Greinasafni: Sveitarfélög
Blönduós draumastaður útivistarmannsins

Á Blönduósi er stutt í allt; hálendið, golfið, skíðin, veiðina, skotvöllinn – og heim í mat

Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri.
Á Blönduósi búa um 900 manns – og er að fjölga. Að sögn bæjarstjórans, Arnars Þórs Sævarssonar, hefur íbúaþróunin verið frekar neikvæð þangað til á allra síðustu árum að hún hefur verið að vaxa. Þegar hann er spurður hver ástæðan sé, segir hann: „Mikið af því fólki sem er að koma hingað er fætt og uppalið hér, ungt fólk sem hefur kosið að yfirgefa borgina og það líf sem hún hefur upp á að bjóða, koma heldur í sveitasæluna og hafa það gott. 

   Hér er mjög gott að búa, fasteignaverð er allt annað en fyrir sunnan og öll þjónusta fyrir hendi, þannig að fyrir fjölskyldufólk að koma á Blönduós, er toppurinn – og bara almennt að vera úti á landi með fjölskylduna. Ég held að margt ungt fólk hugsi sig tvisvar um í dag varðandi búsetu. Fasteignaverð er ódýrara úti á landi, öll þjónusta er fyrir hendi og hér er kyrrð og ró. Þessi póll, andstætt ástandinu sem menn tala um fyrir sunnan, hinu mikla stressi og hraða og naumum tíma fyrir fjölsylduna – og þú þarft ekki að hugsa þig lengi um. Hér er menningin sú að þú ferð heim í hádeginu. Fjölskyldan hittist heima og borðar saman hádegisverð.“

Kjöraðstæður til að ala upp börn 
   Atvinnuástandið er mjög gott á Blönduósi og segir Arnar allt aðrar aðstæður til að ala upp börn þar en á höfuðborgarsvæðinu – og hann veit um hvað hann er að tala, því áður en hann fluttist á Blönduós, bjó hann í Reykjavik þar sem hann starfaði síðast sem aðstoðarmaður samgönguráðherra. Sveitina þekkir hann þó af eigin raun því hann er að miklu leyti alinn upp á Mýrum í Skriðdal. „Það hefur alltaf verið draumurinn hjá okkur hjónunum að búa úti á landi. Við erum mikil náttúrubörn og kunnum mjög vel við þann anda sem ríkir í sveitunum.Hér eru kjöraðstæður til að ala upp börn. Það er stutt í allt, stutt í skólann, stutt í matvöruverlunina, stutt á spítalann, stutt í allar áttir. Blönduós er frábærlega vel staðsett bæjarfélag. Það er einn og hálfur tími til Akureyrar, tveir og hálfur til Reykjavíkur. Það besta er þó að Blönduós stendur afar vel þegar kemur að útivist. Hér eru fimm eða sex frábærar laxveiðiár. Hér er engu líkt að stunda útivist, það er stutt á fjöllin, í gönguferðir, jeppaferðir, snjósleaðferðir. Hér er mikil stangveiði og skotveiði. Hér er flugvöllur og það kom mér á óvart hvað einkaflugsport er mikið stundað hér. Og þetta er allt innan seilingar. Hér er líka skotvöllur. Ég var meðlimur í skotveiðifélagi Suðurlands áður og það tók mig hálftíma að keyra þangað. Hér er ég í fimm mínútur á skotvöllinn. Ég er líka mikill jeppaáhugamaður og ferðast mikið. Það tekur mig hálftíma að komast upp á hálendið.“ Eitt af bestu tjaldstæðunum Á Blönduósi er bæði hótel og gistiheimili og mjög flott og tjaldstæði. Arnar segir það þykja með þeim betri á landinu og það sé alltaf mikið að gera þar.
   
„Fyrir ferðamanninn er hér Hafíssetur Íslands og við erum hér á ísbjarnarslóðum. Það á því vel við að hafíssetrið sé hér á Blönduósi. Það er skemnmtilegt að skoða þetta safn, sem er upplýsingaafn, hvernig ísinn hefur verið að þróast undanfarnar aldir – og hvað tekur við ef bráðnunin heldur áfram. Þá eru menn að velt fyrir sér siglingaleiðinni til Kína. 

   Síðan er heimilisiðnaðarsafnið, einstakt safn, óskaplega fallegt og vel við haldið. Þar eru sýningar á hverju ári og þarna er alveg tilvalið fyrir fólk sem hefur áhuga á listfengum hannyrðum og textíl að skoða sögu hannyrða á Íslandi. Það sem er gott við þetta safn er að það er alltaf verið að breyta til þar, þannig að það er hægt að skoða það aftur og aftur án þess að vera alltaf að sjá sömu hlutina.“
 
Margt að sjá í sveitunum
   Það er margt að sjá og skoða í sýslunni og vel þessi virði að koma sér fyrir á gististöðum á Blönduósi og ferðast þaðan um sveitina. „Á Þingeyrum er klausturstofa og ákaflega falleg kirkja. Inn af Þingeyrunum er svo Vatnsdalurinn. Hér fyrir norðan okkur er hægt að keyra fyrir Skaga og þar er gnótt af vötnum sem eru full af fiski. Skagaheiðin hefur verið kölluð „þúsund vatna heiðin,“ og hefur verið svo til ónýtt auðlynd en það stendur tilbóta. Einnig eru ótal vötn hér uppi á öðrum heiðum. 

   Á Skagaströnd er komin listamiðstöð og þar geta listamenn dvalið í skamman tíma í senn og stundað sína listgrein. Þar er auðvitað kántrýbær og fallegur golfvöllur. Það er því líka stutt í golfið fyrir okkur. Það ber allt að sama brunni, það er svo stutt í allt. Á veturna er ég í rúmar tuttugu mínútur á skíði í Tindastóli, þannig að veturnir eru alveg jafn skemmtilegir og sumrin. Þá eru jeppaferðir, skíðaferðir og hér er mikil snjósleðahefð.“ 

   Þegar Arnar er spurður um veðurfarið á Blönduósi, segir hann: „Veðurfarið hér er gott. Ég get ekki kvartað yfir því. Það er tiltölulega snjólétt hérna – og kvöldsólin hér á Húnaflóanum er ein sú fallegasta á landinu. Það er ólýsanlegt að horfa á sólina setjast á bak við Strandafjöllin sem eru hérna hinum megin við flóann.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga