Greinasafni: Sveitarfélög
Bætt lífsgæði og samfélagsþróun áhersluatriði Húnavatnshrepps

Húnavatnshreppur varð til við sameiningu fimm sveitahreppa í Austur Húnavatnssýslu þ.e. Bólstaðarhlíðar-, Sveinsstaða, Svínavatns-, Torfalækjar-, og Áshrepps og tók hið nýja sameinaða sveitarfélag til starfa árið 2006. Hreppurinn er mjög dreifbýlt sveitarfélag og nær yfir 3.800 km2 landsvæði. Stjórnsýsla sveitarfélagsins er með aðsetur á Húnavöllum.  
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps leggur ríka áherslu á bætt lífsgæði og frekari þróun samfélagsins með íbúuunum en samstarf með þeim mun skila öllum betri þjónustu, aukinni velferð og bættu umhverfi.

Allir með aðgang að Interneti
 
   Meðal þess sem áhersla hefur verið lögð á er að sveitarfélagið standi jafnfætis öðrum íbúum landsins hvað fjarskiptaþjónustu varðar og því hafa allir íbúar hreppsins aðgang að þráðlausu Internetsambandi. Einnig spilar heimasíða Húnavatnshrepps, www.hunavatnshreppur.is, stórt hlutverk í rafrænni þjónustu sveitarfélagsins sem góður upplýsingavettvangur varðandi stjórnsýslu, fréttir úr hreppnum og fleira. 

   Vinna við aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og Staðardagskrá 21, sem er velferðaráætlun fyrir sveitarfélagið, er í fullum gangi en markmiðið er að skipuleggja framtíðaruppbyggingu í samstarfi við íbúa og landeigendur. 

   Þannig er t.d. í undirbúningi verkefni vegna fornleifaskráningar svæðisins en mjög margar minjar eru til sem eftir á að skrá. 

   Eitt af helstu verkefnum hreppsnefndarinnar er uppbygging við Húnavallaskóla en þar er rekinn grunnskóli á veturna og hótel- og ferðaþjónusta á sumrin. Við Húnavallaskóla hefur verið gerður upphitaður sparkvöllur og nú er unnið að byggingu leikskóla á svæðinu. Auk þess hafa verið skipulagðar íbúðahúsalóðir við Steinholt. Þegar rekstur leikskólans hefst mun staðurinn vera úrvals búsetumöguleiki fyrir barnafólk, sannkallað fjölskylduvænt samfélag. 

   Atvinnuþróun er ofarlega á dagskrá hjá hreppsnefndinni og leitað er leiða til að auka fjölbreytni í atvinnumálum, í því skyni hefur atvinnumálanefnd sveitarfélagsins ásamt sveitarstjóra verið falið að kanna möguleika á nýtingu á orku Blönduvirkjunnar í héraðinu.
 


Ferðaþjónusta og afþreying

    Húnavatnshreppur hefur upp á ýmislegt skemmtilegt að bjóða fyrir bæði heimamenn og ferðamenn. Sögustaðir eru fjölmargir og unnið er að uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu. Á Þingeyrum hefur verið byggt þjónustuhús sem fengið hefur nafnið Klausturstofa og er hún bylting í þjónustu við þá þúsundir ferðamanna sem árlega skoða Þingeyrarkirju. 

   Þá er hreppurinn meirihlutaaðili að Hveravallafélaginu en félagið hefur það að markmiði að bæta aðgengi ferðafólks á Hveravöllum. Einnig rekur sveitarfélagið nokkra hálendisskála á svæðinu. Ferðaþjónusta er rekin í Húnaveri og í Dalsmynni í samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Hesta- og gönguferðir eru í boði á vegum ferðaþjónustuaðila og nokkrar að bestu laxveiðiám landsins liggja um Húnavatnshrepp. Einnig eru mörg gjöful veiðivötn í hreppnum. 

   Síðastliðið sumar var haldin íbúahátíð í Húnavatnshreppi þar sem íbúar komu saman og skemmtu sér. Sami háttur verður hafður á í ár og mun sveitarfélagið bjóða til grillveislu og skemmtidagskrár síðsumars.  


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga