Greinasafni: Söfn
Listasafn Árnesinga - Metnaðarfullt sýningastarf
 Listasafn Árnesinga er í Hveragerði. Sýningarsalir eru fjórir og þar eru árlega settar upp fjórar til fimm metnaðarfullar sýningar og þeim fylgt úr hlaði með fræðsludagskrá og sýningarskrá. Tilurð safnsins má rekja til rausnarlegrar listaverkagjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona, sem telur verk helstu listamanna frá fyrri hluta síðustu aldar. Þar á meðal átján verk efir Ásgrím Jónsson frumkvöðul í íslenskri málaralist, en hann var frændi Bjarnveigar.
Listasafn Árnesinga varðveitir einnig tréskurðarsafn Halldórs Einarssonar. Safnið var opnað á Selfossi 1975, en flutt í núverandi húsnæði 2003. Það er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, þ.e. allra sveitarfélaganna átta í Árnessýslu. Safnstjóri er Inga Jónsdóttir.

Núverandi sýning, sem mun standa til 20. júlí, ber heitið Listamaðurinn í verkinu – Magnús Kjartansson. Að sögn Ingu eru þar til sýnis stór pappírsverk sem Magnús vann á árunum 1982-88 og hafa fæst verið til sýnis áður. “Í þeim má rekja tilraunir Magnúsar með ýmsar ljósprentsaðferðir sem gerðu honum kleift að þrykkja hluti, myndir og jafnvel eigin líkama beint á pappírinn. Í mörgum myndunum má síðan sjá hvernig Magnús hefur unnið þær áfram, stundum með kemískum aðferðum en stundum með málningu,” segir Inga. 

Næsta sýning mun standa frá 27. júlí – 28. september, en hún verður á verkum Höskuldar Björnssonar sem bjó í Hveragerði frá 1946 – dánardægurs 1963. Inga segir hann einkum vera þekktan fyrir fuglamyndir sínar og á sýningunni verður fjölbreytt úrval verka hans til sýnis og einnig einstök myndskreytt sendibréf til vina.

Síðasta sýning ársins verður Picasso á Íslandi þar sem sjónum er beint að beinum og óbeinum áhrifum Picasso á myndlist íslenskra myndlistarmanna allt frá 1930 og fram til dagsins í dag. Sú sýning mun standa frá 4. október – 14. desember. Í safninu er notaleg kaffistofa og setustofa þar sem skoða má ýmis rit um myndlist. Safnið er opið alla daga yfir sumarið, frá maí til september, kl. 12–18. Aðra mánuði er opið frá fimmtudegi til sunnudags kl. 12–18 en lokað í mánuð yfir jól og áramót. Aðgangur er ókeypis

LÁ ART MUSEUM
AUSTURMÖRK 21
810 HVERAGERÐI
listasafn@listasafnarnesinga.is
www.listasafnarnesinga.is
Sími 483 1727

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga