Sérhæfum okkur í innanhússfrágangi

Sökkull ehf býður upp á þjónustu við fyrirtæki og stofnanir, ásamt því að smíða fyrir einstaklinga innréttingar hannaðar af arkitektum
Sökkull ehf er bygginga- og innflutningsfyrirtæki sem sinnir almennri byggingaþjónustu og rekur fullkomið smíðaverstæði. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í innanhússfrágangi á húsum, mest í stofnunum og fyrirtækjum. Það var stofnað í i ársbyrjun 1975 af bræðrunum Gylfa og Haraldi Lárussonum sem eru eigendur þess í dag. Talsmenn fyrirtækisins, þeir Haraldur Lárusson og Ómar Ómarsson segja fyrirtækið að mestu hafa verið starfandi í sama geira frá upphafi, – en þó með áherslubreytingum í gegnum árin. „Við vorum í almennum byggingum til að byrja með en fórum síðan út í að sérhæfa okkur í þjónustu við fyrirtæki og stofnanir. Við höfum tekið að okkur að vera undirverktakar hjá fyrirtækjum eins og ÍAV, Ístaki og fleiri verktökum, auk þess að vera með sérsmíði fyrir einstaklinga.“

Sökkull er jafnframt í innflutningi sem hentar þessum verkþáttum. Fyrirtækið flytjur inn vandaðar innréttingavörur frá fyrirtækjum í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og Svíþjóð, sem og Ítalíu. Þar má til dæmis nefna Deko kerfisveggi og loft, Feco kerfisveggi, Espero felliveggi, Loggere skilrúm, BLE reyk- og eldtjöld, Variotec hurðir, Planet felliþröskulda og gler frá Glasid AG. „Í innflutningi leggjum við áherslur á almennar lausnir sem snúa að skrifstofuhúsnæði og opinberum byggingum. Núna erum við að hefja innflutning á eldhúsinnréttingum frá Ernestomeda á Ítalíu – og markhópurinn er kröfuharðir neytendur.“ Slíkar innréttingar eru ekkert nýnæmi hjá Sökkli, því fyrirtækið hefur í gegnum árin smíðað fyrir einstaklinga bað- og eldhúsinnréttingar, hurðar og fataskápa sem er teiknað af arkitektum. Ernestomeda er bara viðbót við þessa þjónustu.“

T.v. Gylfi Lárusson og Haraldur Lárusson stofnendur og
eigendur Sökkuls.

Eldhús í toppklassa
„Það er nú þannig með innflutning, að þegar maður er kominn út í hann, er svo auðvelt að bæta við. Fyrirtæki sem við erum í viðskiptum við, hafa bent á okkur sem æskilega umboðsaðila hér á landi. Hvað Ernestomeda varðar, þá hefur þetta verið nokkuð lengi í undirbúningi og núna erum við komnir með hönnuð til að útfæra innréttingarnar frá fyrirtækinu. Við munum síðan kynna þetta fyrir arkitektum um leið og við verðum búnir að koma okkur upp sýningareldhúsum hér, en með þessum innflutningi erum við að keppa við alla þá sem eru í toppklassa í þessari vöru.

Það segir sig sjálft að á rúmum þrjátíu árum liggi handverk Sökkuls víða. Kerfisveggir, glerveggir, loft og afgreiðsluborð frá Sökkli má finna víða um land. Slík verk segja þeir Haraldur og Ómar að séu meira og minna unnin í samvinnu við arkitektastofur – og þá um leið kaupendur. „Við höfum, meðal annars, annast innréttingar í Háskólatorgi í samvinnu við danska fyrirtykið DEKO sem er leiðandi fyrirtæki í þessum geira í Skandinavíu – og reyndar víðar, auk þess sem við sáum um glerveggi, hurðar og hluta af innréttingum í Tæknigarði. Við sáum einnig um töluverðan hluta af innanhússfrágangi í Þjóðarbókhlöðunni. Síðan smíðuðum við alla sýningaskápa og innréttingar í Þjóðminjasafn Íslands. Það var mjög krefjandi og skemmtilegt verkefni. Þetta var óhefðbundið verkefni og við fengjum aðstoð byrgja erlendis til að ráðleggja okkur um lýsingu og hvernig gera átti forvarða skápa.

Fjölbreytt afrekaskrá
Við sáum um innréttingar hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem og Og Vodafon, skrifstofubyggingu Marel og Air Atlanta. Fyrir Bæjarskrifstornar í Kópavogi sáum við um móttökusal og fundasal. Þar smíðuðum við innréttingar og húsgögn, innveggi, hurðar og afgreiðslu – í samvinnu við þýskt fyrirtæki FECO, sama fyrirtækið og vann með okkur í Íslenskri erfðagreiningu og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í flugstöðinni er fjórum áföngum lokið og tveir áfangar eftir. Þá verður að öllum líkindum farið að stækka hana. Menn eru nú þegar farnir að tala um að hún sé orðin of lítil. Nú, við sáum um innréttingar í Morgunblaðshúsið í Kringlunni á sínum tíma, hátíðarsal Frímúrarareglunnar í Reykjavík og Stjörnutorg í Kringlunni – auk fjölda skóla sem myndi æra óstöðugan að fara að telja upp. Eitt skemmtilegasta verkefnið okkar undanfarið var Hreyfing og Bláa Lónið – heilsulind. Þar vorum við með sérsmíðaðar innréttingar, veggi, hurðir og innréttingar. Það gerði verkefnið einkar skemmtilegt að þar var mikið af bogadregnum innréttingum. Og ætli við látum þessi dæmi um vinnu okkar ekki duga. Þeir sem vilja kynna sér frekar verk okkar og vöruframboð geta skoðað vefinn okkar www.sokkull.is

Þegar talið snýst að efnahagsástandinu, segjast þeir Haraldur og Ómar ekki uggandi um sinn hag. „Við höfum lifað tímana tvenna. Við höfum lifað af niðursveiflur, til dæmis 1992 til 1997 og erum tilbúnir til að takast á við næstu árin. Við erum lítið á íbúðamarkaði en þar mun niðursveiflan koma harðast niður. Tónninn er auðvitað neikvæðari núna og margir eru tvístígandi – en á þessum markaði sem við erum, eru fyrirtæki. Þau koma til með að hugsa sér til hreyfings núna, eða fara í breytingar og lagfæringar – vegna þess að það er hagstæðara núna. Yfirleitt þegar hægir á einkageiranum, fer hið opinbera af stað, þannig að hjá okkur er nokkuð gott jafnvægi.“

Lítil yfirbygging
Hjá Sökkli eru 35 manns í föstu starfi, auk þess sem fyritækið ræður oft undirverktaka til að taka að sér sérhæfða þætti. „Yfirbyggingin er samt lítil,“ segja þeir Haraldur og Ómar. „Við erum bara fjórir sem vinnum hér á skrifstofunni – en erum jafnframt úti um allan bæ í samskiptum við kúnnann.

Við erum með flott smíðaverskstæði hér niðri, þar sem starfa fimm til sex smiðir alveg fast, síðan eru aðrir sem vinna út í bæ, við uppsetningu á innréttingum og frágangi innanhúss. Síðan er lagermaður og bílstjórar – og tveir á sendibílum.“ Aðeins tvær konur starfa hjá fyrirtækinu og er önnur þeirra trésmiður. „Hins vegar er engin kona á skrifstofunni,“ segir Haraldu og bætir við kíminn: „Við ættum kannski að gera bót á því... Ætli okkur veiti nokkuð af aganum.“ Eins og fyrr segir hefur Sökkull einbeitt sér að því að vera með allsherjar lausnir fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir og segja þeir Haraldur og Ómar nokkuð farsællega hafa tekist að leysa þau en mörg afar flókin, og þar með skemmtileg, verkefni hafa komið inn á borð hjá þeim. „Við erum með stóran kúnnahóp, auk þess sem við höfum átt gott samstaf við stærri verktakafyrirtækin. Stefna fyrirtækisins er að geta leyst vel af hendi þau verkefni sem okkur eru falin,“ segja þeir og eru komnir með hugann upp í Borgarnes þar sem fyrir liggur að leysa afar flókinn fellivegg í byggingu menntaskólans sem þar er að rísa, þann flóknasta sem þeir hafa tekist á hingað til.

Við erum lítið á íbúðamarkaði en þar mun niðursveiflan koma harðast niður.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga