Verndun og vísindi í Lystigarðinum
Lystigarðurinn á Akureyri er rómaður fyrir fegurð og mikinn fjölda tegunda. Hann er á suðurbrekkunni sunnan Menntaskólans og er hann rekinn af Akureyrarbæ sem grasagarður og skrúðgarður. Almenningsgarðurinn var opnaður formlega árið 1912 en grasagarðurinn 1957. Garðurinn heur verið stækkaður þrisvar frá upphafi og er nú um 3.7 hektarar.   
Hlutverk garðsins er margþætt. Fyrst og fremst er þó lögð áhersla á að finna með innflutningi og prófunum fallegar, harðgerar, erlendar plöntur sem eftirsóknarvert væri að rækta hérlendis, auk þess að vera almenningsgarður sem nýtist fólki til fróðleiks og skemmtunar. Garðurinn er opinn frá 1. júní til 30. september, á virkum dögum frá 08-22 og um helgar frá 09-22. 

  Lystigarðsfélagið var stofnað árið 1909 og stuðlaði það félag, meðal annars, að sköpun og ræktun Lystigarðsins sem var opnaður formlega árið 1912. Fyrstu áratugina var hann eingöngu rekinn sem skrúðgaður, en eftir 1957 þegar bærinn hafði keypt plöntusafn Fífilgerðisbræðranna, Jóns og Kristjáns Rögnvaldssonar, hefur starfsemi hans sem grasagarður aukist smám saman. 

   Það segir sig sjálft að mikil og merkileg saga liggur á bak við garðinn, sem hefur tekið miklum breytingum á þeim ríflega 95 árum sem hann hefur verið í rækt. Mikilvægi hans hefur þó sennilega aldrei verið meira en nú. Tæplega sjö þúsund erlendar tegundir eru í garðinum og meginþorri íslensku flórunnar. Þess má geta að Lystigarðurinn hafði frumkvæði að því, árið 2003, að safna öllum sjaldgæfum og friðuðum íslenskum tegundum sem ekki voru í rætun þá þegar, í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Grasagarð Reykjavíkur.
 
Í Lystigarðinum eru ræktaðar ýmsar sjaldgæfar, friðaðar íslenskar plöntur og er mikil áhersla lögð á viðhald þessara stofna með fjölgun einstaklinganna. Með því að hafa þessar plöntur eða fræ þeirra á boðstólum fyrir áhugamenn i ræktun íslenskra plantna, stuðlar garðurinn að því að vernda þessar plöntur í náttúrunni. 

  Tilvera grasasafnsins í Lystigarðinum skapar líka aðstöðu til ýmissa sjálfstæðra rannsókna í grasafræði hér heima, einkum á sviði erfða og takmörkun tegunda. Þeir möguleikar hafa lítið verið nýttir hingað til. 

   Garðurinn er vel kynntur erlendis og mun betur en flestir gera sér grein fyrir. Blaðamenn sem sérhæfa sig í skrifum um sérstæða og fallega garða, hafa komið árlega til Akureyrar seinustu árin., margir oftar en einu sinni. 

   Lystigarðurinn hefur ávallt verið vel sóttur en gestum hans fjölgar ár frá ári. Um hundrað þúsund mans koma í garðinn á hverju sumri – og stöðugt fleiri koma að vetri, vori og hausti.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga