Greinasafni: Hestar einnig undir: Hótel og gisting
Gauksmýri. - Hingað koma heilu fjölskyldurnar
Sveitasetrið Gauksmýri er ferðaþjónustustaður í Línakradal í Húnaþingi vestra, mjög nákvæmlega mitt á milli Reykjavíkur og Akureyrar (194 kílómetra frá hvorum stað) og liggur þjóðvegur númer 1 í gegnum hana. Þeir sem dvalið hafa á Gauksmýri geta líklegast flestir tekið undir það að dvölin þar er afar eftirminnileg.
   Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir eru ferðaþjónustubændurnir á Gauksmýri. Fyrir tveimur árum breyttu þau húsinu öllu, staðurinn var endurnýjaður, byggt við hann og öllu breytt. Það er alveg óhætt að segja að Gauksmýri sé í dag „dálítið grand.“ 

   „Um leið og við breyttum húsinu, breyttum við nafni staðarins, þannig að við köllum þetta Sveitasetrið Gauksmýir. Þótt við séum á hótelstandard, erum við ekki hótel,“ segir Jóhann og bætir við: „Þegar þú kemur á hótel, færðu sjaldnast persónulega þjónustu, en hana viljum við veita. 

   Við gerum dálítið út á náttúru- og hestatengda ferðaþjónustu. Hér er gistiheimili sem rúmar fimmtíu til sextíu manns. Við kynnum okkur sem „Staður með stíl,“ og í því felst að við erum með mikið af listmunum og handverki á veggjum. Það skapar viss notalegheit.“ 

   Á Gauksmýri eru veitingar fyrir hópa og aðra gesti sem dvelja á sveitasetrinu en Jóhann segir þau Sigríði ekki gera út á þjóðvegaumferðina. „Hins vegar eru allir velkomnir, því það er alltaf kaffi á könnunni, brauð og kökur.“ 

   Það verður enginn svikinn af því að vera í fæði á Gauksmýri, því þau Jóhann og Sigríður leggja sig fram um að vera með hollustumat. Sigríður, sá snilldarkokkur, er í eldhúsinu, ásamt fleirum og galdrar þar fram hollan heimilismat sem er hreint lostæti. 

   Að stórum hluta til eru það útlendingar sem dvelja á Gauksmýri, einkum yfir vetrartímann en Jóhann segir Íslendingum stöðugt fjölga. Og það er nóg við að vera á staðnum. 

   „Við erum með hestaleigu og hestasýningar. Síðan er fuglaskoðunaraðstaða við Gauksmýrartjörn og núna erum við að vinna að opnun Krummasafns, þar sem við gerum hrafninum skil frá A til Ö. Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í heilt ár og vonandi verður opnunarhátíð hér síðsumars.“ 

   Á Gauksmýri er hestaleiga og alltaf með leiðsgön. Óvönu fólki er alveg óhætt að skreppa á bak þar, vegna þess að þau Jóhann og Sigríður leggja mikið upp úr því að byrja ávallt á því að kenna á hesta, auk þess sem ferðirnar eru alltaf með leiðsögn og taka klukkutíma til einn og hálfan tíma. 

   Einnig getur fólk dvalið á Gauksmýri í lengri eða skemmri tíma og lært allt um hesta. Eða, eins og Jóhann segir: „Hingað koma heilu fjölskyldurnar.“ En þótt þema staðarins sé hross heimsækja einnig aðrir gestir Gauksmýri. „Það eru allir velkomnir til okkar. Við erum þátttakendur í átakinu Opinn landbúnaður, sem þýðir að fólk getur komið til okkar og fylgst með okkur að störfum,“ segir Jóhann að lokum.

Allar nánari upplýsingar er að fá hjá gestgjöfum í síma: 451-2927,
 fax: 4513427  gsm: 8697992  gauksmyri@gauksmyri.is
Forsetahjónin í heimsókn Staðarhaldarar Sigga og Jói Útreiðar við Gauksmýrartjörn

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga