Greinasafni: Skipulag
Lúxusíbúðir með frábæru útsýni
Um helmingur hinna glæsilegu íbúða við Víkurbraut 15 í Reykjanesbæ eru nú seldar. Nú þegar er hafin bygging á húsinu við hliða. Það hús er nákvæmlega eins og búið er að steypa bílageymsluhúið á því. Byggingameistari Áskell Agnarsson, segir ekkert sé til sparað í byggingu og innréttingum.

 
Það hefur varla farið framhjá þeim sem keyra inn í Keflavík að þar við Víkurbrautina hefur risið glæsilegt fjölbýlishús sem gnæfir yfir höfninni, með óviðjafnanlegu útsýni yfir víkina, bæinn – og þegar ofar dregur, svo langt sem augað eygir yfir byggðina í Reykjanesbæ, norðanverðan Reykjanesskagann og fjallasýnina handan Faxaflóans. Sjö hæðir frá götu, níu frá bryggju, þar sem bílahúsin eru. Húsin eru byggð af Húsagerðinni hf. og segir framkvæmdastjórinn, Áskell Agnarsson að fyrirtækið hafi einfaldlega verið að byggja húsin sem eigendur þess langaði alltaf til að byggja; lúxusíbúðir þar sem allt er gert úr besta bygginga- og innréttingarefni sem völ er á. 

Íbúðirnar fullgerðar
Önnur turnbyggingin, Víkurbraut 15, er fullkláruð. Íbúðirnar eru þriggja og fjögurra herbergja, nema á efstu hæðunum, þar sem er 240 og 300 fermetra „penthouse“ íbúðir á tveimur hæðum, með um hundrað fermetra útisvölum með snjóbæðslu og graníthellum. Þetta eru sannkallaðar lúxusíbúðir og er önnur þeirra seld. „Við erum með dýr gólfefni, eikarparket og flísar,“ segir Áskell og bætir því við að í íbúðunum sé gólfhitakerfi sem lagt er á vandaðasta hátt. „Það er líka mjög vel í lagt með innréttingar og innihurðir, allar svalir eru flísalagðar, rúmgóðar og stórar með glerlokun. Íbúðunum fylgja öll heimilistæki; þvottavél, þurrkari, uppþvottavél og ísskápur. Baðherbergin eru mjög glæsileg, með tveggja fermetra strutuklefum á bak við glerveggi. Íbúðirnar eru allar ríkulega búnar halógen ljósum og mynddyrasíma, auk þess sem sjónvarpstenglar eru í öllum herbergjum. Í húsinu er lyfta sem gengur niður í upphitaða bílageymslu og upp á allar hæðir. Eitt bílastæði í bílageymslu fylgir hverri íbúð.“ 

Gamall draumur
„Ég hef byggt mikið magn af húsnæði þar sem maður er í eilífum slag við að halda verðinu niðri, en oft höfum við líka verið í verkefnum þar sem við erum að gera mjög fallega hluti. Mig hefur lengi langað til að gera fallega hluti í íbúðarhúsnæði, safna saman hugmyndum sem ég hef öðlast með reynslu og nýta þær til að gera klassa íbúðir. Fyrir þremur árum fór ég að velta fyrir mér að byggja íbúðarhúsnæði á þessum lóðum. Ég sá strax fyrir mér að þetta væri flottur staður fyrir útsýnisíbúðir. Lyftustokkurinn í húsunum er 30 metra langur og þú ert farin að sjá vel yfir strax uppi á 3. hæð.“ Það verður að viðurkennast að óvíða er að finna eins glæsilegt útsýni til allra átta og gerist á efri hæðum húsanna við Víkurbrautina. 

Áskell Agnarsson,
byggingameistari.


Gróið fyrirtæki
Húsagerðin hf. var stofnuð 1972 og hefur reist fjölda íbúðarhúsa, um 500 íbúðir, auk annarra mannvirkja á Suðurnesjum. Það má því segja að innan fyrirtækisins sé því til þekking á öllum aðstæðum á Reykjanesskaganum.

Áskell segir Húsagerðina hafa fengið dálítið forskot í verkefnabransanum strax í upphafi. „Við vorum fyrstir á Suðurnesjum til að koma með byggingakrana og kerfismót og framleiddum mikið af fjölbýlishúsnæði. Víkurbæjarhúsið í Keflavík var hins vegar fyrsta verkefnið sem við fengum sem verktakar og við vorum ákaflega stoltir af því.“ 

Mikilvægt að vinna af metnaði
Eftir það höfum við mest byggt af íbúðarhúsnæði og tilfallandi tilboðsverkum. Þetta er ekki stórt fyrirtæki. Í dag erum við með sextán manns á launaskrá, ráðum síðan frekar undirverktaka heldur en að bæta við mannskap. Það er auðvitað hægt að þenja sig einhver ósköp á þeim uppgangstímum sem verið hafa, en það er ekki svo mikið um góðan mannskap að ræða. Við höfum farið í gegnum svo mörg tímabil hæða og lægða í þjóðfélaginu og vitum að það er auðvelt að missa stjórn á starfseminni. Það er svo miklu betra, þegar til lengri tíma er litið, að sinna sínum hlutum vel. Það skiptir meginmáli gagnvart viðskiptavininum – en það er líka mikilvægt til að halda áhuga hjá sínu starfsfólki. Það þarf að vinnaaf metnaði til að halda áhuga þess. Ég get sagt með stolti að ég er með mjög metnaðarfulla stráka sem vinna hjá mér. Stráka sem hafa gaman af sínu fagi og mikinn áhuga á því.“ 

Margar merkilegar byggingar
Meðal þeirra verkefna sem Húsagerðin hf. hefur tekið að sér eru ýmsar skólabyggingar, íþróttahús, loðnubræðsla og flokkunarstöð í Helguvík, loðnuverksmiðju á Siglufirði, auk þess að vera með þjónustu við Bláa Lónið til margra ára. „Við stækkuðum til dæmis lónið þar sem eru núna gufuböð og hinn frægi foss, auk þess sem við gerðum sæluvíkina þar sem nuddlónið er. Við sáum um viðhald og viðbyggingar við lónið um árabil, en það var aukaverkefni hjá okkur. Mjög skemmtilegt verkefni með metnaðarfullu hönnunarfólki.“  Eiginlega er hægt að keyra lengi dags um Reykjanesbæ til að skoða byggingar sem Húsagerðin hefur reist. Fyrirtækið byggði safnaðarheimili Keflavíkurkirkju og stækkaði kirkjuna.
Íþróttahúsið við Sunnubraut er líka ein af byggingum Húsagerðarinnar, Grunnskólinn úti í Garði, viðbyggingar við Myllubakkaskóla, starfsmannahús fyrir Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi, aðveitustöð í Njarðvík og Bifreiðaskoðunarstöð Frumherja í Njarðvík. Ekki svo að skilja að átthagafjötrarnir hafi verið að þvælast fyrir þeim félögum, því þeir hafa bæði byggt íbúðarhúsnæði í Kolbeinsmýri á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði. Einnig byggði fyrirtækið Vörðuna, stjórnsýsluhúsið í Sandgerði sem er heljarmikil bygging. Inni í því húsi eru 11 íbúðir sem eru þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara, bókasafn, bæjarskrifstofur, þjónustueldhús fyrir skólana og eldri borgara, bankaútibú og heilsugæsla. Tíu raðhús voru reist í Garðinum en þau eru þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Í Sandgerði reisti fyrirtækið einnig skóla og íþróttavallarhúsið. Svo má nefna iðnaðarhúsnæði á Iðavöllum í Keflavík, þar sem fyrirtækið er einnig með verkstæði og aðstöðu. Hér hefur aðeins verið nefnt brot af þeim byggingum sem fyrirtækið hefur tekið að sér – og enn er ótalinn allur sá fjöldi íbúða sem fyrirtækið hefur reist fyrir bæjarfélögin.

Það er auðvitað hægt að þenja sig einhver ósköp á þeim uppgangstímum sem verið hafa, en það er ekki svo mikið um góðan mannskap að ræða. Við höfum farið í gegnum svo mörg tímabil hæða og lægða í þjóðfélaginu og vitum að það er auðvelt að missa stjórn á starfseminni. Það er svo miklu betra, þegar til lengri tíma er litið, að sinna sínum hlutum vel.
 
 
Heimasíða fyrirtæksins er www.husagerdin.is og þar er hægt að sjá hvaða íbúðir eru enn óseldar við Víkurbraut 15.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga