldra við og tilvalið að koma við á upplýsingamiðstöðvum á leiðinni til að fá nánari upplýsingar um þá möguleika sem í boði eru.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga