Í Hveragerði hafa þau Grýla og Leppalúði hreiðrað um sig

Í Hveragerði er margt markvert að sjá og auðveldlega má eyða drjúgum tíma í að skoða það sem bærinn hefur upp á að bjóða. Hveragerðiskirkja gnæfir yfir gestum en rétt handan hverasvæðisins eru skáldagöturnar Frumskógar og Bláskógar þar sem mörg af stórskáldum þjóðarinnar bjuggu á árdögum byggðar í Hveragerði. Rétt hjá kirkjunni er Sandhólshverinn og ekki er langt í skógræktina undir Hamrinum en þar hafa verið lagðar fallegar gönguleiðir um skógi vaxnar hlíðar. Í lystigarðinum í miðbænum er notalegt að borða nestið sitt um leið og tærnar eru bleyttar í ylvolgri ánni og dáðst að Reykjafossi. Sé gengið yfir brúna í lystigarðinum og upp brekkuna handan árinnar er komið að sundlauginni Laugaskarði þar sem einkar ánægjulegt er að ljúka deginum í sjóðheitum pottunum eða heilsusamlegu gufubaðinu áður en einhver hinna fjölmörgu veitingastaða bæjarins eru heimsóttir.

Grýla, þekktasti goshverinn í Hveragerði, er norðan Hamarsins á vinstri hönd rétt eftir að komið er inn í Ölfusdal. Grýla gaus allt upp í 15 m hæð á klukkustundar fresti þegar hún var upp á sitt besta. Leppalúði er óformlegt nafn á „goshver“ sem er inni í Ölfusdal, við veginn á hægri hönd, rétt áður en komið er að brúnni yfir Varmá á leið að golfvellinum í Gufudal. Í raun er þetta grunn borhola sem áhugavert er að skoða því þar er sígos, þriggja til fjögurra metra hátt.

Fossflötin markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun skrúðgarðs hófst þar árið 1986 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms. Í gilinu eru hinar fegurstu litasamsetningar og hveralandslag sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Í umhverfisskipulagi fyrir Hveragerði og nágrenni er lögð áhersla á verndun sérstakra náttúrufyrirbæra og uppbyggingu á samfelldu kerfi aðgengilegra og innihaldsríkra útivistarsvæða. Hamarinn skiptir bæjarlandinu í tvo hluta. Sunnan hans er byggðin, en að norðan er Ölfusdalur, óbyggður að mestu. Lengra í norður er Hengilssvæðið en þar hefur opnast samfellt útivistarland með skipulögðum og merktum gönguleiðum sem ná frá Mosfellsheiði í vestri, Þingvallavatni í norðri og að Úlfljótsvatni í austri. Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út gönguleiðakort af svæðinu sem nálgast má á upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn.

Dalirnir uppaf Ölfusdal heita Reykjadalur og Grænsdalur (Grændalur). Gufudalur er nafn á býli austast í Ölfusdalnum en uppaf því eru dalverpi með skemmtilegum gönguleiðum. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu sem enginn útivistarmaður ætti að láta fram hjá sér fara. Um dalina má fara styttri og lengri vegalengdir sem byrja og enda í Hveragerði. Gott aðgengi er að flatlendinu (Árhólmum) innst inni í Ölfusdal og nægt pláss fyrir bíla. Þar er kort sem sýnir gönguleiðir um Hengilssvæðið.

Göngustígakerfi Hveragerðis gegnir mikilvægu hlutverki við að tengja öll svæðin saman. Upp úr Ölfusdal liggur merkt gönguleið um Reykjadal inn á gönguleiðakerfi Hengilssvæðisins. Ölfusdalur er því hlekkur sem tengir saman byggð og ósnortna náttúru. Í bænum liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Garðyrkjuskóla ríkisins, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að ganga upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga