Greinasafni: Hótel og gisting
Blómleg ferðaþjónusta í Dæli
Að Dæli í Víðidal er rekin blómleg ferðaþjónusta en Dæli er staðsett miðja vegu milli Akureyrar og Reykjavíkur við veg 715, aðeins sex kílómetra frá þjóðvegi 1. Næstu þéttbýliskjarnar eru Hvammstangi, um 24 kílómetra í vesturátt, og Blönduós um 41 kílómetra í austurátt.
  
Gistimöguleikar í Dæli eru fjölbreyttir. Hægt er að leigja smáhýsi, sumarbústað, fá gistingu í Gamla bænum eða rúmgóðum herbergjum með sér baði. Þá er mjög skjólgott og fallegt tjaldstæði á staðnum. Í litla baðhúsinu í Dæli er heitur pottur og gufa sem gestir geta nýtt sér gegn vægu gjaldi.

 Sigrún Björk Valdimarsdóttir rekur ferðaþjónustuna í Dæli ásamt eiginmanni sínum, Víglundi Gunnþórssyni. Sigrún segir það mjög vinsælt að halda ættarmót í Dæli. Hún segir ættarmót vera þarna nánast hverja helgi.

Búið er að merkja eina gönguleið í nágrenni Dælis. Sú gönguleið er upp að fossi er nefnist Steinbogi og er undir rótum Víðidalsfjalls. Þetta er lítill og formfagur foss með náttúrulegri steinbrú yfir. Sigrún segir einnig gaman að ganga uppá fjallið og njóta dýralífs og fagurs útsýnis. Fyrir þá sem frekar vilja ganga á vegum er tilvalið að skoða Kolugljúfur sem staðsett eru um 5 kílómetra frá Dæli. Kerafossar í Fitjaá er einnig vinsæll áningastaður. 

Þeir sem áhuga hafa á veiðum geta keypt veiðileyfi eða veiðikort í vötnum og ám í nágrenni Dælis.  

Í Dæli er einnig þjónusta við hestafólk. Boðið er upp á beitarhólf og húsráðendur sjá um útleigu gangnamannaskálanna á Víðidalstunguheiði og sölu á heyi . Sigrún segir að nýlega hafi verið opnað kaffihús á staðnum sem hefur hlotið nafnið Kaffi Sveitó. Þar er hægt að fá margar tegundir af kaffi og meðlæti. Þá er matseðill þar sem boðið er uppá lambasteik, kjúklingabringur, ýsu og lax. Grænmetisætur geta einnig fundið eitthvað við sitt hæfi á Kaffi Sveitó. 

   Fyrir þá sem gista í smáhýsunum og tjaldstæðinu er aðgangur að Aðstöðuhúsi en í því eru salerni , sturtur ,eldunaraðstaða og borðsalur fyrir allt að 60 manns. 

   Til að gefa hugmyndir um verð má nefna að í Gamla bænum eru 4 tveggja manna herbergi með handlaugum og sameiginlegu baðherbergi á neðri hæðinni, en á efri hæð er eldhús og setustofa og kostar sólarhringurinn í því húsi 4.070 kr. á mann með morgunverði. Einnig er boðið upp á 6 herbergi með baði, þar af 2 fjölskylduherbergi með svefnlofti , þar kostar sólarhringurinn 6.050 kr. á mann með morgunverði miðað við minnst 2 í herbergi. Hvert smáhýsi kostar 6 þúsund fyrir sólarhringinn en svefnpokapláss kostar 2.200 kr. á mann.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga