Í blómabúð skreytingameistarans
Í Þorlákshöfn er blómabúð sem býður upp á sérlega fallegar blómaskreytingar fyrir hvers kyns tækifæri. Verslunin heitir Blómabúð Brynju og er í eigu Guðrúnar Brynju Bárðardóttur sem nýlega tók við starfi námsbrautarstjóra blómaskreytingabrautar Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi.

Guðrún Brynja hóf rekstur blómabúðarinnar á Unubakka árið 2005 en fannst svona falleg búð eiginleg ekki eiga heima í iðnaðarhverfi og flutti sig því um set í Ráðhúsið í Þorlákshöfn fyrir einu og hálfu ár. Í versluninni er mikið úrval af pottaplöntum og afskornum blómum og eigandinn tekur að sér allar hefðbundnar blómaskreytingar, eins og brúðarvendi og útfararkransa, skreytir sali fyrir veislur og dansleiki og stíliserar skrifstofur. En í Blómabúð Brynju fæst fleira en blóm, því þar er fjölbreytt gjafavara og flest sem til þarf til að rækta pottablóm. Þegar Guðrún Brynja er spurð hvernig gangi að reka blómaverslun í þessu mikla blómahéraði, segir hún: „Hér var engin blómabúð þegar ég opnaði. Það höfðu tveir eða þrír reynt blómabúðarekstur hér áður en ég fór af stað, en síðustu búðinni var lokað í nóvember 2004.“ En Guðrún Brynja hefur staðið af sér byrjunarörðugleika og lætur vel af sínum rekstri. Hvað gjafavöru varðar, segist Guðrún Brynja bæði vera með ódýra vöru en einnig klassagjafavöru frá Rosenthal og fleirum. “Ég er með glös og bolla, vöru sem hefur söfnunargildi og hún hefur reynst mjög vinsæl hjá mér. Ég hef líka verið að selja veski úr roði og leðri, sem ég er að vísu ekki með á lager, heldur panta þegar fólk biður mig um það. Þetta er of dýr vara og einstök til að vera með hana á lager en það er óskaplega gaman að geta boðið upp á hana. Nú, svo er auðvitað hægt að fá fallega blómavasa, kertastjaka og ilmkerti í Blómabúð Brynju.”

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga