Greinasafni: Söfn
Selasetur Íslands
Á Selasetrinu er hægt að fá upplýsingar um selaskoðunarstaði á Vatnsnesi, en þar er að finna ein aðgengilegustu sellátur á Íslandi.

Selasetur Íslands var stofnað formlega þann 29. apríl 2005. Að stofnuninni stóðu áhugasamir einstaklingar um eflingu sjálfbærrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra. Selasetur Íslands hefur aðsetur í hinu sögufræga verslunarhúsi Sigurðar Pálmasonar, að Brekkugötu 2 á Hvammstanga.
  
Húsið er sérstaklega glæsilegt og vel staðsett í hjarta bæjarins. Í Selasetrinu er fræðslusýning um seli við Ísland, lifnaðarhætti þeirra, nýtingu sela í aldanna rás ásamt þjóðsögum og þjóðtrú tengda selum. Í Selasetrinu eru opnaðar metnaðarfullar listsýningar ár hvert. Í ár er boðið upp á sýninguna Svo lærir sem lifir, minningarsýningu um Gunnþór Guðmundsson listamann og stendur sú sýning frá 1. júní – 15. júlí. Seinni part sumars verða svo sýndar kríumyndir Siggu frá Grund og stendur sú sýning frá 15. júlí – 31. ágúst. Skemmtileg útisýning er einnig á lóð setursins, en þar er að finna útskorna tréseli, gamlan selveiðibát, bátaspil og ýmislegt fleira. 

   Selasetur Íslands gegnir hlutverki almennrar upplýsingamiðstöðvar en þar geta ferðamenn fengið upplýsingar um athyglisverða áfangastaði og afþreyingu í Húnaþingi. Þar eru líka seldir minjagripir og handverk úr héraði.   

Eitt af markmiðum Selaseturs er að standa fyrir rannsóknum á selum og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Í ár fór af stað sérstakt rannsóknarverkefni á Illugastöðum á Vatnsnesi þar sem skoðuð eru áhrif aukins ferðamannafjölda þar á atferli selanna. Verkefnið er unnið í samvinnu við Nýsköpunarsjóð námsmanna, Fræðasetur HÍ á Húsavík og Melrakkasetrið á Vestfjörðum. 

   Selasetrið stendur einnig fyrir Selatalningunni miklu, en hún fór fram í fyrsta skipti þann 25. ágúst 2007. Talningin fór fram með hjálp ríflega 30 sjálfboðaliða á öllum aldri, sem gengu samtals um 70 km af strandlengju og töldu seli við Vatnsnes. Selatalningin mikla í ár mun fara fram þann 20. júlí næstkomandi og eru allir velkomnir að taka þátt. 

   Á Selasetrinu er hægt að fá upplýsingar um selaskoðunarstaði á Vatnsnesi, en þar er að finna ein aðgengilegustu sellátur á Íslandi. Þar gefst fólki kostur á að skoða landseli í sínu nátturulega umhverfi en á Vatnsnesi hefur verið töluverð uppbygging á aðstöðu til selaskoðunnar á síðustu árum. Helstu skoðunarstaðir við Vatnsnesið eru nú Svalbarð og Illugastaðir við vestanvert nesið og Ósar við nesið austanvert. Fólk fer sjálft á þessa staði en á Illugastöðum er möguleiki á leiðsögn um svæðið, þar er einnig lítið sveitakaffihús auk salernisaðstöðu og tjaldstæðis. Athygli er vakin á því að selaskoðunarstaðnum í Hindisvík hefur nú verið lokað fyrir umferð ferðamanna. Allar nánari upplýsingar um selaskoðunarstaði á Vatnsnesi fást hjá Selasetri Íslands á Hvammstanga. 

   Við selaskoðun er vert að hafa í huga að selir liggja helst uppi um háfjöru en eru við veiðar á flóði. Einnig er ólíklegt að margir selir liggi uppi í miklum vindi og rigningu. Selasetrið veitir allar upplýsingar um selaskoðunarskilyrði og umgengnisreglur á selaskoðunarstöðum við Vatnsnesið.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga