Greinasafni: Skipulag einnig undir: Arkitektar
Formlega séð, er ekkert dæmigert fyrir okkur

Hjá Zeppelin arkitektum eru sjaldnast farnar hefðbundnar leiðir. Eigandinn, Orri Árnason arkitekt og sambýliskona hans, Helga Þórsdóttir innanhússarkitekt eru óhrædd við að nota þau áhrif sem mótuðu þau í námi í Suður- Evrópu.

Helga Þórsdóttir innanhússarkitekt
og Orri Árnason arkitekt. Mynd Ingó

Zeppelin arkitektastofan var stofnuð fyrir tíu árum af Orra Árnasyni, sem þá hafði nýlokið námi í arkitektúr í Madríd á Spáni. Hann segir að hið suðræna borgarsamfélag hafi verið heillandi en hættulega auðvelt sé að verða samdauna því kalda og hráa umhverfi sem hér sé. Því sé nauðsynlegt að fara oft utan og rifja það upp hvernig alvöru borgarsamfélag sé uppbyggt. „Borgarstemmningin er allt öðruvísi á Spáni og í suðurhluta Evrópu en hér, bæði hvað skipulag, hugsun og stemmningu varðar. Hún er svo miklu meira lifandi og skemmtilegri. Fyrir einu og hálfu ári byrjaði Helga að vinna hjá okkur. Hún lærði innanhússarkitektúr í Frakklandi. Mikil áhugamanneskja um suðræn skemmtilegheit og það varð til þess að áhuginn á suður-Evrópu styrktist.“

Sumarbústaðurinn á bökkum Þingvallavatns fellur vel að landinu. Bústaðurinn var tilnefndur til íslensku byggingarlistarverðlaunanna

Helga Þórsdóttir lauk námi í innanhússarkitektúr í Frakklandi árið 1995, kom síðan heim og fór í Myndlista- og handíðaskólann sem hún lauk á tveimur árum. Eftir það lá leiðin aftur til Frakklands, þar sem hún dvaldi í tíu ár, lauk meistaranámi og starfaði að myndlist. „Svo eignaðist ég barn og þá fannst mér allt í einu myndlistin og stemmningin í kringum hana ómöguleg, auk þess sem afstaðan til innanhússarkitektúrs hafði breyst mikið hér á þessum árum,“ segir hún og bætir við: „Þegar ég lauk námi í innanhússarkitektúr var ætlast til að ég ynni allt frítt – hvert verkefni sem ég var beðin um að taka að mér átti að vera svo mikið tækifæri fyrir mig. Þetta hefur gerbreyst. Í dag er fólk mun meira tilbúið til að ganga inn í þennan heim með manni.“

Skólavörðustígur 40, á jarðhæð og í kjallara mun listagallerýið Turpentine sýna samtímalist. Íbúðir verða á efri hæðum.

Að bæta erfitt umhverfi

„Við eigum það sameiginlegt að hafa búið í Suður Evrópu,“ segir Orri, „en segja má að eftir að ég kynntist Helgu og hún fór að vinna hér, hafi áhuginn á hinum suður-evrópska lífsstíl vaknað að nýju. Auðvitað er veðrið suðurfrá miklu mildara en hér, en samt.... á Spáni verður svo heitt og þurrt að menn verða að bregðast við til að gera umhverfi sitt byggilegt. Enn horfa menn til veru araba á Spáni og þeirra aðgerða sem þeir gripu til í þessum tilgangi, að búa til forsælu og gera svæðið gróðursælt. Þeir tókust á við erfiðar aðstæður og unnu með þær og með þessum aðgerðum fegruðu þeir einnig umhverfi sitt. Við búum líka við erfiðar aðstæður, þótt ólíkar séu, en höfum ekki tekist á við þær. Kannski er ástæðan sú að þótt við teljum okkur búa í borg, höfum við í raun hafnað borginni en valið sveitina. Vandamálið er að slíkt gengur ekki upp og útkoman verður eitthvert furðuverk sem er hvorki borg né sveit. Þegar maður keyrir um borgina er eins og maður sé að keyra úti í sveit, sveit fulla af húsum en slík sveit er ekkert blómleg og alls ekki borg. Við höfum ekkert unnið með skjól og falleg torg og garða og götur og fegurðinni hefur verið varpað fyrir róða. Hér er lítill gróður og....þegar ég tala um að hér sé nánast enginn gróður, þá er það staðreynd að langstærstur hluti af öllum trjágróðri sem finnst í Reykjavík er inni á einkalóðum. Borgin er lítið að græða og fegra sitt svæði. Hvers vegna eru til dæmis ekki tré á milli akreina og afmarkaðir trjálundir úti um alla borg, svo eitthvað sé nefnt? Grænu svæðin svokölluðu virðast í raun ekki annað en afgangar af fornum túnum. Og svo er verið að hvetja fólk til að nota strætisvagna eða hjól í þessu rokrassgati. Það hljómar að mínu mati eins og að byrjað sé á vitlausum enda í umræðunni.

Útsýni er á milli húsanna yfir á smábátahöfnina. Tré teygja sig upp um ljósop á bílageymslunni.

Einhverra hluta vegna halda menn að hér á Íslandi gildi önnur lögmál um borgarskipulag en í öðrum löndum. Hvar eru breiðstrætin með glæsilegar byggingar og gróðursælar gangstéttir? Í stað breiðstræta höfum við valið leið hraðbrauta, skrímsli svo hræðileg að þau þarf að afskerma með fjallháum mönum, og eru vörðuð mislægum og risastórum gatnamótum. Hraðbrautirnar búta borgina niður og til verða einsleit og einangruð svæði eins og Skeifan, Ártúnshöfði og Borgartún sem eru alveg dauð á kvöldin og um helgar. Við verðum að breyta hraðbrautunum í breiðstæti og reka vegagerðina út fyrir borgarmörkin, en hún hagar sér eins og fíll í postulínsbúð“.

Þegar Orri og Helga eru spurð hvort áhrifa frá Suður-Evrópu gæti í hönnun þeirra, segja þau að formrænt sé það ekki. „Hins vegar má segja að áhrifin sjáist í lífsafstöðu, efnisvali, litum, skreytingum, grafík og öðru slíku – sem hefur verið algert tabú hér undanfarin ár. „Fyrir okkur er hús alltaf spurning um íverustað fyrir fólk. Þér á að líða vel þar.“

Of heflað og klínískt
Við Íslendingar hugsum allt of mikið um viðhaldsfrí efni og að auðvelt sé að þrífa í kringum okkur. Þetta er auðvitað ágætt útaf fyrir sig en hættan er auðvitað sú að við lendum með sterilt og ljótt umhverfi, þar sem ekki er pláss fyrir stemmningu. Við eigum það til að fylgja hvert öðru um of, taka ekki fagurfræðilegar áhættur, ef til vill vegna þess að nálægðin er svo mikil hérna og allir þekkja alla. En auðvitað er það okkar hönnuðanna að ganga á undan með góðu fordæmi og kynna nýja möguleika. Og þrívíddin hjálpar okkur mikið í þessu efni„.

 

Skemmtilegur skóli

Þegar verkefnalistin hjá Zeppelin arkitektum er skoðaður, er óhætt að segja að hann sé æði fjölbreyttur. Þar er að finna, skóla, skrifstofubyggingar, sumarbústaði, einbýlishús, fjölbýlishús og skipulagsverkefni. Þar er það þó Sjálandsskóli í Garðabæ sem fyrst af öllu fangar athyglina – enda segja þau Orri og Helga að hann hafi verið sérstaklega gaman að hanna.

Byggingin er alveg niður við sjávarbakkann og í gegnum hana rennur lækur. Skólinn er blanda af opnum og lokuðum svæðum, þar sem opnu svæðin eru misjafnlega prívat, þannig að krakkarnir geta fært sig um svæðið eftir því hvernig liggur á þeim. Þau geta valið að vera út af fyrir sig, eða þar sem eru aðeins meiri ærsl. Þau eru ekki bundin við borðið sitt. Það er meiri hreyfing á bekknum. Námið er sjálfstæðara, eða réttara sagt, einstaklingsmiðaðra. Þau verða sjálf að bera dálitla ábyrgð á sínu námi. Það má því segja að skólinn minni helst á þekkingagarða þar sem fólk getur hist og borið saman bækur sínar.“ Sjálandsskóli er mjög litríkur og flottur skóli og Orri og Helga taka undir það að hann sé örugglega litríkasti skóli Íslands. Litagleðin sé þó alls ekki yfirþyrmandi – þótt þar sé vissulega mikið stuð.

Forðumst að ofhanna hlutina

En á borðinu eru fleiri verkefni – og sum þeirra töluvert stærri, til dæmis skipulagsverkefni á svæðinu við Suðurhöfn Hafnarfjarðar, Sjólareitnum svokallaða, þar sem meiningin er að rísi eins konar bryggjuhverfi. Hugsunin er sú að þú getir búið þarna og unnið, átt bát í höfninni og innan svæðisins sé öll sú þjónusta sem þú þarft á að halda. Hverfið er framlenging á miðbænum, ásamt því að tengjast áframhaldandi byggð í vestur. Í því miðju er lítið torg og svið þar sem listamenn geta komið fram og skemmt. Lítil sem engin bílaumferð yrði á yfirborði hverfisin því langflest bílastæði yrðu neðanjarðar. Þannig má gera yfirborð hverfisins mun skemmtilegra, t.d. með miklum trjágróðri. Þetta er hugsað þannig að byggingarnar og gróður myndi umgjörð um litríkt mannlíf. Lifandi höfn er svo auðvitað bara bónus. Í slíku umhverfi myndi það koma einkennilega út að ofhanna hlutina, en partur af þessu verkefni myndi líklega verða nokkuð grófur, t.d. bryggjuparturinn. Það eiga allir að geta haft ánægju af því að leika sér í fjörunni og á bryggjunni. Það er þó ekki Hafnarfjarðarbær sem stendur að hönnunni, heldur er Zeppelin að hanna svæðið fyrir eigendur Sjólareits.

Á verkefnalistanum er einnig sumarbústaður við Þingvallavatn – og var hann tilnefndur til Íslensku byggingalistarverðlaunanna. „Það sem er merkilegt við hann er hvað hann fellur einstaklega vel að umhverfinu, er nánast ósýnilegur þangað til þú kemur að honum,“ segir Orri. „Hann myndar mikið skjól og góða umgjörð um fjölskyldulíf – og svo er einstakt útsýni frá honum yfir vatnið og næsta umhverfi. Maður upplifir því náttúruna mjög vel. Hönnunin var krefjandi verkefni því eigendurnir gerðu miklar kröfur en á sama tíma voru okkur settar strangar skorður af skilyrðum sem eru um byggingar á þessum stað. Þú mátt bara byggja visst marga fermetra innan þjóðgarðsins – en á endanum náðist sátt á milli þarfa fjölskyldunnar og reglugerðarinnar og sumarbústaðurinn er risinn.“

Heildarhugsun og þrívíddarteikningar

Eins og Orri sagði breyttust áherslur hjá Zeppelin eftir að Helga hóf störf hjá stofunni. „Við leggjum núna meiri áherslu en áður á innanhússhönnun og að klára þau hús sem við höfum verið að teikna,“ segir Helga. „Það munar mjög miklu hversu húsið verður betur heppnað ef það er hugsað alveg til enda á teikniborðinu. Þá er ein heildarhugsun sem nær í gegnum allt húsið og það verður vissulega áþreifanlegt í fullkláruðu húsi.

„Hvert hús á að vera upplifun,“ Menntun okkar og dvöl í Suður Evrópu hefur gefið okkur aðra sýn á lífið og tilveruna og sú tilfinning nær til bygginga sem okkur er trúað fyrir að hanna,“ segir Orri. Þar með er ekki sagt að við séum í því að hanna franska herragarða. Öðru nær, við leitumst við að aðlaga suðræna reynslu okkar að íslenskum veruleika. Við leggjum okkur fram við að skilja kúnnana okkar, hverjar þeirra venjur og langanir eru. Við jafnvel stúderum stundum hvernig menn hreyfa sig, til þess að átta okkur á hversu mikið athafnarými þeir þurfa við hina eða þessa athöfnina. Svo leggjum við gríðalega mikla áherslu á það að vinna með staðsetninguna; finna alla mögulega kosti sem hún gefur og vinna út frá þeim.

„Í hönnun okkar, skilgreinum við efni, liti, allar áferðir – og við vinnum allar teikningar strax frá upphafi í þrívídd. Í fyrsta lagi býður það upp á miklu meiri nákvæmni og viðskiptavinurinn á betra með að átta sig á því sem við erum að tala um – því það er staðreynd að fólk er mislæst á venjulegar teikningar. Enda finnum við það á okkar viðskiptavinum þegar við förum að kynna hugmyndir okkar með þessum hætti að það verður mjög spennt. Það er að sjá eitthvað nýtt. Og þegar þú ert með þrívíddarteikningu er svo auðvelt að sjá allt fyrir sér.“

Sem dæmi um skemmtileg hús sem nú eru á teikniborðinu eru Miðbraut 28 á Seltjarnarnesi og við Stórakur í Garðabæ. „Það sem einkennir þessi hús, er að þau eru hönnuð út frá staðnum, með tilliti til útsýnis, skjólmyndunar og tengsla við garð, ásamt þörfum fjölskyldunnar,“ segja þau en þvertaka fyrir að þau séu dæmigerð fyrir hönnun þeirra. „Formlega er ekkert dæmigert hjá okkur og yfirleitt tekur húsið völdin á einhverjum tímapunkti. Við förum í ákveðna efnisleit fyrir hvert hús. Á Stórakri erum við, til dæmis, með grjóthleðslu eins og er notuð í hljóðmúra. Þetta er óhemju falleg klæðning.

Í Grundarfirði er verið að byggja hús sem við hönnuðum – og það er allt öðruvísi.“ Nema hvað að hönnunin tók mið af stórkostlegu útsýni og öðrum þáttum sem fólust í staðsetningu lóðarinnar.

 

Beðið svara

Meðal þeirra húsa sem Zeppelin arkitektar eru með í vinnslu er nýtt sýningarrými Gallerí Turpentine. Meiningin er að vera með listagallerí fyrir samtímalist á jarðhæðinni og í kjallara – Íbúðir eru á efri hæðum . Allt útlit hússins átti að bera þess merki að þarna væri samtímalist á ferðinni. „Við erum búin að gera ákaflega flott hús sem endurspeglar sérstöðu Skólavörðustígs,“ segir Helga. „Hús sem gæti verið ákveðið kennileiti við Skólavörðustíginn. Það er sjálfsagt að halda í gömul hús sem eitthvað er varið í – en sú stefna að hús eigi heilagan tilvistarrétt ef það er byggt fyrir 1920 og að samtíma-arkitektúr eigi ekki erindi við manninn – er bara út í hött. Það er glæpur við samtímann“

Önnur bygging sem stofan hefur hannað, en er í biðstöðu, er Hótel Von við Laugaveg 55. „Það er dálítið skemmtilegt innlegg inn í Laugaveginn,“ segja Orri og Helga, „og er í vinnslu. Í þessari byggingu erum að vinna með lítið hótel og port. Við erum að vinna með gróður á útveggjum, svona hangandi garða eins og í Babýloniu – sem menn eru enn að vitna í – en auðvitað enginn hefur séð. Þarna er lítið torg inn af Laugaveginum. Þú ert úti á torgi, en undir gleri- þannig að þarna er alltaf gott veður. Við sjáum fyrir okkur að þarna verði góður staður fyrir uppákomur og mannlíf.“

Hjá Zeppelin arkitektum starfa ellefu manns frá öllum heimshornum, þar af fimm arkitektar. Auk þess að starfa í Reykjavík, er stofan með útibú á Selfossi.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga