Greinasafni: Sveitarfélög
Gott atvinnuástand og mikil samheldni íbúanna

Í Dalvíkurbyggð er tekið á móti ferðamönnum allt árið – og unnið er hörðum höndum að stærstu hátíðinni, Fiskideginum mikla, sem haldin verður í ágústÍ Dalvíkurbyggð búa um tvö þúsund manns, flestir í þéttbýli en á Dalvík eru um fimmtán hundruð manns. Helstu atvinnuvegir í byggðinni eru fiskvinnsla, iðnaður og þjónusta.
 

   
Freyr Antonsson
upplýsingafulltrúi
.

„Kostirnir við búsetu hér eru rólegt og fallegt umherfi, nálægð við Akureyri og fjölbreyttir búsetukostir“ segir Freyr Antonsson upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar. „Það er bæði hægt að búa á Dalvík, eða litlu þéttbýliskjörnunum á Árskógssandi og Hauganesi. Einnig er hægt að búa í Svarfaðardal þar sem er að myndast þéttbýliskjarni í Laugahlíð. Húsabakki er þar beint á móti og á síðustu misserum hefur nokkuð af fólk sóst eftir að byggja þar. Ástæðan er sú að þar eru stærri lóðir. Um þessar mundir erum við að vinna að aðalskipulagi fyrir Dalvíkurbyggð og þá verða enn fleiri búsetukostir í boði; mismunandi lóðir, stórar og litlar, einnig sjávarlóðir – það eru ýmsar hugmyndir í gangi.“ 

Sterk fiskvinnslufyrirtæki
 
   Freyr segir fólk sem hefur búsetu á þessum stöðum ýmist starfa á Dalvík eða Akureyri – þangað sé örstutt að keyra. Þjónusta sveitarfélagsins er góð. Það eru þrír leikskólar í Dalvíkurbyggð, einn sjálfstætt starfandi, og það er tekið við börnum frá níu mánaða aldri. Grunnskóli Dalvíkurbyggðar eru með tvær starfsstöðvar, í Dalvík og Árskógi. Dvalarheimili aldraðra er Dalbær, sem er sjálfseignarstofnun og síðan á Félag eldri borgara húsnæði og heldur uppi öflugu félagsstarfi. „Atvinnuástand er nokkuð gott,“ segir Freyr. „Hér eru sterk fiskvinnslufyrirtæki. Styrkur þeirra er gríðarleg þekking, auk þess sem að á milli þeirra er gott samstarf. Það var hér fiskvinnslu skóli og þótt langt sé síðan hann var lagður niður, þá hefur þekkingunni verið haldið við og nemendur sem útskrifuðust frá honum eru að vinna fyrir fiskvinnslufyrirtækin. 

    Námsvefur var settur af stað hér árið 2005 og þar hefur verið unnið að endurmenntun í fiskvinnslu, bæði í fjarnámi og með námskeiðum sem haldin hafa verið. Námið er sett saman af heimamönnum, þannig að við höldum áfram að viðhalda þekkingunni.“ 

Nægir afþreyingarmöguleikar
   Hvað ferðamanninn varðar, segir Freyri fjölbreytta gistimöguleika í sveitarfélaginu. „Á Dalvík er Fosshótel og svo er hægt að leigja sumarbústaði á tveimur stöðum, í Ytri- Vík og Syðri-Haga á Árskógsströnd. Heimagisting er á þremur stöðum, á Klængshóli og Dæli á Skíðadal og Gistihúsinu Skeið í Svarfaðardal. Tjaldsvæði er á Dalvík og Húsabakka og við Árskóg. Húsabakki og Árskógur hafa verið notuð mikið fyrir ættarmót. Þar eru félagsheimili á staðnum og aðstæður allar mjög góðar fyrir húsbíla og fellihýsi.

   “ Það er ekki eins mikil fjölbreytni í veitingageiranum. Á Dalvík er veitinga- og kaffihúsið Bárubúð en Freyr segir ekki hafa tekist sem skyldi að byggja upp þennan þátt þjónustunnar í sveitarfélaginu. „Ég hugsa að fólk fari meira inn á Akureyri til að borða þar og það sé ástæðan,“ segir hann. 

   Hins vegar eru nægir afþreyingarmöguleikar í Dalvíkurbyggð. „Hér eru tvö fyrirtæki sem bjóða upp á hvalaskoðun og sjóstöng, Það eru Sjóferðir Snorra á Dalvík og Níels á Hauganesi. Hestaleigan Tvistur í Þingsholti, er stærsta hesthús landsins. Þar er hestaleiga en hestaferðir njóta sífellt meiri vinsælda hér. Á Krossum á Árskógsströnd er dýragarður þar sem eru húsdýr, auk dýra sem finnast í náttúru landsins, eins og refir og fuglar. Þar er líka skemmtigarður fyrir börn og á sama stað er rekinn „lazer-tag“ og „paintball“ salur.

Ekki síðra vetrarland
   
Dalvíkurbyggð er mjög skemmtilegt vélsleðasvæði á veturna. Skíðasvæðið er háð veðri en við erum með snjóbyssur þannig að opnun hefur verið mjög góð á seinustu árum. Skíðasvæðið okkar er mjög vinsælt og mikið um að fólk komi hingað. Akureyri er með stórt og gott skíðaland, sem og Dalvík og Ólafsfjörður þannig að Eyjafjarðarsvæðið sem slíkt er gríðarlega sterkt skíðasvæði. Við erum því vel sett með það að geta tekið á móti ferðamönnum allan ársins hring.“ 

   Byggðasafnið Hvoll er á Dalvík. Þar eru ýmsir gripir úr byggðalaginu, auk þess sem tvær stofur eru helgaðar einstaklingum, Kristjáni Eldjárn fyrrum forseta og Jóhanni Svarfdæling sem var um tíma stærsti maður í heimi. Þar er líka náttúrusafn, fuglar og stór ísbjörn. Dalvíkurskjálftanum 1934 er gerð góð skil í máli og myndum á safninu. Frammi á Húsabakka er svo listasmiðja, þar sem fólk kemur saman og er að stunda sitt handverk, hvort sem er að prjóna, skera í tré eða vinna bókband.“ 

Spennandi fyrirtæki
   „Fyrir utan stóru fyrirtækin sem eru í fiskvinnslu í Dalvíkurbyggð, er Ektafiskur á Hauganesi, fiskvinnslufyrirtæki sem hefur verið hasla sér völl með „Ekta réttum,“ tilbúnum fiskréttum sem njóta stöðugt meiri vinsælda. Þeir eru bæði með matreidda réttir sem og ómatreidda. Á Árskógssandi er Bruggsmiðjan Kaldi. Þar er tekið á móti hópum í skoðunarferðir með leiðsögn. Hér er mjög öflugt byggingarfyrirtæki, Tréverk, sem hefur verið að byggja hér á Dalvík og eins inni á Akureyri, byggir meðal annars fyrir háskólann þar. Sæplast, sem heitir núna Promens, og framleiðir ýmislegt úr plasti, til dæmis fiskiker og rotþrær, er mjög öflugt fyrirtæki og stórt, með höfuðstöðvar í Reykjavík. Stærsta framleiðsla fyrirtækisins á Íslandi er þó hér á Dalvík.“ 

   Freyr segir mannlíf gott í Dalvíkurbyggð. „Hér eru starfandi mjög öflug félög, til dæmis sjö kórar í sveitarfélaginu, bæði karla- kvenna- samkór og kirkjukórar. Tónlistarskóli er á Dalvík og tónlistarlíf er mjög mikið og fjölbreytt. Leikfélagið hefur haldið tvær sýningar á ári seinustu árin og er í miklu samstarfi við grunnskólann, elstu nemendur hans hafa tekið þátt í að setja upp aðra sýninguna á hverju ári – og það hefur tekist mjög vel. Núna er í smíðum menningarhús sem Sparisjóður Svarfdæla gaf Dalvíkurbyggð. Það á að vera klárt vorið 2009. Þar verður hægt að vera með leiksýnignar, tónleika og þangað inn fer Bókasafn Dalvíkur, ásamt héraðsskjalasafni Svarfdæla.“ 

Ferjur og Fiskidagar
   Tvær ferjur ganga frá Dalvíkurbyggð, Sævar sem er Hríseyjarferjan fer frá Árskógsstandi til Hríseyjar og Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar. „Þessar ferðir njóta mjög mikilla vinsælda á sumrin,“ segir Freyr. „Sævar ferjar fólk stanslaust út í Hrísey, frá klukkan níu á morgnana til tólf á kvöldin. Það er því hægt að skreppa út í eyjuna hvenær sem er og það er alltaf jafn gaman – enda er hún kölluð Perla Eyjafjarðar.

   “ Í Dalvíkurbyggð er mikið um merktar gönguleiðir, ýmist stikaðar eða með gps punktum. „Nú stendur yfir gönguvika Dalvíkur, þar sem við bjóðum upp á fría leiðsögn. Hún endar á laugardaginn. Leiðsögumaður er Kristján Eldjárn Hjartarson og síðan er hægt að fá kort yfir gönguleiðir í Sundlaug Dalvíkur – sem er stórkostleg sundlaug með þremur pottum. Einnig er hægt að fá Sundskála Svarfdæla leigðan, en hann er ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins, tekinn í notkun 1929. 

   Síðast, en ekki síst, er það svo okkar stærsta sumarhátíð, Okkar stærsta sumarhátíð, Fiskidagurinn mikli, sem verður haldinn 9. ágúst. Þetta er alveg gríðarleg hátíð og bærinn er þéttskipaður. Sjálfur dagurinn er á laugardeginum, en ýmsir viðburðir byrja á miðvikudeginum. Á föstudagskvöld er Súpukvöldið mikla, þar sem íbúar Dalvíkur taka á móti fólki með súpu. Þetta framtak sýnir samhug íbúanna. Það eru mjög margir sem koma að skipulagningu, grilla fisk ofan í liðið og elda súpu. Það hafa verið um þrjátíu þúsund manns sem heimsækja Dalvík á þessum degi – sem snýst allur um að borða. Það verða allir ánægðir ef þeir fá að borða. Það er allt unnið í sjálfboðavinnu og maturinn frír. Það er í rauninni stórmerkilegt að þetta skuli takast ár eftir ár.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga