Greinasafni: Sveitarfélög
Húnaþing vestra. Falleg náttúra og fjölbreytt þjónusta í alfaraleið
Húnaþing vestra nær frá Hrútá í Hrútafirði í vestri að Gljúfurá í austri. Fjölbreytt náttúra er í Húnaþingi vestra og mikil náttúrufegurð. Grösugir dalir, tignarleg fjöll og vogskornar strendur. Vinsælustu náttúruperlurnar eru Kolugljúfur í Víðidal, Hvítserkur við Vatnsnes og Borgarvirki í Vesturhópi. 

   Nokkrar af bestu laxveiðiám landsins, þ.á.m. Víðidalsá, Miðfjarðará og Hrútafjarðará eru í Húnaþingi vestra og fjöldi silungsvatna er upp til heiða, en vötnin á Arnarvatnsheiði eru talin eitt af þremur óteljandi fyrirbærum á Íslandi. 

   Íbúar í Húnaþingi vestra eru um 1150 talsins og helstu þéttbýlisstaðirnir eru Hvammstangi þar sem búa um 600 manns og Laugarbakki þar sem búa um 50 manns. Húnaþing vestra er gamalgróið landbúnaðarhérað með gróskumikil heiðarlönd og eitt helsta sauðfjárræktarhérað landsins auk þess sem þar er mikil hrossarækt. Að sögn Hrafnhildar Ýr Víglundsdóttur, framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands á Hvammstanga, byggist atvinnulíf í Húnaþingi vestra að mestu upp á landbúnaði, matvælavinnslu, smáiðnaði og ýmsum þjónustufyrirtækjum, en hún segir að þar sé mikil frumkvöðlakraftur sem sjáist hvað mest í fjölda smáfyrirtækja á svæðinu. Þar megi meðal annars nefna gullsmið,prjónastofu,- umboðsaðila einingahúsa, tölvufyrirtæki, bílasölu, prentsmiðju og svo lengi mætti telja. 

   “Hér er einnig mikill kraftur í ferðaþjónustu, en ferðaþjónustufyrirtæki eru á annan tug talsins. Fjölbreyttir gistimöguleikar í bændagistingu, gistihúsum og hótelum, og í boði er fjölbreytt afþreying, að mestu tengd náttúruskoðun,” segir Hrafnhildur Ýr.

   Helsta aðdráttarafl á svæðinu eru sellátrin á Vatnsnesi, en þar er áratuga hefð fyrir selaskoðun. Töluverð uppbygging hefur verið á selaskoðunarstöðum þar, má þar helst nefna Svalbarð, Illugastaði og Ósa.

   Þá eru mörg tækifæri til fuglaskoðunar á svæðinu, en þar verpir mikill fjöldi fuglategunda. Sem dæmi má nefna að stærstu himbrimabyggð Evrópu er að finna á Hrútafjarðarhálsi. Önnur afþreying eru t.d. göngur og réttir (bæði sauðfjár- og stóðréttir) að hausti, sem draga að sér æ fleiri ferðamenn ár hvert, en Víðidalstungurétt er ein stærsta stóðrétt á landinu. Á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu ber helst að nefna verkefnið Grettistak sem byggir nú afþreyingargarðinn Grettisból á Laugarbakka. Byggðarsafnið á Reykjum er einnig vel sótt. 

   “Ferðamálafélag Vestur Húnavatnssýslu er mjög öflugt og hefur m.a. komið að uppbygginu á fuglaskoðunaraðstöðu við Gauksmýrartjörn í Línakradal og selaskoðunaraðstöðu við Svalbarð á Vatnsnesi. Unnið er eftir hugmyndafræði um aðgengi fyrir alla, t.d. með lagningu hjólastólafærra stíga. Stígurinn við Gaukmýrartjörn er nú þegar hjólastólafær, en verið er að vinna að fleiri slíkum verkefnum við Illugastaði og Stapavatn á Vatnsnesi,” segir Hrafnhildur Ýr. 

   Mikil handverkshefð er í Húnaþingi vestra þar sem unnið er úr margs konar hráefnum. Hinir víðfrægu steinakarlar Önnu Ágústsdóttur spila þar stóran sess, en þar má helst nefna þau Sumarliða og Þbetu (ÞoddnBetu) sem taka á móti ferðalöngum við vegamótin inn að Hvammstanga. Einnig er vert að minnast á listilegan útskurð Helga Björnssonar frá Huppahlíð ásamt mörgu fleiru sem nálgast má í handverkshúsinu Bardúsa á Hvammstanga. 

   Héraðshátíðir sem haldnar eru í Húnaþingi vestra í ár eru Bjartar nætur – Fjöruhlaðborð á Vatnsesi sem haldin er um Jónsmessuhelgi ár hvert, Unglistarhátíðin Eldur í Húnaþingi sem haldin verður 23. – 27. júlí og Grettishátíð sem haldin verður um verslunarmannahelgina.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga