Greinasafni: Söfn
Í Veiðisafninu á Stokkseyri - Uppstoppuð dýr, skotvopnin sem þau voru veidd meðÍ Veiðisafninu á Stokkseyri er hægt að sjá fjölbreytt úrval uppstoppaðra veiðidýra, skotvopna og veiðitengdra muna, auk þess sem hægt er að fræðast um veiðidýr, skotvopn, veiðar og náttúruvernd. Veiðisafnið er einstakt að því leytinu til að uppstoppuðu dýrin eru frá mörgum löndum í heiminum. Þarna má sjá ljón, zebrahesta, gíraffa, hreindýr, apa, seli, bjarndýr og sauðnaut auk fjölda annarra dýra.
 

Jafnframt eru á Veiðisafninu til sýnis munir frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem Veiðisafnið hefur til sýningar samkvæmt sérstökum varðveislusamningi.Veiðisafnið er sjálfseignarstofnum og eru stofnendur Páll Reynisson og Fríða Magnúsdóttir. 

Gestir og gangandi
 “Það áttu margir leið til okkar og fólkið sagði að það væri eigingirni að sýna ekki dýrin almenningi. Til að gera langa sögu stutta þá komu yfir 1000 manns í gegnum eldhúsið á sex mánaða tímabili og það var annað hvort að flytja úr landi eða opna húsið, sem við gerðum og búum við í hluta af safninu.” Að sögn Páls hefur safnið vaxið hraðar en nokkur átti von á . “Nú eru hjá okkur, ekki aðeins uppstoppuð dýr og skotvopn og fleira sem tilheyrir viðfangsefninu, heldur erum við með í láni muni frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þeir lána okkur og við lánum þeim. Við höfum til dæmis lánað þeim hvítabjörninn okkar, álft og tófu sem Náttúrufræðistofnun setti á sýningu sem þeir voru með á Hlemmi.”
 
Of lítið frá byrjun
 “Það má segja að þegar við stofnuðum Veiðisafnið þá var það strax of smátt í sniðum. Allar áætlanir sem voru gerðar í upphafi dugðu ekki til og ákvörðun var tekin um að stækka og fara í byggingu á nýju húsi og þar með bæta við einum sýningarsal þannig að nú er safnið í tveimur rúmgóðum sýningarsölum og við erum ánægð með þann árangur sem við höfum náð og stefnum á að gera betur. 

Gestir okkar eru flestir Íslendingar og orðspor safnsins hefur spurst út og hér koma áhugasamir veiðimenn og aðrir sem eru eru forvitnir um safnið og einnig skólanemendur í skipulagðar ferðir og eru þeir einstaklega áhugasamir. Við höfum sérstaka fyrirlestra fyrir börn, þau vilja líka heyra veiðisögur eins og fullorðnir.”
Safninu berast gjafir úr ýmsum áttum: “Fólk sem kemur hingað tekur eftir því að hér er góður geymslustaður fyrir ýmislegt sem tilheyrir safninu svo sem skotvopn, uppstoppuð dýr og veiðitengda muni enda teljum við samsetninguna einstaka og hvergi eins safn að finna. Hér eru dýrin sem hafa verið veidd, skotvopnin sem þau voru veidd með og svo erum við hér veiðfólkið sjálft.“ 

Vísundar væntanlegir  
Páll og Fríða eru lengi búin að stunda skotveiði og titla þau sig sem söfnunarveiðimenn: “Við erum alltaf að reyna að hafa þetta sem fjölbreyttast og viljum vera með dýr frá sem flestum heimsálfum og er uppistaðan dýr sem við höfum veitt ásamt Jónasi Geir veiðifélaga okkar, hér á Íslandi, Grænlandi, SuðurAfríku, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Síðasta veiðiferðin var farin í janúar. “Við fórum saman ég og Jónas Geir til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem við veiddum tvo stóra vísunda. Þeir eru nú báðir í uppstoppun og koma eftir næstu áramót. Ég get lofað því að þeir eru flottir og eiga eftir að vekja mikla athygli.”
Þegar Páll er spurður hvað sé helsta aðdráttaraflið þá segir hann það gíraffann og ljónin: “Við fáum spurningar daglega um fíl og við myndum ekki hafa á móti því að geta sýnt fíl hér á safninu. Vonandi verður það að veruleika.” 

Fljótlega verða settir upp munir og skotvopn í Veiðisafninu frá tveimur landsþekktum refaskyttum: “Þessar tvær skyttur voru Einar Guðlaugsson frá Þverá og Sigurður Ásgeirsson frá Gunnarsholti. Það er okkur heiður að fá að sýna muni frá þeim en þeir létust báðir með stuttu millibili á þessu ári.”

Drífuvinafélagið
Veiðisafnið í samvinnu við afkomendur Jóns Björnssonar byssusmiðs frá Dalvík stóðu fyrir stofnun Drífuvinafélagsins árið 2005: “Jón Björnsson er án efa afkastamesti byssusmiður er uppi hefur verið á Íslandi. Hann nefndi byssur sínar Drífur og er einstakt í Íslandssögunni að einn og sami maðurinn hafi smíðað á annað hundrað haglabyssur. “Við erum búin að finna allar nema fimm af þessum 120 byssum og ég hef trú á því að við finnum þær allar á endanum.” 

Nánari upplýsingar um safnið má
finna á www.veidisafnid.is
 Eyrarbraut 49 - 825 Stokkseyri 
www.hunting.is - museum@hunting.is 
+354-483-1558


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga