Greinasafni: Hótel og gisting
Gistihús með sál og heimagerður matur
Á Neðra-Vatnshorni er rekið gistiheimili í sérhúsi, sem er gamalt en með sál og hefur nýlega verið gert upp. Samhliða ferðaþjónustu er stundaður hefðbundinn landbúnaður á Neðra-Vatnshorni með um 450 fjár og nokkra hesta.
   Umsjón með gistihúsinu hefur Andrea Laible sem er þýsk að uppruna og hefur hún rekið gistiheimilið samfleytt í 15 ár. 

   „Húsið er sérstakt þar sem áhersla er lögð á að halda gamla laginu og að það ríki góður andi í því. Það eru þrjú svefnherbergi, eitt þriggja manna og tvö tveggja manna og eru öll herbergi mep handlaug, en salerni og sturta eru sameiginleg auk eldhúss og setustofu með sjónvarpi, bókum og spilum. Hér er hægt að fá bæði uppbúin rúm með eða án morgunverðar eða svefnpokapláss. Þá er hægt að leigja húsið fyrir allt að 10 manns og er dagurinn seldur á 22.000 krónur,“ segir Andrea.   

Uppbúin rúm með morgunmat í tveggja manna herbergi kosta 8.800 krónur en 13.000 kr í þriggja manna herbegi. Börn til 12 ára aldurs fá 50% afslátt ef þau gista í herbergi með foreldrum sínum.
 
   „Persónulegt og hýlegt viðmót er í fyrirrúmi og legg ég mikið upp úr því, enda gistiheimilið fámennt og hverjum gesti er velkomið að spjalla við okkur yfir kaffibolla,“ segir Andrea. 

   Boðið er upp á bæjarrölt með innliti í fjárhúsin og skoðun á vélakosti búsins.
   „Gestum gefst kostur á að fylgjast með störfum bóndans og hápunkturinn er sauðbúrðurinn í maí þegar krakkar geta gefið lömbum úr pela, og svo eru það réttarstörfin um miðjan september. Einnig geta krakkar setið í dráttarvél með bóndanum og farið smá rúnt,“ segir Andrea. 

   Morgunverðarhlaðborðið á Neðra- Vatnshorni er fjölbreytilegt og er áhersla lögð á að bjóða upp á heimabökuð brauð og kæfu úr afurðum búsins. Ferskur drykkur úr berjum er búinn til í blandara og einnig er boðið upp á heimagerðar sultur og marmelaði, til dæmis úr tómötum og appelsínum.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga