Greinasafni: Söfn
Heklusetrið á Leirubakka


Heklusetrið á Leirubakka var opnað 5. maí 2007 við hátíðlega athöfn að viðstöddu miklu fjölmenni.. Setrið er opið alla daga frá 10-21.

Í Heklusetrinu hefur verið sett upp nútímaleg og fræðandi sýning um Heklu, sögu hennar og áhrif á mannlíf á Íslandi frá landnámi til okkar daga.
Sérstök áhersla er lögð á áhrif Heklu á mannlíf í næsta nágrenni fjallsins, það er í Landsveit, Holtum og á Rangárvöllum. Saga þessara sveita verður rakin og baráttan við sandstorma og uppblástur sögð. Vandað veitingahús og aðstaða er til funda- og ráðstefnuhalds í húsinu

Listviðburðir verða einnig í húsinu. Einn liður verður t.d. “Heklulistamaður ársins” en þar munu þjóðkunnir myndlistamenn sýna Heklu frá ýmsum sjónarhornum. Ragna Róbertsdóttir var Heklulistamaður ársins 2007 og hefur hún sett upp listaverk unnið úr gosefnum úr Heklu í aðalsal hússins og verður verk hennar þar til frambúðar.

Mikil áhersla verður lögð á samstarf við vísindamenn um þátttöku í starfsemi Heklusetursins, þar sem nýjungar og rannsóknaniðurstöður verða kynntar, bæði í formi sýninga og ráðstefna. Sérstakt efni er til fyrir  skólanema, sem koma  hvaðanæva að af landinu í heimsókn, sem og hópa innlendra og erlendra gesta.

Í Heklusetrinu er  starfandi ferðamannaupplýsingastöð, sem leiðbeinir  ferðafólki um allt nágrennið, Heklu þar með talda, og eins eru margar  ferðir farnar á fjallið frá Leirubakka fyrir ferðamenn.

Heklusetrið er í húsi sem sérstaklega er byggt til að hýsa þessa starfsemi og er það hannað af EON-arkitektum.  Sýningin er hönnuð af Árna Páli Jóhannssyni. Höfundur handrits er Ari Trausti Guðmundsson. Gagarín ehf. sá um uppsetningu og margmiðlun.

Einstakur arkitektúr í stórbrotnu umhverfi
Hús Heklusetursins á Leirubakka er um 500 fermetra bygging og  var það  sérstaklega hannað og byggt til að hýsa starfsemi Heklusetursins; Heklusýningu, ráðstefnuaðstöðu og veitingahús. Gamli bæjarhóllinn er hluti af arkitektúr hússins og náttúruleg efni svæðisins er partur af byggingunni. Hraungrýti sem sótt er til Heklu er notað í byggingunni bæði úti og inni. Nálægðin við eldfjallið magnar upp þetta einstaka samspil náttúru og byggingarlistar. Byggingin er fléttuð inn í hraunbreiður og jarðlög, íslenskt hraun er notað sem klæðning, þannig að við komu að Heklusetrinu  mætir gestum  hár hraunveggur, þar sem dyr og gluggar eru skornir inn í  klettinn, og þannig notuð gömul þjóðsagnaminni um að gestir hússins ”gangi í björg” er þeir koma inn í húsið.

Þegar gengið er inn í sýningarhluta byggingarinnar á að vera sem gengið sé undir yfirborð jarðar,  inn í helli undir hraunbreiðum eldfjallsins. Form byggingarinnar leiðir áhorfanda í gegnum safnið, sem segir sögu Heklu á margvíslegan hátt, langt aftur í aldir og skýrir eðli eldgosa. Áhorfendur upplifa eldgos á einstakan hátt en þar spilar nútíma tölvutækni stóran þátt og mynda bæði hraunstrauma og kvikugýga. Miðpunktur sýningarinnar er Hekla sjálf sem birtist í öllu sínu veldi,  í gegnum alla sýninguna.

Veitingar
Á Leirubakka er rekið veitingahús í hæsta gæðaflokki sem stjórnað er af matreiðslumeisturum sem starfað hafa og getið sér gott orð á kunnum veitingahúsum hérlendis og erlendis.

Glæsilegur sérréttaseðill stendur gestum til boða, sem og hópamatseðlar ef um það er beðið. Mikið er lagt upp úr góðu hráefni og vandaðri eldamennsku. Hráefnið er oft sótt í nágrenni Leirubakka, svo sem lambakjöt af Landmannaafrétti og silungur úr Veiðivötnum og Ytri-Rangá.

Matseðillinn fyrri hluta dags samanstendur af fjölbreytilegum, en fremur léttum réttum, en á kvöldin er boðið upp á stærri og fjölbreyttari matseðil. Kaffi, kökur og brauð er afgreitt allan daginn til klukkan 18, en þá tekur kvöldverðarseðillinn við.

Veitingastaður Heklusetursins opnaði vorið 2007, hafa vinsældir staðarins verið miklar.
Matsalurinn er í Heklusetrinu, þar sem einstakt útsýni  til Heklu um stóra glugga salarins undirstrika  nálægðina við eldfjallið mikla og  allt  miðhálendi Íslands.
Veitingahúsið er opið alla daga á sumrin frá klukkan 10 til 22, og á veturna eftir nánari auglýsingum og samkomulagi.
Úr bæði sýningar- og veitingasal  hússins er óviðjafnanlegt útsýni til Heklu.

Fræða- og menningarsetur er hluti af ferðaþjónustunni á Leirubakka í Landsveit
Sjá meira hér

Leirubakki
leirubakki@leirubakki.is | bookings@leirubakki.is
Sími/Tel. +354 487 8700 | GSM/Mobile: +354 893 5046
Fax: +354 487 6692
www.leirubakki.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga