Kvöldsiglingar á Eyjafirði
Árið 2004 eignaðist Iðnaðarsafnið á Akureyri Húna II sem er 132 tonna eikarbátur sem var smíðaður á Akureyri 1963 og er stærsti eikarbáturinn sem er til í dag, smíðaður hérlendis.
Enginn annar yfir hundrað tonnum er til. „Báturinn hefur þá sérstöðu að hann er óbreyttur frá upphafi og í mjög góðu ásigkomulagi. Bátnum breytti Þorvaldur Skaftason, sem bjargaði bátnum á sínum tíma, til nota fyrir ferðaþjónustu. Lest bátsins hefur verið breytt í veitingasal fyrir fimmtíu manns og í skuti er setustofa fyrir þrjátíu. Hann er með haffæri og leyfi til að flytja allt að hundrað farþega,“ segir Þorsteinn Pétursson forsvarsmaður Hollvinasamtaka Húna II. „Hollvinasamtök Húna II voru stofnuð til að vinna að framgangi og rekstri bátsins, skapa honum verkefni og festa hann í sessi á Eyjafirði. Hollvinir hafa unnið þetta starf í sjálfboðavinnu. Við höfum tekið að okkur að sigla með hópa og ferðafólk um innanverðan Eyjafjörð, en í sumar byrjuðum við með þá nýjung að bjóða upp á þrjár fastar ferðir í viku. Þar má fyrst nefna, að halda uppi ferðum á miðvikudögum til Grenivíkur í samvinnu við SBA, Laufás og Grýtubakkahrepp. Fyrirkomulagið er að Húni fer frá Akureyri klukkan 17.15 og siglir til Grenivíkur. Rúta fer frá Akureyri klukkan 18.30, með viðkomu í Laufási, og síðan er ekið til Grenivíkur. Þar er tekið á móti ferðafólki af heimamönnum. Húni siglir síðan aftur til Akureyrar klukkan 20.15 og rútan ekur til Akureyrar. Hægt er að fara hvorn hringinn sem er, byrja með bátnum á Akureyri eða Grenivík. Þá álítum við einnig að þetta sé tilvalið fyrir þá sem vilja hjóla aðra leiðina og sigla hina. Á föstudagskvöldum klukkan 20.00 bjóðum við upp á söguskoðun frá sjó, þar sem saga Akureyrar og strandlengjunnar, frá Hoefner, allt norður fyrir Krossanes er rakin. Síðan er siglt yfir fjörðinn og inn með Svalbarðsströndinni. Leiðsögn er í þessum ferðum. Á sunnudagskvöldum er farið í rólega siglingu til að njóta þess að vera um borð. Við drögum upp krabbagildru og rennum fyrir fisk ef veður leyfir. Að auki er hægt að fá bátinn leigðan í ferðir. Þetta stendur til boða til 17. ágúst. Það skemmtilega er að við höfum tengst skólastarfi á Akureyri og á haustin eru fræðsluferðir sem nefnast „Frá öngli í maga,“ þar sem farið er með nemendur á sjóinn og þeir fá að fiska, skoða fisinn, flaka, grilla og borða. Þetta er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Síðan fá þau fræðslubækling með sér heim um hollustu fisksins og eldunaraðferðir.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga