Af mannlífi og fuglum í Hrísey


Hrísey hefur oft verið kölluð Perla Eyjafjarðar. Þar búa um tvö hundruð manns í fögru umhverfi og taka á móti gestum og gangandi. Og þeir eru ófáir sem bregða sér út í Hrísey á sumrin. Linda María Ásgeirsdóttir er búsett í Hrísey og þegar hún er spurð hvað ferðamaðurinn geri sér helst til skemmtunar í eyjunni, segir hún: „Hér eru þrjár sérmerktar gönguleiðir sem hægt er að ganga um, þær eru frá tveimur og hálfum upp í fimm kílómetra langar. Þær eru merktar og með upplýsingaskiltum þar sem finna má ýmsan fróðleik.
 

   Á einni gönguleiðinni er orkulind þar sem menn vilja meina að mætist orkan úr Kaldbak á Grenivíkurströndinni. Það er talað um Pýramídarnir kasti frá sér orku sem endurkastast á Snæfelljökli og þaðan á Kaldbak og varpast þaðan til okkar. Fólk er alltaf að koma til okkar sem talar um að það hlaði rafhlöðurnar hér. Við viljum meina að hér sé mikil orka og allir hafi gott af því að koma hingað.“ 

   Á þessu eyjarkríli er veitingastaðurinn Brekka. Þar er hægt að fá bláskel sem er ræktuð í Hrísey. „Þetta er fínasta veitingahús og maturinn góður,“ segir Linda, „einkum fiskréttirnir. Síðan er hægt að fara í vagnferð á gamalli dráttarvél. Þá er farinn hringur um eyjuna með leiðsögn. Hér er líka hægt að fara í sund. Það var verið að vígja hjá okkur nýtt fjölnotahús. Sundlaugin var gerð upp og er orðin hálfgerð paradís. 

   Svo er hægt að fara í sjóferðir. Þú getur farið út að kræklingalínunni, sótt þar krækling og fengið hann eldaðan fyrir þig. 

   Það er Kanadamaður orðinn stór hluthafi í kræklingaverksmiðjunni hjá okkur. Hann hefur rætkað krækling í Kanada í tuttugu ár og hefur mikla trú á kræklingnum frá Hrísey. Hann vill halda því fram að við séum með einhverjar bestu aðstæður sem hugsast getur til að rækta kræklinginn, vegna þess að sjórinn hjá okur er svo tær og ómengaður.“ 
Í Hrísey eru tvö söfn, Byggðasafn sem er hús sem gömul hríseysk kona arfleiddi bæinn að þegar hún lést. Síðan er verið að byggja upp elsta húsið í eyjunni þar sem á að vera hákarlasafn– en það var mikil hákarlaútgerð frá Hrísey fyrr á öldum. Linda segir að núna sé erið að klára lóðina og þar sé nú þegar kominn vísir að hákarlasýningu. 

  „Síðast, en ekki síst, er það svo fuglalífið hjá okkur,“ segir hún. „Það eru yfir fjörutíu tegundir af fuglum sem verpa hjá okkur og það er ótrúlega gaman að ganga um eyjuna, hlusta á fuglana og fylgjast með þeim.“
  

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga