Greinasafni: Sveitarfélög
Fjallabyggð er nyrst á Tröllaskaganum
Litríkt fuglalíf og spennandi gönguleiðirSveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar árið 2006. Fjallabyggð er nyrst á Tröllaskaga og nær frá Almenningsnöfundan Mánarfjalli í vestri, að Æðarskeri undan Ólafsfjarðarhyrnu í austri og að Kerlingahnjúk í suðri. Íbúar Fjallabyggðar eru um tvö þúsund og tvö hundruð.
  
Í sveitarfélaginu eru tveir þéttbýliskjarnar, Ólafsfjörður og Siglufjörður. Báðir bæirnir byggja afkomu sína að mestu á sjávarútvegi og vinnslu fiskafurða, auk ýmis konar þjónustu við þessar greinar iðnaðar, svo sem vélsmíð og netagerð. Í seinni tíð hefur fjölbreytnin í atvinnulífinu aukist og mikill vaxtarbroddur er í ferðaiðnaði og ýmis konar fjarvinnslu fyrir fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Í Fjallabyggð eru auk þess smíðaðir bátar, slökkvi- og sjúkrabílar og fiskvinnsluvélar fyrir frystitogara svo eitthvað sé talið.   

Eitt af því sem einkennir Fjallabyggð er mikið fuglalíf allt árið um kring. Um tvö þúsund fuglar af sextán til átján tegundum eru taldir að jafnaði í Siglufirði í jólatalningu Náttúrufræðistofnunar. Enn fleiri tegundir teljast til varpfugla svæðisins og fer þeim sífjölgandi sem reyna varp hvort sem þær festa sig í sessi sem fastir varpfuglar eða ekki.

   
Fjallabyggð býður upp á margvíslega afþreyingu fyrir unga sem aldna og allir ættu að finna þar eitthvað við sitt hæfi. Óvíða finnur ferðalangurinn jafn fjölbreytta og skemmtilega möguleika til þess að láta sér líða vel. Í sveitarfélaginu er boðið upp á bátsferðir, hvalaskoðun og sjóstangaveiði, þá eru þar ágætis golfvellir og íþróttaaðstaða. Á Ólafsfirði er Náttúrugripasafn og á Siglufirði Síldarminjasafn Íslands og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar. Góðar sundlaugar eru í Fjallabyggð og ekki þarf að tíunda hversu góð aðstaða er til iðkunar vetraríþrótta hvers konar. Þá er víða hægt að veiða í ám og vötnum.   
Margar góðar gönguleiðir eru í Fjallabyggð og flestir ættu að geta fundið leiðir við hæfi. Sumar leiðanna eru troðningar eins og forfeður okkar gengu í 1000 ár, en einnig eru nýrri leiðir sem eru þægilegar göngu og forvitnilegar. 

   Átak hefur verið gert í merkingum gönguleiða á Tröllaskaga. Einnig má benda á gönguleiðakort sem Hólaskóli hefur útbúið og selt er víða á svæðinu. 

   Auk tjaldstæða er gisting á Brimnes-Hóteli í Ólafsfirði, Ferðaþjónustu Siglufjarðar, Gistihúsinu Hvanneyri og á Túngötu 8 á Siglufirði – og veitingar eru víða að finna bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga